Kjaramál fiskimanna og fleira

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 17:04:52 (7922)

2001-05-16 17:04:52# 126. lþ. 125.1 fundur 737. mál: #A kjaramál fiskimanna og fleira# (breyting ýmissa laga) frv. 34/2001, ÁSJ
[prenta uppsett í dálka] 125. fundur, 126. lþ.

[17:04]

Árni Steinar Jóhannsson:

Virðulegi forseti. Við á hv. Alþingi gerum okkur grein fyrir því að hér er ákaflega sterkur stjórnarmeirihluti Framsfl. og Sjálfstfl. Þessi stjórnarmeirihluti keyrir nú fram bann við verkfalli sjómanna. Þessi stjórnarmeirihluti hefði átt að geta, ef hann hefði viljað og ef hann hefði vandað til verka að eigin mati, keyrt það mál tiltölulega greiðlega og öruggt í gegnum þingið, en slíkur hefur flumbrugangurinn verið og slík hafa vinnubrögðin verið að jafnvel þessi sterki stjórnarmeirihluti sá ástæðu til að efast um ágæti eigin verka. Ég vil að það komi skýrt fram þar sem þjóðin horfir á útsendingu héðan úr Alþingi að við í stjórnarandstöðunni erum ekki að gera það að leik að tefja að menn komist til sjós. Hér er um gríðarlega mikið og stórt mál að ræða í okkar huga, enda hefur komið í ljós að hik kom á þennan sterka stjórnarmeirihluta og þeir sáu ástæðu til að breyta verulega því frv. sem var komið fram með, sérstaklega 3. gr. frv. Þannig er staða málsins. Það er löðurmannlegt af stjórnarmeirihlutanum að stilla málum þannig upp núna að sjómenn séu orðnir óþolinmóðir að komast til sjós. Þeir vilji fá lögin fljótt í gegn og við séum að tefja.

Auðvitað gera allir sér grein fyrir því að eftir sex vikna verkfall verða menn að komast í það að afla tekna. Málið snýst ekkert um það. Auðvitað gera allir sér grein fyrir því að frystihúsin eru ekki í gangi og fiskverkafólk líður. Auðvitað gera allir sér grein fyrir því að sveitarsjóðirnir líða fyrir málið eins og það er upp sett. Auðvitað gera allir sér grein fyrir því að stopp er á útflutningi af völdum verkfallsins og það er gjaldeyrisþurrð. En einmitt í ljósi þess að menn vita þetta og gera sér grein fyrir því á hinu háa Alþingi og víðar í samfélaginu er ástæða til að staldra við og ræða þessi mál og vita og vera sannfærður um að verið sé að gera rétta hluti.

Við í stjórnarandstöðunni höfum gagnrýnt harðlega allan málatilbúnað varðandi þessa lagasetningu, sérstaklega að á spýtunni hangir ekki bara að verið sé að setja lög á sjómenn þannig að þeir komist til sjós og tekjuöflun komist í gang. Það er annað og miklu meira sem hangir á spýtunni. Heildargrunni varðandi sjávarútveginn á Íslandi á að breyta á grunni þessara laga. Ef menn vildu bara stoppa verkfall gerðu menn það með einfaldri lagasetningu og það þarf engan stóran texta til þess. En 2. gr. frv. sem bindur menn í form og síðan 3. gr. frv. þar sem stofnaður er gerðardómur gerir það að verkum að hér er verið að breyta grundvallaratriðum. Og allir gera sér grein fyrir því hvert hugurinn stefnir í þeim efnum.

Gerðardómur er samkvæmt mínum skilningi dómur þar sem tveir aðilar sem deila geta þó komið sér saman um að tilnefna í dóm sem sker úr um ágreining. Sá gerðardómur sem kallaður er svo hér er ekkert annað en stjórnvalds- eða stjórnsýslunefnd þriggja manna. Þetta er ekki gerðardómur. Þetta er þriggja manna stjórnsýslunefnd og hún á að leggja grunninn. Hún á að fara með launamál sjómanna á grunni þess sem lagt er upp með í 2. gr. laganna.

Virðulegi forseti. Við gagnrýnum slíkan málatilbúnað. Það hefur komið í ljós og við höfum séð útreikning á því að verði vélstjórasamningurinn sem er að stofni til settur inn í 2. gr. laganna leiðarljós fyrir þennan svokallaða gerðardóm er verið að vísa á að tillögur dómsins lúti að lækkun á launum sjómanna, a.m.k. í sumum útgerðarflokkum. Ef það er þetta sem menn vilja verða þeir líka að segja það. En stjórnarþingmenn á hinu háa Alþingi vilja ekki ræða um þetta. Þeir álasa okkur fyrir að vera með málþóf, tefja málið þó svo þeir geri sér allir saman grein fyrir því að stjórnarmeirihlutinn í hv. sjútvn. hefur í tvígang séð ástæðu til að koma með brtt. inn á hið háa Alþingi um hvernig þetta frv. eigi að líta út. Það er öll sannfæringin sem menn hafa fyrir málunum.

Virðulegi forseti. Það er ekki ásættanlegt fyrir stjórnarandstöðuna, og við höfum verið saman í þessu máli, að málið verði keyrt fram með þessum hætti. Hins vegar gerum við okkur grein fyrir að meiri hluti ríkisstjórnarinnar er slíkur á hinu háa Alþingi að þetta frv. eins og það nú liggur fyrir með brtt. sjútvn. verður samþykkt. Það er engin von til annars hvað sem við segjum. Við erum í 3. umr. og málið verður samþykkt.

