Kjaramál fiskimanna og fleira

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 16:36:06 (7921)

2001-05-16 16:36:06# 126. lþ. 125.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, Frsm. minni hluta SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 126. lþ.

[16:36]

Frsm. minni hluta sjútvn. (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Í morgun þegar fundi hv. sjútvn. lauk óraði mig satt að segja ekki fyrir því að við mundum standa hér í dag til að ljúka umræðu um þetta mál. Ég taldi að mönnum væri orðið fullljóst hversu alvarleg sú staða væri sem þeir voru að koma sjálfum sér í, þ.e. ríkisstjórn Íslands, stjórnvöldum sem nú ætla að setja lög um að allir þeir sem eru í verkfalli, sem aflýst hafa verkfalli og þeir sem hafa aldrei farið í verkfall, verði settir undir gerðardóm, gerðardóm sem augljóslega á að sníða að samningum vélstjóra.

Ég taldi satt að segja, virðlegur forseti, að mönnum hefði verið gert það ljóst að ef farið yrði fram með málið í þeim búningi stæðum við svo höllum fæti að við gætum allt eins átt von á að mannréttindadómstóll Evrópu mundi ákveða það réttarástand sem sjávarútvegurinn starfar við á næstu árum. Ég spyr: Er það ástand sem menn vilja? Ég er nokkuð viss um að það yrði bærilegra fyrir sjómennina en það sem þeir hafa mátt búa við á undanförnum missirum. En er það það sem þessi ríkisstjórn vill og er það það sem LÍÚ vill?

Staðan er sú, herra forseti, að þó sum félögin séu ekki í verkfalli, t.d. aðildarfélög Alþýðusambands Vestfjarða og félög sem hafa aflýst verkfalli, eins og Sjómannasamband Íslands, þá virðist ríkisstjórnin reikna með að Landssamband íslenskra útvegsmanna viðhaldi verkbanni sínu á þessa aðila og komi þannig í veg fyrir að flotinn fari til veiða. Ríkisstjórnin kýs a.m.k. að líta þannig á, eins og segir í nefndaráliti þeirra, með leyfi hæstv. forseta:

,,Þar sem verkfall var ekki boðað í upphafi eða þar sem verkfalli hefur nú verið aflýst stendur eftir sem áður verkbann. Afleiðingar þess eru hinar sömu fyrir þjóðarbúið. Þess vegna er jafnbrýnt og verið hefur að leysa kjaradeilu útvegsmanna og sjómanna. Því er nauðsynlegt að gerðardómurinn taki á þeim úrlausnarefnum með heildstæðum hætti sem um getur í 2. gr. frumvarpsins.``

Verkbannið stendur sem sagt, samkvæmt áliti meiri hlutans. Í því skjóli að verkbannið muni standa þó að sjómennirnir aflýsi verkfalli er farið fram með þetta frv. um gerðardóminn.

Herra forseti. Útvegsmenn eru sjálfir farnir að segja okkur hversu merkilegt þeim þykir sitt eigið verkbann. Nú berast þau tíðindi að togarar séu látnir úr höfn, að LÍÚ sé þegar farið að brjóta sitt eigið verkbann. Þeir höfðu ekki meiri þolinmæði, herra forseti. Hefði ríkisstjórnin verið tilbúin að líta svo á sem hæstv. sjútvrh. gerði hér, bæði í fyrradag og í gær, að þeir sem aflýstu verkfalli væru þá lausir undan gerðinni, þá hefði flotinn væntanlega getað haldið úr höfn, a.m.k. vegna þessara aðila sem ekki voru í neinu verkfalli. Auðvitað er þetta bara yfirvarp. Auðvitað er það yfirvarp að hér þurfi að setja lög um að fella gerðardóm um kjör allra sjómanna annarra en vélstjóra vegna þess að LÍÚ haldi öllu í verkbanni. Eitt er þó a.m.k. gott. Það hefur þó afhjúpast hver ber ábyrgð á þessu ástandi.

Menn hafa farið hér mikinn og talað um sjómenn og sjómannaforustuna. Úr þessum ræðustól hefur ýmislegt verið sagt sem ég veit að menn hefðu heldur viljað láta ósagt, eftir á að hyggja, ýmislegt um getu og getuleysi einstakra manna og þeim kennt um að hér hafi ekki verið róið svo vikum skiptir. Það liggur þó alla vega fyrir núna, herra forseti, hvað það var sem allan tímann olli þessu, a.m.k. að mati hæstv. ríkisstjórnar. Jú, það var verkbann LÍÚ. Nú þarf að takast á við það. Ég ætla að endurtaka að það er ómerkilegt yfirvarp vegna þess að það sýnir okkur best hversu alvarlega þeir taka sitt eigin verkbann að skipin eru þegar farin að leysa landfestar.

