Kjaramál fiskimanna og fleira

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 15:50:21 (7916)

2001-05-16 15:50:21# 126. lþ. 125.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, JÁ
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 126. lþ.

[15:50]

Jóhann Ársælsson:

Hæstv. forseti. Það hefur æðimargt gerst í þessu máli frá því það var fyrst lagt fram og tekið til umræðu. Hér er búið að fara yfir þá sögu og ég ætla ekki að endurtaka hana. Komið hefur fram að þær breytingartillögur sem meiri hlutinn ætlar að gera við þetta frv. eru breytingar á orðalagi. Það á ekki að sleppa takinu af Sjómannasambandi Íslands þó það standi ekki lengur í verkfalli og það á enn þá að halda krumlunni yfir Vestfirðingum sem aldrei boðuðu verkfall.

Farið er að beita verkbönnum með nýjum hætti á Íslandi. Verkbönn duga prýðilega til þess að ná fram lagasetningu á Alþingi. Og um hvað er þessi lagasetning? Er þetta lágmarksinngrip til þess að afstýra voða í þjóðarbúinu? Nei. Það er verið að ganga miklu lengra en þörf er á til þess að flotinn geti leyst landfestar. Nóg væri að banna verkföll, setja mönnunina t.d. í gerðardóm og gefa mönnum tækifæri til þess að skoða málin eftir það. En það er ekki að gerast hér. Hér ætla menn að skipa kjörum sjómanna með lögum, með því að setja gerðardóm sem á að kveða upp úr um öll kjör sjómanna. Það er ekki lágmarksinngrip í kjaradeilu.

Yfir þessari gerð gerðardómsins vofir samningur sem búið var að gera áður. Þetta var þríhliða samningur, fullyrði ég, milli Landssambands íslenskra útvegsmanna, Vélstjórafélags Íslands og þeirra sem réðu ferð á ríkisstjórnarbænum. Það getur ekki verið önnur skýring á því að í þeim lagatexta sem liggur fyrir þinginu skuli birtast orðréttar tillögur um lagagreinar úr samningi Vélstjórafélags Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna.

Smám saman er að renna upp ljós fyrir þeim sem hér stendur. Ég er byrjaður að átta mig á því að allan tímann hafa menn ætlað sér þetta. Nú á að ganga almennilega frá málunum. Þessi ríkisstjórn sem hefur með ráðum og dáð stutt við eignarhald útgerðarmanna á veiðiheimildunum og ítrekað tekið þátt í lagasetningu á sjómenn eftir að þær afleiðingar fóru að koma fram sem höfðu það í för með sér að menn notuðu eignarhaldið á veiðiheimildunum til þess að hafa af sjómönnum réttmætan hlut. Nú eru menn orðnir þreyttir að standa í þessu. Nú á bara að taka á málinu, ganga frá þessu. Það á að skipa kjörum sjómanna með lögum. Og það á líka að ganga frá fiskverðinu með hinum sömu lögum. Kjaradómurinn á að ákvarða hvaða fiskverð á að gilda í framtíðinni. Þar virðist eiga að horfa fram hjá þeim lögum sem gilda í dag, þar sem segir að sjómenn eigi rétt á því að útgerðarmaðurinn leiti eftir hæsta verði. Kjaradómurinn á að sækja viðmið í samning Vélstjórafélags Íslands þar sem búið er til verð sem tekur hreint ekki mið af hæsta verði. Það er alveg klárt mál. Það á að taka mið af einhverju meðalverði og hæsta markaðsverð sem fyrirfinnst á að vera efstu mörk þegar verið er að leita uppi meðalverðið sem á að vera þar langt fyrir neðan. Þar með er þessi lagatexti ekki virtur neins. Og þó hafa sjómenn nýlega unnið dómsmál þar sem þessi lög réðu úrslitunum.