Í samfélagi okkar eru hlutirnir orðnir þannig, og það gildir ekki bara með sjómenn og þetta mál sem við stöndum frammi fyrir nú, að framkvæmdarvaldið, ríkisstjórnin með þennan sterka meiri hluta á þinginu er að leiða okkur út á æ hálari brautir þar sem verið er að brjóta niður áratuga hefðir og venjur og alþjóðasamþykktir fyrir því hvernig á að vinna í lýðræðisríki. Það er greinilega ekki hollt mönnum að vera við stjórnvölinn svo langan tíma sem raun ber vitni, heilan áratug. Þá fara menn fljótt að halda að þeir geti ráðið á eigin forsendum og ef viðkomandi líkar það ekki er öllum stofnunum, venjum, hefðum og samþykktum rutt úr vegi ef þurfa þykir.

Það er áhyggjuefni, virðulegi forseti, að við skulum vera að þróast yfir í meira einveldi getum við sagt, meira einveldi með hverju árinu sem líður í höndum þess stjórnarmeirihluta sem hér er. Það er alveg klárt í hugum okkar margra að hér er verið að fremja gróft brot á lýðræðinu, brot sem getur leitt til þess að jafnvel, ef fer á versta veg og tekið verður mið t.d. af samningum vélstjóranna, sé verið að taka verkfallsvopnið af heilli stétt í hálfan áratug. Þetta eru óhuggulegar staðreyndir. Og það er óhuggulegt að upplifa að með þessum sterka meiri hluta í þinginu eru menn að þróast yfir í hugsunargang fyrirtækiseigandans en ekki þann hugsunargang sem hér á að vera. Hugsunargangur fyrirtækiseigandans í dag er að bregðast fljótt við, taka snöggar ákvarðanir, vera fljótur til verka, bera ábyrgð, segja menn. Það getur vel verið að slíkur hugsunarháttur geti gengið í stjórnun vissra fyrirtækja. Ég skal ekki taka afstöðu til þess. En hér eru menn farnir að gleyma því, fleiri og fleiri og oftar og oftar að Ísland er ekki fyrirtæki. Ísland er samfélag. Það er samfélag sem byggir á lýðræði og um það gilda allt önnur lögmál og allt aðrar samskiptavenjur á milli aðila en ef um fyrirtæki væri að ræða.

Fyrirtækiseigandi getur keyrt fram ákvarðanir frá degi til dags og sagt við lögfræðideildina sína: Við verðum bara að þola þann höfuðverk ef á versta veg fer. Þannig verða menn að hugsa. En hvað eru menn að hugsa í lagasetningunni á hinu háa Alþingi þegar mönnum virðist sama um að við séum á mjög hæpnum forsendum gagnvart öllum alþjóðasamþykktum sem við höfum skrifað undir varðandi félagsmál og verkalýðsmál, afar hæpnum forsendum? Það eru ekki allir teknir inn í þetta dæmi.

Sjómenn hafa verið samningslausir svo árum skiptir. Ef ILO færi ofan í þessi mál og skoðaði söguna í samningsferli sjómanna á Íslandi og skoðaði síðan þetta upplegg því að það er ekkert vafamál að eitthvert félaganna munu sækja rétt sinn til lýðræðis, að hér er um lagasetningu að ræða sem er á afar veikum grunni, sérstaklega vegna þess að menn hafa talað um í ræðum, hæstv. sjútvrh., að það sé verið að ná öllum undir sama hatt í stéttinni. Það er ekki svo vegna þess að einn aðili, ef menn ætla að fara ofan í grunninn og stokka upp á nýtt, er þegar búinn að skera sinn bita af kökunni og það gengur ekki upp samkvæmt jafnræðisreglu.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu. Það hefur komið fram allt sem máli skiptir í ræðu stjórnarandstöðuþingmanna undanfarið og ekki ástæða til að fara frekar yfir þau mál. Við höfum af harðfylgi reynt í tvo daga að fá hv. stjórnarþingmenn til að taka sönsum í þessum málum. Þeir hafa gert tvær atrennur og gert brtt., en í grunninn eru þeir nákvæmlega við sama heygarðshornið. Það er mildun á 3. gr. laganna sem menn hafa farið út í og ekki treyst sér til þess að breyta að öðru leyti. Þetta eru vond tíðindi fyrir íslenskt lýðræði, virðulegi forseti, og ég vonast til þess að þurfa aldrei að standa frammi fyrir öðrum eins vinnubrögðum og ég hef upplifað hér og vonast til þess að þurfa aldrei að standa í slíku.

Með þessum orðum, virðulegi forseti, læt ég máli mínu lokið, en vissulega væri hægt að setja á langar ræður um hvernig þetta mál hefur verið unnið, í hvaða farveg það hefur verið sett og hvers má vænta í kjölfarið á þeirri lagasetningu sem nú er í vændum. En ég geri mér grein fyrir að núna við 3. umr. verður ekki lengra gengið í að hafa áhrif á stjórnarmeirihlutann til þess að gera breytingar, fá hann til að ganga til betri vegar, og ég læt máli mínu lokið að þessu sinni.