Kjaramál fiskimanna og fleira

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 15:24:51 (7911)

2001-05-16 15:24:51# 126. lþ. 125.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, SJS
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 126. lþ.

[15:24]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég held að ekki sé of djúpt í árinni tekið að segja að meðferð þessa máls af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og meiri hluta hennar á Alþingi sé að verða eitt mesta reginklúður sem hefur lengi verið á dagskrá á Alþingi og hef ég þó verið hér í full átján ár. Ég man bara varla eftir því að mönnum hafi tekist að vefja jafnhressilega saman höndunum og flækja um sig fótunum og meiri hlutinn hefur verið að gera í þessu máli allt frá því að framlagningu þess bar að með miklum endemum á laugardaginn var.

Þjóðin, sem fylgst hefur með fréttum, hefur væntanlega upplifað að meiri hlutinn er á flótta með málin, hrekst út og suður með hluti sem ganga augljóslega ekki upp en ætlar að láta sig hafa það í lokin að klúðra þessu að endingu saman þannig að það er auðvitað algjör óhæfa. Það sér hvert mannsbarn sem hugsar það eitt augnablik að ætla að láta alls saklausa aðila, sem hafa engar aðgerðir haft uppi, gjalda þess að málin hafa lent í hnút annars staðar og svipta þá grundvallarmannréttindum með vísan til þess að einhverjir aðrir hafa ekki náð að leysa mál sín í kjarasamningum.

Heyr á endemi, herra forseti. Þetta er náttúrlega svo fjarlægt öllu sem hægt er að kalla eitthvert eðlilegt réttarfar í einu landi að manni blöskrar gjörsamlega.

Hæstv. sjútvrh. mætti gjarnan vera hérna ef hann mætti við bindast hér í salnum. Það væri nú til bóta, herra forseti, þó maður skilji út af fyrir sig vel að hæstv. sjútvrh. þurfi að fara hérna fram og þurrka sér um ennið og fá sér vatnssopa af og til eins og þetta hefur allt saman gengið.

En hlutur hæstv. sjútvrh. er náttúrlega ekki góður. Hæstv. sjútvrh. ber ábyrgð á þessum vinnubrögðum. Hann ber fram þetta frv. Þó svo kunni að vera að menn gruni að hann sé ekki aðalráðamaðurinn á bænum og þar séu fleiri á bak við þá breytir það auðvitað ekki þeirri stöðu að hæstv. sjútvrh. Árni M. Mathiesen beri hina stjórnskipulegu ábyrgð á þessu frv. Og svo auðvitað meiri hlutinn ef hann ljær því atkvæði sitt.

Samkvæmt lögum um ráðherraábyrgð og samkvæmt öðrum leikreglum er þetta mál á pólitíska ábyrgð hæstv. sjútvrh. Árna M. Mathiesen og auðvitað ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar í heild sinni og meiri hluta hennar.

Niðurstaðan hér að lokum, herra forseti, eftir að stjórnarmeirihlutinn hefur engst yfir þessu máli núna í eina sex, átta klukkutíma frá því í morgun og mál sem átti að taka til umræðu klukkan tíu komst fyrst á dagskrá klukkan hálfþrjú eða rúmlega það. Það er til marks um vandræðaganginn sem þarna var og það að meiri hlutinn veit upp á sig skömmina. Þeir eru í rjúkandi vandræðum með málið og vita að þetta gengur engan veginn og er ekki boðlegt. En menn ætla samt að láta sig hafa það. Þegar var sest yfir það að skoða hvaða leiðir væru færar til þess að fara ekki út í þau glórulausu réttarbrot sem eru í uppsiglingu gagnvart aðilum sem hafa annaðhvort aflýst verkfalli af sinni hálfu eða aldrei verið í því eins og sjómenn á Vestfjörðum, þegar engin leið fannst þá ákváðu menn að láta sig hafa það og stinga sér í vatnslausa laugina. Það eru menn að gera hér. Það mun ekki fara vel.