Nei, það er greinilegt að í landi tækifæranna, Íslandi, ætla menn að skipa málum þannig að ganga vel og skipulega frá. Ég er viss um að gömlu mennirnir í Kreml hefðu bókstaflega öfundað Íslendinga af þessari niðurstöðu. Í undirstöðuatvinnugrein þjóðarinnar er búið að taka réttinn til þess að nýta auðlindina af þjóðinni og afhenda hann fáum útvöldum sem þeir geta keypt og selt.

Síðan er það ekki nóg. Það á að skipa kjörum þeirra sem vinna hjá þessum útgerðarmönnum með lögum frá Alþingi og það er engin þörf á neinum verkalýðsfélögum hjá þessum aðilum eftir þetta. Til hvers ætti að hafa þau? Ég held að þeir geti bara sparað sér að hafa menn í vinnu við að eltast við sín launakjör ef það á að skipa þeim hér inn á Alþingi. Hér er bara á ferðinni algjör ráðstjórn. Nei, þetta er ekki lágmarksinngrip í kjaradeilu. Það er af og frá.

Það hefur auðvitað gerst áður að íslensk stjórnvöld hafa verið kærð á alþjóðavettvangi fyrir mál af svipuðu tagi og veruleg ástæða er til að halda að svo verði gert núna. Lögfræðingar sem við í sjútvn. höfum hlustað á hafa efasemdir um þessi mál. Einn lögmaður sem við töluðum við í dag hélt því fram að vegna þess að hluti af sjómönnum stæði utan við það verkefni sem þessi dómur ætti að fjalla um þá mundi þetta augljóslega vera brot á jafnræðisákvæðum og hann ef hann ætti að verja mál þeirra sjómanna sem mundu sækja slíkt mál fyrir mannréttindadómstóli þá þyrfti hann ekki annað en benda á það að áður en ætti að skipta kökunni, væri búið að taka hluta af henni til hliðar í vélstjórasamningnum. Honum leist illa á málstað Íslendinga til að verja slíka niðurstöðu. Ég spyr enn og aftur: Er þörf á þessu? Nei. Það er ekki þörf á þessu til þess að flotinn geti lagt úr höfn.

Ég spurði eftir því hér í dag og ég spurði eftir því á fundum nefndarinnar, hvort rætt hefði verið við forráðamenn LÍÚ um það hvernig þeir ætluðu að beita verkbönnunum. Ég fékk ekki skýr svör um það og þau voru ekki heldur skýr hér áðan.

Ég held að það sé augljóst að með þessum hætti hafa verið teknar ákvarðanir um að skipa kjörum sjómanna eins og ég var að lýsa áðan. Það er útilokað að í þeim viðræðum sem Vélstjórafélag Íslands átti við Landssamband íslenskra útvegsmanna hafi þær niðurstöður orðið sem birtust í lagatexta á Alþingi öðruvísi en þar hafi menn komið að málum sem bera ábyrgð á meiri hlutanum á Alþingi. Þegar maður virðir fyrir sér að þannig hafi verið að verki staðið og horfir svo yfir málið í heild þá verður útkoman þessi. Menn orðnir þreyttir á því að vera ítrekað dregnir að kjaramálum útvegsmanna og sjómanna vegna ósamkomulags um verð á fiski og kjör sjómanna. Og ósamkomulagið sem leiðir af því fyrirkomulagi sem hér er --- og þá á ég bæði við kvótakerfið sem ég nefndi áðan og ákvarðanir fiskverðs --- eru stjórnarliðar ekki lengur tilbúnir að líða. Þeir vilja frekar leggja það á sig að ganga frá kjaramálum sjómanna með afgerandi hætti.

[16:00]

Og hér liggur niðurstaðan fyrir. Það á ekki bara að koma flotanum á sjó. Það á að ganga frá þessu öllu til framtíðar. Fjögur og hálft ár átti samningurinn að standa. Og það var meiningin að það færi hér í gegn. Þó að það hafi verið tekið út úr frv. sem var lagt fram hér upphaflega, þá var það samt meiningin.

Augljóst er að menn líta ekki á það mál sem hér er til afgreiðslu á hv. Alþingi sömu augum og menn hafa fram að þessu litið á kjaradeilur, að það bæri með lágmarksinngripi að koma í veg fyrir tjón.