Ég vék að því áðan, herra forseti, sem hæstv. sjútvrh. sagði í fyrradag og endurtók í gær, orð sem urðu til þess að Sjómannasamband Íslands ákvað að aflýsa verkfalli sínu. Hæstv. ráðherra kom upp í morgun og reyndi að gera lítið úr þeirri sem hér stendur, taldi að menn væru að snúa út úr orðum hans, sjálfum sér til gamans að því er virtist. Hann neitaði að horfast í augu við ábyrgð sína á því ástandi sem skapast hefur, neitaði að horfast í augu við það að þegar ráðherra kemur með yfirlýsingar eins og þær sem hann kom með þá skuli menn enn taka mark á þeim. Það er eiginlega merkilegt, herra forseti, að menn skuli enn taka mark á orðum hæstv. ráðherra. En það er samt svo. Líklega er það þó í síðasta skiptið sem það verður gert.

Hæstv. ráðherra sagði, þegar formaður Samfylkingarinnar spurði hann hvernig við yrði brugðist ef sjómenn aflýstu verkfalli: ,,Mér sýnist á þeirri stöðu sem þá væri komin upp að ekki væri heldur ástæða til gerðardóms ...`` Í gærmorgun þegar ljóst var að Sjómannasambandið hafði aflýst sínu verkfalli kallaði ég eftir hæstv. sjútvrh. í salinn og bað hann um að staðfesta það sem hann hafði sagt deginum áður, staðfesta að þeir aðilar sem aflýstu verkfalli færu þá ekki undir gerðardóm. Hann gerði það, herra forseti, ekki bara einu sinni heldur tvisvar. Hann sagðist hafa svarað nákvæmlega þessari spurningu í gær og vitnaði í þær viðræður sem við höfðum átt við hann deginum áður. Svo endurtók hann:

,,Þeir sem aflýsa verkfalli, þá er ekki lengur neitt verkfall til þess að setja lög á og þar af leiðandi þarf að breyta frv. í samræmi við það og þeir aðilar ganga þá inn í sinn gamla kjarasamning og þar af leiðandi verður enginn gerðardómur settur á þá aðila þar sem þeir hafa samning til þess að starfa eftir.``

Þetta sagði hæstv. sjútvrh. í gærmorgun, í andsvari við mig eftir að ég hafði beðið hann um að sættast á orð sín. Hann gerði það fúslega og sem viðræðum okkar vatt áfram kom þar að hæstv. ráðherra endurtók í raun að við þessar yfirlýsingar sjómannanna yrði þetta mál allt miklu umfangsminna og áhrifaminna, þar sem þeir hefðu sjálfir ákveðið að enda verkfallið. Hann sagði, með leyfi forseta:

,,Markmiðið með því sem við höfum verið að gera hér er auðvitað að binda enda á verkfallið. Og ef þeir vilja gera það á þennan hátt og telja sig vera betur í stakk búna til þess að leysa deilumál sín þannig þá er það bara vel.``

Hæstv. ráðherra endaði síðan á því að óska sjómönnum alls hins besta við að leysa úr deilumáli sínu við útvegsmenn.

[16:45]

Herra forseti. Ekki þýðir fyrir mann, sem hefur farið þannig í málið, sem hefur gefið yfirlýsingar í þessa veru og á þeim yfirlýsingum hefur verið tekið mark, að koma hér og væna mig eða aðra stjórnarandstæðinga um ósannindi þegar við erum að greina frá þessu hér. Það vill svo til að allt sem hér er sagt er tekið upp og það er hægt að vitna í það orðrétt, allur textinn liggur fyrir, allar ræður og fyrirheit hæstv. sjútvrh. Þegar forustumenn sjómanna segja að þeir hafi í góðri trú aflýst verkfallinu, í góðri trú vegna þess að hæstv. sjútvrh. hafði lýst því yfir að þeir sem aflýstu verkfalli færu ekki undir gerðardóm, þá eru þeir að lýsa nákvæmlega því sem gerðist af þeirra hálfu.

Þá stendur auðvitað hitt eftir að hæstv. ráðherra gleymdi því strax hvað hann hafði sagt. Eða tók ríkisstjórnin ekkert mark á honum heldur? Eða var það e.t.v. LÍÚ sem nennti ekki að hlusta á hann? Einhverra hluta vegna hafði málið þróast þannig seinni partinn í gær, eftir þó yfirlýsingar ráðherrans, að hér var orðinn til texti sem krækti Sjómannasambandið inn undir gerðardóminn.