Herra forseti. Eins og frá þessu er nú gengið í brtt. meiri hlutans á þskj. 1363 er þetta með miklum endemum. Búið er að taka Sjómannasamband Íslands út úr 1. málsl. 1. gr. enda er þar ekkert verkfall í gangi. Þar stendur eftir eitt félag, Sjómannafélag Eyjafjarðar og síðan Farmanna- og fiskimannasambandið. Síðan er verkbann útvegsmanna á aðila sem hafa aflýst verkfalli og á Alþýðusamband Vestfjarða, sem hefur alls ekkert verið í þessum viðræðum og hefur ekki boðað til verkfallsaðgerða, látið standa og notað sem afsökun fyrir því að taka samnings- og verkfallsrétt af stærsta félaginu, stærsta sambandinu, Sjómannasambandi Íslands, mínus Eyfirðinga, þar sem uppistaðan af sjómönnum á fiskiskipaflotanum er félagsbundin. Enginn veit hve lengi því það ræðst af niðurstöðu gerðardómsins hversu lengi menn verða sviptir þessum réttindum. Auðvitað gengur þetta ekki, herra forseti. Það er algerlega fráleitt að ganga svona frá þessu.

[15:30]

Eins og kom skýrt fram í máli framsögumanns minni hluta, hv. þm. Guðjóns A. Kristjánssonar, þá er niðurstaða málsins sú að LÍÚ er sett sjálfdæmi um hvort þessi mannréttindi verði tekin af sjómönnum. Gengur þetta upp, herra forseti? Síðan hvenær fékk LÍÚ réttinn til að ákveða hvort sjómenn á Íslandi hefðu verkfalls- og samningsrétt? Ég vissi ekki fyrr en núna að svo langt væri gengið að búið væri að framselja það vald til Landssambands íslenskra útvegsmanna. Svo er ekki einu sinni skýrt hvort það hefur verið tekið fyrir og afgreitt með lögmætum hætti hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna að þetta sé afstaða LÍÚ.

Ég spyr að því, herra forseti: Hefur stjórn Landssambands íslenskra útvegsmanna komið saman og gert samþykkt um að viðhalda verkbanninu? Hefur hún gert það? Það er auðvitað reginhneyksli ef Alþingi ætlar að láta bjóða sér að nota sem tylliástæðu fyrir þessari lögþvingun að LÍÚ hafi ekki enn aflýst verkbanninu. Hafa menn svo mikið sem hringt í LÍÚ? Það hefur ekki komið hér fram. Það stendur í nál. meiri hlutans að enn hafi ekkert frést um að LÍÚ ætli að aflýsa verkbanninu. Hvers konar vinnubrögð eru þetta?

Herra forseti. Hvar er hæstv. sjútvrh.?

Ætla menn virkilega að fara svona með þetta í gegn, að láta það bara fljóta að af því ekki hafi komið í fréttum kl. 12.20 að LÍÚ hafi aflýst verkbanninu, það sé ekki vitað enn þá hvort þeir muni gera það þá sé best að skella lögunum yfir alla? Svona horfir þetta a.m.k. við mér, herra forseti. Þetta eru auðvitað þvílík endemi að ég man varla eftir öðru eins.

Ef það liggur fyrir í formi samþykktar stjórnar Landssambands íslenskra útvegsmanna sem við skulum ætla að hafi þá umboð frá félagsmönnum sínum til að ákveða þetta með verkbannið, og veit ég það svo sem ekki hvernig slíkir hlutir eru ákvarðaðir þar á bæ, en það mun vera nokkuð miðstýrt apparat og hefur lengi verið, þar sem lítið hefur farið fyrir réttindum einstakra félagsmanna, þá væri það þó eitthvað sem við hefðum í höndunum. Einnig væri gaman að vita hvort þannig er komið hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna að um slíkt væri samstaða á þeim bæ. Finnst þá enginn útvegsmaður lengur sem hefur þær taugar til undirmanna sinna að hann veigri sér við að standa að slíkum hlutum, að láta nota verkbann sem er auðvitað ætlað í öðrum tilgangi en þeim að hafa lögvarin réttindi af sjómönnum eins og hér á að fara að gera? Það er algjört reginhneyksli, herra forseti.