Ég segi eins og er að ég harma það alveg sérstaklega að við skulum standa frammi fyrir málinu með þeim hætti sem nú er. Ég tel að hægt hefði verið að leysa þessi mál eðlilega ef og úr því stjórnvöld töldu sig nauðbeygð til þess, ég held reyndar að sjómenn og útvegsmenn hefðu náð samningum ef ekki sífellt hefði hangið yfir þeim hótunin um að setja lög. Ég held reyndar að sú niðurstaða sem liggur hér fyrir hafi verið byrjuð að skapast fyrir löngu og þess vegna hafi viljinn til þess að semja við sjómenn aldrei verið fyrir hendi. Menn hafi verið byrjaðir að fikra sig að þeirri niðurstöðu sem hér er fyrir löngu milli LÍÚ-forustunnar og þeirra sem hér ráða ríkjum.

Mér finnst að við í stjórnarandstöðunni séum ekki öfundsverð af okkar stöðu hér. Við erum sökuð um að halda uppi málþófi til þess að koma í veg fyrir að málið leysist og flotinn komist á sjó. Það hefur nú ekki verið gert enn þá. Farið hefur verið að öllum reglum og það sem hér hefur verið talað í þessu máli hefur ekki tafið það.

Hv. stjórnarþingmenn treystu sér hins vegar ekki til að skila málinu inn til afgreiðslu í þinginu fyrr en áðan. Það var á dagskrá þingsins klukkan 10 í morgun og við stjórnarandstöðuþingmenn hefðum verið tilbúnir í umræðuna þá. En ekki var hægt að taka það þá á dagskrá. Hvers vegna? Vegna þess að stjórnarliðar voru að skoða sig um, hvort það væri nú óhætt að halda áfram með málið með þessum hætti. Og hver var niðurstaðan? Hún var sú: Við skulum gera þetta svona.

Þó hefur verið bent á alvarlegar veilur í þessu máli. Ég tel að mikil ástæða sé til þess að halda að Íslendingar muni verða fyrir því aftur að verða dæmdir erlendis fyrir að hafa ekki farið að eðlilegum reglum, sem við höfum skrifað upp á með öðrum þjóðum um það hvernig eigi að koma fram við launþega í kjaradeilum.

Ég tel að ef hæstv. ríkisstjórn hefði viljað leysa þessi mál á sem einfaldastan hátt hefði hún átt að skoða þá hugmynd vegna þess að það er ríkisstjórnin sem hefur allan tímann vofað yfir þessum samningum. Og í ljósi þess að samningar hafa verið settir á með lögum á undanförnum árum hvað eftir annað, þá hafa öll samningamál verið í þeim farvegi að ekki hefur skapast traust milli aðila til að leysa deilurnar. Þess vegna hefur þetta allt saman verið svona erfitt.

Við höfum horft upp á að þetta ástand hefur fyrst og fremst verið notað til þess að gagnrýna þá sem komu að málinu, samningamenn Sjómannasambandsins, Farmanna- og fiskimannasambandsins og LÍÚ og aðra aðila. Ríkisstjórnin og stjórnvöld á Íslandi hafa ekki legið undir þessari gagnrýni.

Ég ætla, hæstv. forseti, ekki að hafa ræðu mína miklu lengri. Ég tel að úr því sem komið er verði þetta mál að fá að ganga sinn gang. Það er engum til gagns að stöðva flotann lengur en orðið er úr því það stendur til og liggur ljóst fyrir að setja eigi lög á þessa deilu með þeim hætti sem liggur hér fyrir.

Ég held að samt sé ástæða til að menn velti því svolítið fyrir sér betur og ef einhver hefur áhuga fyrir því að hlusta á það sem ég hef verið að leggja til þessara mála á undanförnum árum, þá langar mig til þess að bæta örlítið við það.