Hvernig var það gert, herra forseti? Jú, það var gert þannig að Sjómannasambandið er talið upp í 1. gr. frv. sem þolandi verkbanns LÍÚ --- auðvitað var ekki gert ráð fyrir því að LÍÚ aflýsti verkbanninu --- Sjómannasambandið er talið upp sem þolandi verkbanns LÍÚ. Af því að það er svo er vísað til þess í 2. gr. af því að það er þá einn af aðilunum sem taldir eru upp í 1. gr. Aðilarnir sem vísað er til í 2. gr. eru nákvæmlega þeir sem gerðardómurinn á að taka til. Svona er þetta smekklega gert, svona er þetta einfalt hjá hæstv. ríkisstjórn. Hvað varðar þau um hina, hvað hæstv. sjútvrh. var búinn að segja? Enginn tekur mark á honum, það er augljóst mál.

Herra forseti. Ef þetta væri ekki svona alvarlegt gætum við kallað þetta farsa. Stundum eru þeir reyndar það sem kallað er tragíkómískir og kannski er þetta einmitt sú sortin. En það er ömurlegt ástand að menn skuli vera hafðir að ginningarfíflum, að menn skuli ekki geta treyst því þegar ráðherra kemur með yfirlýsingar, ekki einu sinni, ekki tvisvar, heldur þrisvar, að þá skuli ekki vera hægt að trúa því sem þeir segja eða treysta því að þeir hafi þá manndóm í sér til að fylgja því eftir sem þeir hafa gefið yfirlýsingar og fyrirheit um innan ríkisstjórnarinnar. Mikið hefur legið við, herra forseti, fyrst þeim fannst í lagi að fórna einum sjávarútvegsráðherra.

Hvað var þá svona stórkostlegt í þessari stöðu? Jú, 163 vélstjórar höfðu samþykkt kjarasamning sem bauð upp á að Kvótaþingið yrði tekið út, að mönnunarmálin yrðu tekin í gegn með þeim hætti sem LÍÚ er þóknanlegt og búið yrði til nýtt samræmt fiskverð. Og skyldi ekki þá sem hefur munað um að breyta hlutaskiptunum, að fá upp þá stöðu að fjármagnið fengi líka sinn hlut eins og það er orðað svo smekklega hér, skyldu þeir ekki hafa viljað halda í þetta umhverfi, þetta 163 manna dæmi? Auðvitað, herra forseti. Allt er lagt í sölurnar til að þessi samningur geti verið grundvöllur þess hvaða umhverfi íslenskir sjómenn eiga að búa við á næstu árum.

Búið er að ná fram breytingum á 3. gr. enda var hún svo djöfulleg og vitlaus að ef hún hefði staðið áfram hefðu menn ekki þurft að bíða nema hálft árið til að verða lentir í erfiðleikum gagnvart þeim samningum og skuldbindingum sem menn hafa. Hins vegar hafa menn verið ófáanlegir til að snerta við 2. gr. Það er þó margbúið að fara yfir það upp á hvað hún býður og hvaða skorður hún setur því sem þeir kalla gerðardóm. Hún setur þær skorður að gerðardómur er tilneyddur að sníða niðurstöðu sína að vélstjórasamningnum enda er það tilgangurinn. Til hvers ættu menn annars að vera að slást í þessu? Til hvers hefðu menn annars þurft að niðurlægja hæstv. sjútvrh. með þeim hætti sem búið er að gera hér? Vegna þess að þarna eru svo ríkir hagsmunir, herra forseti, að við þá ræðst ekki. Þessir ríku hagsmunir útvegsmanna eiga það sterka talsmenn í hópi ríkisstjórnarinnar, stjórnarþingmannanna að við þá varð ekki ráðið. Þess vegna stöndum við með þessa niðurstöðu fyrir framan okkur, svo ógeðfelld sem hún er.

Hv. þm. Jóhann Ársælsson fór nokkuð yfir hið nýja landssambandsverð eða vélstjóraverðið. Herra forseti. Auðvitað er þetta nýja fiskverð, þetta fiskverð sem verður samræmt, til þess fallið að auka hlut fjármagnsins. Ég velti því einu sinni upp hvort hagræðingin á fiskiskipaflotanum hefði öll orðið á kostnað sjómanna. Það var á meðan menn gátu verið í kvótabraskinu, á meðan menn gátu auðveldar en nú er látið sjómennina greiða fyrir sig kvótaverðið, taka þátt í útgerðarkostnaði af meiri þunga en nokkru sinni fyrr. Nú er búið að finna nýja aðferð og það á að lögbinda hana.