Svo verður auðvitað gaman að vita það hvort til stendur í næstu umferð að setja meira konfekt í skóinn hjá Landssambandi íslenskra útvegsmanna og þeir fá svona í morgungjöf fréttir af því að svo verði kvótanum skellt yfir krókabátana en það er mikið áhugamál þeirra eins og kunnugt er. Er ekki rétt að smyrja þykkt á sneiðina úr því menn eru að þessu á annað borð? Því ekki það? Það munar ekki um einn kepp í sláturtíðinni, var einhvern tímann sagt.

Ég óska eftir upplýsingum um það, herra forseti, áður en umræðunni lýkur, hvernig að þessu máli hefur verið staðið af hálfu Landssambands íslenskra útvegsmanna, hvort fyrir liggi stjórnarsamþykkt um að verkbanninu verði haldið, bæði á Sjómannasamband Íslands, þá sem aflýst hafa verkfalli og eins á Alþýðusamband Vestfjarða.

Það eru engin vinnubrögð hversu oft sem hv. þm. Einar K. Guðfinnsson kemur í ræðustól og hrósar sér af því hversu vandlega og faglega þetta hafi allt saman verið unnið, með þetta á hnjánum í sömu andrá, að reyna að krafsa einhverjar lagfæringar inn í frv. í hverri einustu umferð, þá gengur þetta ekki. Þetta gengur ekki, herra forseti.

Hæstv. sjútvrh. hafði uppi stór orð um að við værum að snúa út úr máli sínu þegar við vitnuðum í ræður hans í fyrradag og í gær um það að hann hafi sagt að þeir aðilar sem hefðu aflýst verkfalli ættu að fara út úr þessum lögum hvað varðaði gerðardóminn og þau ákvæði frv. Hæstv. sjútvrh. bar mér það á brýn og hv. þm. Svanfríði Jónasdóttur, að við værum með ómerkilega útúrsnúinga úr ræðum hans. Nú skulum við ekkert vera að deila um það lengur, herra forseti, hvað þarna var sagt, heldur lesa það og láta hið talaða orð tala fyrir sig sjálft.

Á mánudaginn í upphafi umræðna um þetta mál, herra forseti, svaraði hæstv. sjútvrh. andsvari frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, og fórust svo orð, með leyfi forseta. Hér er vitnað í óyfirlesna ræðu en hún er slegin inn beint af hljóðsnældu eins og kunnugt er:

,,Ég hef út af fyrir sig engar athugasemdir við það að Sjómannasambandið og Farmanna- og fiskimannasambandið ljúki verkfallinu með því að aflýsa því. Þá er megintilgangi frv. náð um að verkfallinu ljúki og flotinn geti farið aftur af stað. Ég geri því engar athugasemdir við það. Verði það gert eru þau ákvæði frv. er lúta að því að aflýsa verkfallinu óþörf en eftir stendur þá verkbann útvegsmanna og aflýsi þeir ekki verkbanninu, þá þyrfti að koma til lagasetningar til að enda verkbannið. Mér sýnist á þeirri stöðu sem þá væri komin upp að ekki væri heldur ástæða til gerðardóms en hins vegar eru önnur atriði í frv. er varða Kvótaþingið og Verðlagsstofu og eru í beinu samhengi við þann samning sem þegar hefur náðst á þessu kjarasviði. Ég sæi enga ástæðu til þess að draga þau atriði til baka þótt verkfallinu væri aflýst.``

Mönnum þótti þetta í sjálfu sér ekki alveg nógu skýr svör og það var haldið áfram að þýfga hæstv. sjútvrh. á þessu.