Stjórnvöld á Íslandi hafa verið að ganga göngu sem er einstæð með því að afhenda auðlind íslensku þjóðarinnar í hendur einstaklinga, þá sömu auðlind sem stendur upp úr hverjum manni sem talar um hana að sé sameiginleg eign þjóðarinnar. Þeir mega samt kaupa og selja aðganginn að þeirri auðlind eins og þeim hentar. En þeir hafa átt í vandræðum með þá sem vinna hjá þeim. Þeir sem vinna hjá þeim vilja fá hlutinn sinn, þeir vilja fá hlutinn sinn úr öllu verðinu sem fæst fyrir fiskinn. Það er ekki nógu gott. Þess vegna ætla íslensk stjórnvöld núna að búa til nýtt verð.

Einu sinni var til verð sem var kallað landssambandsverð. Þá var ekki eins mikið þvarg um hvert fiskverð ætti að vera. Þá voru ekki fiskmarkaðir eins og núna. Landssambandsverðið var bara fínt, það var ákveðið af ábyrgum mönnum. Svo komu fiskmarkaðir og þá var allt í einu miklu, miklu hærra verð á þeim. Það spillti þessu fína fyrirkomulagi. Og undanfarið hafa staðið yfir deilur á milli sjómanna og útvegsmanna endalaust um hvaða fiskverð ætti að miða við.

Íslensk stjórnvöld hafa haft af þessu áhyggjur. Og sumir hafa meira að segja verið að tala um að ekki væri eðlilegt samkeppnisumhverfi í þessari atvinnugrein og hafa bent á að íslensk stjórnvöld væru frjálslynd og vildu að samkeppni væri á öllum sviðum. Á grænmetismarkaðnum. Það ætti að vera fín samkeppni t.d. á fjarskiptasviðinu. Þau tóku sig fram um að það skyldi taka farsímana út úr og gera það upp sérstaklega hjá Landssímanum af því annars væri ekki eðlilegt samkeppnisumhverfi. Það mátti sem sagt ekki reka farsímaþjónustu og aðra símaþjónustu í sama fyrirtækinu öðruvísi en að kljúfa á milli.

En íslensk stjórnvöld hafa ekki viljað hafa sömu afstöðu til þess að skilja á milli útgerðar og fiskvinnslu. Þó eiga ýmsir aðilar hagsmuna að gæta þar. Sjómenn eiga þeirra hagsmuna að gæta að fá hæst verð fyrir sinn fisk. Og reki útgerðarmaður bæði útgerð og fiskvinnslu, eins og hefur viðgengist á undanförnum árum, þarf að ákveða fiskverð. Og fiskverðið sem hefur orðið til á undanförnum árum hefur meira og minna verið ákveðið af útgerðarmönnum sjálfum. Það fiskverð hefur ekki verið í neinu samræmi við það verð sem hefur fengist á fiskmörkuðum.

Það hefur t.d. í vetur verið þannig að meðalverð í beinum viðskiptum hefur verið 100 kr. En meðalverð á fiskmörkuðum á þorski einn mánuðinn var 198 kr. þegar það var 100 kr. í beinum viðskiptum. Hjá sjómönnum er skipt úr hundraðkallinum. Skyldi þetta vera eðlilegt? Nei, auðvitað er það ekki eðlilegt. En íslensk stjórnvöld ætla að hlaupa undir bagga með LÍÚ í því að reyna að tryggja að aftur verði til eitthvert landssambandsverð eins og það var kallað á sínum tíma.

Ég held að menn hafi lent í þessum ógöngum fyrst og fremst vegna þess stóra máls sem ég minntist á í upphafi, vegna átakanna um auðlindina okkar. Og það hefur leitt hvað af öðru. Menn eru að reyna að verja með öllum ráðum þetta umdeilda fyrirkomulag sem öll þjóðin er á móti. Landssamband íslenskra útvegsmanna veit að hér innan sala Alþingis er meiri stuðningur við þetta fyrirkomulag en hjá nokkrum hópi sem fyrirfinnst í þjóðfélaginu ef undan eru skildir aðalfundur LÍÚ. Þjóðin er almennt á móti fyrirkomulaginu. Því er samt viðhaldið.