Svo koma menn og segja að hér væri hægt að ná kjarasamningum á næsta hálfa mánuði ef menn bara vildu. Hvaða stéttarfélag sjómanna halda menn að gæti náð kjarasamningum undir þessum kringumstæðum við þær aðstæður að hæstv. ríkisstjórn hefur fundist í lagi að fórna einum hæstv. sjávarútvegsráðherra? Halda menn að eitthvert stéttarfélag sjómanna geti boðið upp á annað eins? Nei, herra forseti, ég er hrædd um ekki. Ég er hrædd um að hér sé búið að skrifa upp forskriftina að því umhverfi sem íslenskir sjómenn verða að búa við á næstu árum.

Nokkuð hefur verið rætt um hvers megi vænta. Sú íhlutun sem hér er verið að gera er svo gróf að einhverjir munu fara með þetta lengra, menn munu ekki una við þetta. Ég ætla sannarlega að vona að menn muni ekki una við þá niðurstöðu sem hér næst. Af því að menn vita það hefðu menn auðvitað átt að vanda sig betur. En hvers virði er heiður íslenskra stjórnvalda gagnvart mannréttindadómstólum eða Alþjóðavinnumálastofnuninni ef búið er að ná til lands í hlutum sem útvegsmönnum þykja nokkurs virði? Augljóst er hvort þykir merkilegra. Heiður íslenskra stjórnvalda er greinilega aukaatriði hér eins og fleira.

Það er hins vegar þannig, og menn gleyma því stundum þó að Ísland sé eyja í miðju Atlantshafi og mönnum finnist stundum að við séum langt frá umheiminum, að við erum ekki bara bundin íslensku stjórnarskránni, sem menn munar ekki um að svívirða hér annað veifið, ekki bara lögum um stéttarfélög og vinnudeilur, nei, við erum líka bundin alþjóðasamningum, mannréttindasamningum. Það er hörmulegt, herra forseti, að íslensk verkalýðshreyfing skuli aftur og aftur þurfa að stóla á að mannréttindin komi utan að, að réttindi þeirra komi utan að, það sé einskis að vænta af þeim stjórnvöldum sem ráða á Íslandi. Það er hörmulegt, herra forseti, vegna þess að sannarlega erum við mörg sem vildum sjá þessa hluti öðruvísi, sem teljum að hér gætum við haft hlutina með öðrum hætti, hér gætum við verið með opið lýðræðissamfélag sem hefði á því skilning að sterk verkalýðshreyfing er hluti af lýðræðinu og það er ekkert lýðræði nema það sé öflug verkalýðshreyfing. Hér hafa menn hins vegar farið í hlutina þannig að þeir máttu vita það allan tímann að þeir voru að grafa undan samtökum sjómanna.

Ég spurði hæstv. félmrh. þeirrar spurningar í fyrradag, að mig minnir, og vitnaði til þess sem nefnd Alþjóðavinnumálasambandsins hafði sent, orðsendingu sem hafði verið send íslenskum stjórnvöldum, hvort hann væri sammála því sem þar kom fram að ítrekuð inngrip í kjaradeilur eða ítrekuð inngrip í það sem stéttarfélög væru að gera stuðlaði einungis að niðurbroti þeirra. Mér finnst ástæða til að menn velti því alvarlega fyrir sér hvaða félagslegu afleiðingar þau linnulausu inngrip stjórnvalda inn í það hvað sjómenn hafa verið að gera hafa haft.

Herra forseti. Ég ætla rétt að víkja frekar að frv. og þá að horfa til þess sem er kallað gerðardómur. Hér fara menn af stað með orðið gerðardómur. Yfir þessu orði er eitthvert hlutleysi og menn gætu jafnvel haldið að þaðan ættu þeir von á einhverju réttlæti. Það er þó svo að bygging svokallaðs gerðardóms er slík að hann getur aldrei kallast annað en stjórnsýslunefnd. Málið verður sett í nefnd. Við erum ekki óvön því hér. En þessi nefnd hefur ótrúlega stórt hlutverk. Hún á að ákvarða kjör sjómanna mörg næstu ár. Af hverju er þetta stjórnsýslunefnd, herra forseti? Jú, vegna þess að þegar Hæstiréttur skipar í nefnd, látum það heita gerðardóm rétt í augnablikinu, er Hæstiréttur kominn í stöðu stjórnvalds og sú nefnd sem Hæstiréttur skipar er þá stjórnsýslunefnd.