Í annarri tilraun, í öðru andsvari, bætti hæstv. sjútvrh. þessu við og var enn að svara hv. 7. þm. Reykv.:

,,Hv. þm. hefur ekki alltaf átt svona erfitt með að skilja það sem ég segi en ef hv. þm. hugsar um það sem ég sagði þá sagði ég að þeir þættir er varða verkfallið og gerðardóminn varðandi sjómennina munu augljóslega ekki þurfa að ganga fram en það væru aðrir þættir í frv. sem ekki beinlínis tengjast vinnudeilunni ...``

Málsvörn sína nú byggir hæstv. sjútvrh. á því að þetta hafi verið talað út frá því að allir mundu aflýsa verkfallinu og hann hafi aldrei talað um einstaka aðila í þessu sambandi. En það er, herra forseti, því miður ekki rétt því í ljósi þess sem var komið í loftið í gær inntum við hæstv. ráðherra áfram eftir þessum málum og vorum að spyrja hæstv. ráðherra hvað fram undan væri í málinu í ljósi þeirrar stöðu sem þá var komin upp, að fyrir lá að a.m.k. Sjómannasambandið, mínus Sjómannafélag Eyfirðinga, mundi aflýsa verkfalli. Þá svaraði hæstv. sjútvrh. á tólfta tímanum í gær með þessum hætti:

,,Herra forseti. Ég svaraði nákvæmlega þessari spurningu í gær, ef hv. þm. hefur fylgst með umræðunum þá sem hún`` --- og hér hefur hæstv. ráðherra orðið það á að ávarpa þingmanninn í þriðju persónu --- ,,vafalaust hefur gert en rekur ekki minni til. Þeir sem aflýsa verkfalli, þá er ekki lengur neitt verkfall til þess að setja lög á og þar af leiðandi þarf að breyta frv. í samræmi við það og þeir aðilar ganga þá inn í sinn gamla kjarasamning og þar af leiðandi verður enginn gerðardómur settur á þá aðila þar sem þeir hafa samning til þess að starfa eftir.``

Þarf að ræða þetta frekar?

Ætti ekki hæstv. sjútvrh. að koma og biðja okkur afsökunar á því að hafa sakað okkur um að snúa út úr máli sínu? Þetta er algjörlega kristaltært. Hæstv. ráðherra var að segja að þeir aðilar sem aflýstu verkfallinu færu út úr þessum þáttum frv.

Ég tel mig vera sæmilega læsan og ekkert óskýrari en aðra menn þegar kemur að því að skilja íslenskan texta. Ég lýsi eftir mönnum sem geta með einhverjum hætti fengið annan botn í þetta en þann að hæstv. sjútvrh. var, þegar þetta er skoðað saman, þeirrar skoðunar undir hádegisbilið í gær og væntanlega einnig í fyrradag, að þeir aðilar sem aflýstu verkfalli ættu að fara út úr þessum ákvæðum frumvarpsins. Málsvörn hæstv. ráðherra hér og ásakanir í garð okkar er hrunin til grunna.

Herra forseti. Ég ætla ekki að reka flóttann lengra. Ég held að það sé ekki vel gert. Þegar menn eru komnir í þá stöðu sem raun ber vitni með hæstv. sjútvrh. stendur maður í báða fæturna en lyftir þeim ekki í nágrenni við þá. Þetta er einfaldlega svona. Nógu hrakleg er útreið hæstv. sjútvrh. orðin í öllu þessu máli þó að við förum ekki lengra út í þessa sálma.

En það vil ég segja, herra forseti, og auðvitað er dapurlegt að standa frammi fyrir því að yfirlýsingar af þessu tagi, gefnar úr ræðustóli á Alþingi, skuli vera algjörlega haldlausar og marklausar og einskis virði. En það er verst fyrir hæstv. ráðherra sjálfan eða aðra þá sem með slíkt fara. Heiðarlegast hefði verið af hæstv. ráðherra að koma og viðurkenna að honum hefði yfirsést í þessum efnum, hann hefði þá ekki verið búinn að hugsa málið nógu vel og það hefði annað komið á daginn en hann hafi talið o.s.frv. Það er eitthvað sem maður skilur. En hæstv. ráðherra skal ekki vera að reyna að segja að við séum sökudólgarnir í þessu með því að snúa út úr orðum hans þegar á prenti er algjörlega kristaltært að engin leið var að skilja þetta öðruvísi en svona. Við vorum í þeirri trú öll þangað til fréttir fóru að berast af öðru í nótt og í morgun að sú óhæfa væri í vændum að halda þessum aðilum áfram í gíslingunni á grundvelli svokallaðs verkbanns LÍÚ.