Það er til félag sem heitir Verkalýðsfélag Snæfellsbæjar. Það var ekki í verkfalli. Og þar er ekkert verkbann. Skyldu þeir vera með í þessu? Ja, það er spurningin.

Það verður býsna flókin staða sem kemur upp þegar þessi gerðardómur fer að starfa, þegar hann þarf að fara að velja sér hvaða viðmið hann ætlar sé að hafa, í hvaða samninga hann ætlar sér að sækja viðmiðanir þegar hann fer að ákveða kaup og kjör og mönnun á skipunum. Getur verið að þessi dómur geti horft fram hjá samningi Vélstjórafélags Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna þar sem liggja fyrir ákvarðanir um mönnun? Getur verið að hann geti tekið ákvarðanir um allt öðruvísi mönnun en gert er ráð fyrir í samningi Vélstjórafélagsins? Og mun það þá vera þannig að útgerðarmenn standi frammi fyrir því að vera með tvenns konar samninga á skipinu sínu, annars vegar niðurstöðu gerðardóms um að það eigi að vera svona margir yfirmenn og svona margir undirmenn og skipta eftir tilteknum hlutum og svo sé samningur Vélstjórafélagsins með eitthvert allt öðruvísi fyrirkomulag og útgerðarmaðurinn sitji jafnvel uppi með að þurfa að borga fleiri hluti en gert er ráð fyrir í samningi Vélstjórafélagsins? Ég veit það ekki. Ég held að þeir sem ætla að bera ábyrgð á þessari lagasetningu viti það ekki heldur.

Ég held reyndar að ef það á annað borð hefði átt að setja mönnunina í gerðardóm hefði átt að setja alla mönnunina í gerðardóm. Það er útilokað að undanskilja vélstjóra þeim gerðardómi. En hæstv. ríkisstjórn og þeim sem styðja hana hér á hv. Alþingi hefur fundist nóg komið og þeir eru ekki tilbúnir að hala Vélstjórafélagið inn í kompaníið.

Sannleikurinn er sá að með því flækist málið æðimikið, ekki bara fyrir þá sem verða settir í þá stöðu að eiga sæti í þessum gerðerdómi heldur líka fyrir Íslendinga ef þeir verða kærðir á alþjóðavettvangi og þurfa að verja það fyrirkomulag sem hér er upp tekið.

Ég held að meiri hlutinn á Alþingi þurfi að hugsa sinn gang. Hér á Alþingi Íslendinga höfum við horft upp á það á undanförnum árum að sú ríkisstjórn sem hefur setið á hverjum tíma hefur getað komið með mál hér inn og undantekningarlaust getað fengið niðurstöðu hversu vitlaus sem þau hafa verið. Og þó að bent hafi verið á gallana hér á hv. Alþingi og farið yfir það fram og til baka, þó að virtir lögfræðingar og sérfræðingar hafi bent á vitleysurnar sem menn hafa ætlað út í hefur ríkisstjórnin í krafti þess meiri hluta sem fyrir hendi er hér á hv. Alþingi vaðið áfram. Og enn er það svo.

[16:15]

Þó svo að hv. þm. stjórnarliðsins séu tilbúnir að rétta upp hönd með einhverjum aðgerðum til að flotinn geti siglt úr höfn ættu þeir þó að vera menn til þess að hafa skoðun á því hvað eru lágmarksaðgerðir til þess að flotinn fari úr höfn. Þetta eru ekki lágmarksaðgerðir til þess. Ég verð að segja alveg eins og er að ef ekki væri uppi sú staða að flotinn er bundinn við bryggju og umræða hér, ef hún yrði mjög löng, yrði til þess að tefja að flotinn gæti farið úr höfn, þá mundi ég standa býsna lengi í þessum stól þó ekki væri nema til að tala um þetta tvennt, annars vegar hvernig íslensk stjórnvöld umgangast mannréttindi, samningsrétt í þessu máli sérstaklega og hvers vegna þeir gera það vegna þess að ástæðan fyrir því er sú sem ég nefndi fyrr í ræðu minni. Ástæðan fyrir því að menn setja ítrekað lög á sjómenn á upphaf sitt í því eignarhaldi sem menn hafa verið að koma yfir sameiginlega auðlind þjóðarinnar og því að íslensk stjórnvöld eru að hlutast til um það að fiskverð sem myndast á eðlilegum markaði verði ekki notað til þess að skipta hlut íslenskra sjómanna sem eru á íslenskum skipum. Þetta eru ástæðurnar og þetta eru stóru ástæðurnar fyrir endalausum vinnudeilum íslenskra sjómanna við Landssamband ísl. útvegsmanna.