Eðli gerðardóma er að þar eiga aðilar málsvara, talsmann, þannig að ef væri um alvöru gerðardóm að ræða hlytu að þurfa að vera þarna með þeim þremur fulltrúum sem Hæstiréttur Íslands skipar, einn fulltrúi Alþýðusambandsins og annar frá Samtökum atvinnulífsins, annars vegar fyrir hönd útvegsmanna og hins vegar fyrir hönd sjómanna, þannig að augljóst væri að þessir aðilar ættu aðgang að gerðardómi --- og þá væri það orðinn gerðardómur --- með þau álitaefni sem verið er að leysa úr, með viðhorf sín til þeirra og rökstuðning sinn fyrir þeirri niðurstöðu sem þeir vilja sjá. Hér er ekkert slíkt á ferðinni, herra forseti, og það er enn eitt sem veikir málið.

Herra forseti. Ég ætla ekki að fjölyrða um þann kjarasamning sem nú á að móta allt starfsumhverfi íslenskra sjómanna. Sjómenn hafa sjálfir gefið honum þær einkunnir sem honum bera og þeir hafa viljað leggja ýmislegt á sig til að losna undan því sem þar er ákveðið. Það er alveg augljóst að mikið verður á sig lagt til þess að ná öllum undir þann kjarasamning.

[17:00]

Hæstv. sjútvrh. tók þátt í umræðum með andsvörum þegar umræðan var að byrja í dag núna eftir hádegið þar sem hann var að lýsa þeim vandkvæðum sem væru samfara því ef menn væru á mörgum samningum. Hann var í rauninni að segja okkur það eitt, herra forseti, að þegar eitt félag er búið að semja er sjálfsagt og eðlilegt að taka samningsréttinn af afgangnum. Öðruvísi gæti þetta ekkert verið og það eru slík viðhorf sem hér ráða úrslitum.

Herra forseti. Nokkuð hefur verið rætt um það í þessari umræðu og full ástæða til hvernig á því standi að deila sjómanna og útvegsmanna hefur dregist svo á langinn eða er orðin svo löng sem raun ber vitni. Ég fór yfir það þegar ég mælti fyrir áliti minni hluta sjútvn. í fyrradag að auðvitað var það svo að um leið og frjálst fiskverð var orðið til á Íslandi og menn gátu farið að selja afla sinn á fiskmörkuðum var hæsta gangverð, það sem útvegsmenn eiga að tryggja sjómönnum samkvæmt lögum og kjarasamningi þeirra, orðið víðs fjarri því fiskverði sem verið er að greiða víða um landið, víðs fjarri. Ég tala ekki um, herra forseti, þar sem sjómenn voru hýrudregnir að auki með því að láta þá taka þátt í útgerðarkostnaði, þ.e. voru látnir taka þátt í kvótakaupum. Viðleitni sjómanna til að fá útvegsmenn til að standa við það ákvæði að þeim sé tryggt hæsta gangverð fyrir aflann er það sem hefur einkennt þessar deilur allan áratuginn a.m.k. Ríkisstjórnin hefur einlægt gengið í lið með útvegsmönnum til að forða því að sjómenn fengju hæsta gangverð fyrir aflann. Það er staðan í dag. Enn horfum við framan í það.

Herra forseti. Ég tek undir það sem hv. þm. Jóhann Ársælsson sagði í ræðu sinni. Það breytir kannski litlu héðan í frá hvað stjórnarandstaðan segir um þetta mál. Hér hefur verið tekin ákvörðun. Ég er ekki að segja að sú ákvörðun sem verður framfylgt hafi orðið til í þessu húsi, herra forseti, en það var ákveðið að fara að því sem hér liggur fyrir í þessu frv. og þeim brtt. sem meiri hlutinn flytur. Fyrir liggur ákvörðun um að lúta hinum mikla og ríka vilja útvegsmanna til að sveigja allt og alla undir samning vélstjóra með þeim gerðardómi sem hér stendur til að skipa. Við megum okkar ekki mikils, því miður, gagnvart þeim ofsa sem er í þeim sem vilja koma þessu ástandi á og koma þessu í gegnum þingið.

Herra forseti. Eins og ég gat um í ræðu minni treysti ég því að sjómenn láti þetta ekki yfir sig ganga, þeir leiti réttar síns þar sem það er mögulegt og miðað við það hvernig þetta mál er vaxið er nokkuð ljóst hver hefur betur þegar menn hafa tekist á frammi fyrir dómstólum.

(Forseti (GuðjG): Að gefnu tilefni vil ég minna á 58. gr. þingskapa. Þar segir að eigi megi nema með leyfi forseta lesa upp prentað mál. Ég bið hv. þm. að hafa þetta hugfast.)