Herra forseti. Ég segi að þetta verða ekki lög þó meiri hlutinn samþykki þetta. Þetta verða hrein og klár ólög og þeim til skammar sem að því standa að ljá slíku atkvæði sitt. Á sú ógæfa að rata hér og ganga yfir sömu menn og hafa greitt atkvæði frumvörpum gegn varnaðarorðum um að þau brytu stjórnarskrá og mannréttindi, að endurtaka leikinn? Er engum flökurt sem studdi þessa sömu ríkisstjórn 1998 og greiddi frumvörpum hennar atkvæði sem þingmenn og lögfræðingar og sérfræðingar á sviði mannréttinda vöruðu við að yrðu sett en menn létu sig hafa það engu að síður og fengu svo hæstarréttardóm í hausinn? Það er eins og menn hafi ekki mikið af því lært og allra síst hv. þm. Halldór Blöndal forseti, sem hefur nú heldur betur gengisfellt sjálfan sig undanfarna daga, bæði með fundarstjórn sinni hér og framkomu allri þannig að krónan stendur sterk miðað við gengi hv. þm. Halldórs Blöndals. Krónan er með sterkustu gjaldmiðlum heimsins í þessum relatífa samanburði. (HBl: Hún er þó betri en rúblan.) Já, hún er betri en það. Hv. þm. er hrifinn af rúblunni. Hann má vera það mín vegna. Ég hef ekki haft mikil afskipti af þeirri mynt.

Herra forseti. Þetta eru dæmigerð frammíköll þingmanna Sjálfstfl. þegar brækurnar eru komnar um hælana á þeim. Þá er gripið til þessara ráða. Þetta er málefnalegt innlegg af hálfu forseta. Vill forseti komast fram hjá? Hann er dálítið órólegur, herra forseti, þ.e. hv. þm. Halldór Blöndal.

Nei, herra forseti. Þetta mál er með hreinustu ólíkindum. Ég ætla hér vegna aðstæðna sem eru nokkuð sérstakar að hafa þessa ræðu ekki lengri. Mér er þó kunnugt um að enn eru að berast upplýsingar um hversu götóttur allur málatilbúnaður ríkisstjórnar er og meiri hluta hennar því það munu vera starfandi sjómenn innan verkalýðsfélaga sem eru alls ekki nefnd í frv. Hvernig ætla menn að fara með þeirra mál?

Og ef það er svo, það sem í vændum er hér, að nota þessa leikfléttu alla eins og menn telja sig hafa verið að skynja síðustu klukkutímana, til þess að þvinga menn nauðuga inn í þennan gerðardóm og láta hann breyta hlutaskiptunum og færa mikil verðmæti til, frá sjómönnum til útgerðarmanna, þá sjá menn alveg hvað er verið að gera. Þá sjá menn hvílík óhæfa er í uppsiglingu. Það þarf ekkert að hafa um það fleiri orð.

Herra forseti. Þetta er svo hneykslanlegt að ég spái því að það verði, já og vonandi, löng bið á því að annað eins óbermi og þetta frv. komi inn í þingið, svo maður tali ekki um þau ósköp að menn láti sig hafa það að samþykkja það. Lítil eru þá geð guma, ég tala ekki um hina sérstöku vina sjómanna, þingmanna Sjálfstæðisflokksins sem hafa streymt í ræðustólinn til þess að tjá sjómannsstéttinni virðingu sína og aðdáun og þakklæti fyrir mikilvægt framlag í þágu þjóðarbúsins. Það eru ómagaorð, innstæðulaus orð. Ef menn ætla engu að síður að standa svona að verki.

Herra forseti. Ég lýsi mikilli hneykslan minni á því hvernig hér á að fara að standa að málum.