Það er tvennt sem stjórnvöld á Íslandi ættu að gera og hefðu átt að gera fyrir löngu. Ef þau hefðu gert það væri ekki hægt að vorkenna Landssambandi ísl. útvegsmanna og sjómannafélögunum að ná saman. Annað er það að setja af stað feril þar sem klofið verði á milli veiða og vinnslu þannig að eðlilegt samningsumhverfi myndist og hitt er að taka á því stóra máli hver á auðlindina og hafa um það skýrar og ljósar reglur þannig að útgerðarmenn verði í fyrsta lagi að greiða sjómönnum aflahlut af því eðlilega verði sem fæst á markaði fyrir þann fisk sem kemur að landi og í öðru lagi að þeir geti ekki látið sjómenn taka þátt í kostnaði sem fellur til vegna einhvers eignarhalds þeirra á fiskinum í sjónum eins og gert er í dag. Þá þyrftu menn ekki að standa í endalausum lagasetningum á Alþingi.

En þetta er einmitt skýringin á því að Alþingi Íslendinga hefur verið svo viljugt til að setja lög á sjómenn. Það er verið að verja þetta fyrirkomulag í líf og blóð og þeir sem hafa ráðið ríkjum undanfarin ár í ríkisstjórnum hafa verið að verja þetta fyrirkomulag með inngripum endalaust.

Það er heldur ekki tilviljun að inni í þeirri lagasetningu sem hér á að fara fram skuli vera falin fjölmörg samningsatriði sem eru fengin með samningi við einn aðila, Vélstjórafélag Íslands. Forustumaður þess félags er sá forustumaður sjómannasamtaka, sá eini, sem hefur staðið með þessu fyrirkomulagi allan tímann, eignarhaldi útgerðarmanna á veiðiheimildum og kvótakerfinu. Þar hafa menn átt hauk í horni og hann hefur ekki brugðist þeim. En það verður erfiður poki fyrir forustumann í verkalýðsfélagi að bera að hafa orðið til þess að búa til þá forsmán sem þessi lagasmíð er, því að í þeim lagatexta eru fjölmörg atriði tekin upp úr samningum Vélstjórafélags Íslands og Landssambands ísl. útvegsmanna.

Aðalatriði málsins er að öll heila línan kemur þarna fram, hvernig eigi að fara að þessu. Það er þetta nýja landssambandsverð og það er það sem ég hefði viljað tala um í marga klukkutíma ef það er eins og mig grunar og ég óttast að það landssambandsverð sem er að myndast hérna með því sem á að fara að samþykkja á hv. Alþingi verði til þess að sú þróun sem hófst fyrir nokkrum árum að kjör ýmissa sjómanna fóru að taka mið af eðlilegu fiskverði, fiskverði sem myndast á mörkuðum, muni breytast. Útgerðarmönnum er allt í einu boðið upp á nýjan pakka í kjörbúðinni. Þeir þurfa ekki að fara á fiskmarkaðinn. Þeir geta bara valið sér að fara eftir þessu landssambandsverði, kaupa fiskinn af sjálfum sér og selja hann á hæsta verði en nota landssambandsverðið til að skipta til sjómanna. Þetta er það sem ég óttast að sé að gerast með lagafrv. sem hér á að verða að lögum.

En afsökunin og rökstuðningurinn frá hendi stjórnarliða fyrir því að verið sé að setja þessi lög snýst ekki um þetta. Menn hafa ekki nennt að tala um þetta í umræðunni --- eða hvað? Kannski ekki viljað það. Skyldi það vera þannig að þeir hefðu ekki áhuga fyrir því að tala um þetta vegna þess að það er óþægileg umræða í því þjóðfélagi sem á að byggjast á eðlilegum markaðslögmálum, verði sem myndast í viðskiptum milli aðila þar sem hægt er að koma við eðlilegri samkeppni? Það virðist ekki vera vandi í útgerð og fiskvinnslu á Íslandi ef menn vildu fara þá leið. Það þarf ekki að óttast neina sérstaka fákeppni. Það eru til fiskmarkaðir, það eru til fiskvinnslustöðvar, það eru til fjölmargir aðilar sem vilja flytja út fisk, fjölmargir sem vilja róa á sjó og margir sem vilja kaupa fiskinn þegar hann kemur að landi og flytja hann út eða vinna hann og flytja hann út. En íslensk stjórnvöld hafa engan áhuga á því að koma hér á eðlilegu umhverfi þar sem allt hráefni tæki verð á markaði.

Það hefði átt að vera niðurstaða stjórnvalda á Íslandi í svona kjaradeilu að lýsa því yfir að á einhverjum tilteknum tíma yrði tekið á þessum málum og komið á eðlilegu samkeppnisumhverfi þar sem fiskur tæki verð á markaði og með því ryðja úr vegi aðalástæðunni fyrir átökum sjómanna og útvegsmanna. Það er alveg klárt mál að Samfylkingin mun beita sér fyrir því þegar hún kemst til valda í landinu, þegar þeir hrekjast frá sem vilja stjórna hér með ráðstjórn, sem vilja ákveða hér fiskverð og samninga sjómanna út í eitt, öll kjör, með lögum og gerðardómum, í staðinn fyrir að skipta sér eins lítið og mögulegt er af aðilum í slíkum deilum.

En það má mikið leggja á sig til að verja það fyrirkomulag með eign á auðlindinni, verja þá vini sína sem hafa hagsmuna að gæta hvað það varðar að ekki sé verið að rugga því sem hefur verið á undanförnum árum, að menn hafa getað ákveðið sjálfir hvað þeir borga fyrir fiskinn. Það verður auðvitað breyting á því. En hvað tekur við? Landssambandsverð. Og þetta verð verður lægra, það verður verulega lægra en menn hafa fengið í beinum viðskiptum við ýmis fyrirtæki í landinu. Það er full ástæða til að halda að á ferðinni verði kauplækkanir til sjómanna vegna þess að ýmsir aðilar sem áður hafa samið betur við sína sjómenn en fjöldinn hefur kannski gert í þessum beinu viðskiptum munu fara eftir nýja landssambandsverðinu og fullt af aðilum sem hafa selt á mörkuðum munu færa sig inn á landssambandsverðið. Það hefur verið þróunin á undanförnum árum að framboðið á mörkuðunum hefur verið að minnka.

Hæstv. forseti. Hér er verið að ljúka kjaradeilu með lögum. Ég ætla ekki að hafa ræðu mína lengri. Ég veit að þessi lög verða staðfest hér á Alþingi í dag, hvort við hv. þingmenn tölum korterinu lengur eða skemur skiptir ekki máli. En ég held að nauðsynlegt sé að almenningur í landinu velti þessu fyrir sér og ekki bara út frá þeim sjónarmiðum hvort flotinn kemst á sjó heldur fyrst og fremst núna út frá því að reyna að átta sig á því hvernig stendur á þessum deilum, þessum ítrekuðu deilum milli aðila. Ég hef verið að reyna að rekja þær ástæður fyrir mönnum í þessum þingsal núna. Hér er nefnilega uppspretta vandamálsins. Það eru þær reglur sem hv. alþm. bera ábyrgð á hvað varðar aðganginn að auðlindinni og fiskverðið.