Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 20:22:22 (7940)

2001-05-16 20:22:22# 126. lþ. 126.1 fundur 551#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 126. lþ.

[20:22]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Góðir tilheyrendur. Síðustu dagar þingsins hafa verið stormasamir. Enn eru glóðvolg lögin sem svipta sjómannastéttina samningsrétti og banna íslenskum sjómönnum að heyja verkfallsbaráttu. Um leið og verkfall þeirra var farið að hrífa og sjómenn loksins, eftir sex vikur í verkfalli, komnir með samningsstöðu fyrir réttmætar kröfur sínar var höggið látið ríða og rýtingurinn, ríkisstjórnarrýtingurinn, rekinn í bakið á þeim.

Herra forseti. Ég veit að þetta eru stór orð. En með þessari gjörð eru menn, sem verið hafa kauplausir í hálfan annan mánuð í nauðvarnarbaráttu gegn óbilgjörnum andstæðingi, skildir eftir á köldum klaka án samningsstöðu og í höndunum á nefnd sem fær sjálfdæmi um kjör þeirra.

Vissulega eru fórnarlömb þessara átaka fleiri, t.d. fiskverkunarfólkið, láglaunafólk, tekjulaust í allt of langan tíma. En menn skyldu aldrei gleyma því við hverja er að sakast. Ekki við sjómenn heldur stjórnarmeirihlutann hér á Alþingi, ríkisstjórnina sem starfar á hans ábyrgð og að sjálfsögðu sjálfa húsbændurna í LÍÚ því að það eru þeir sem skipa hér fyrir verkum.

Það er mikill misskilningur þegar því er haldið fram að við búum við sterka ríkisstjórn. Svo er ekki. Þrátt fyrir öll mannalætin er nánast allt sem þessi ríkisstjórn gerir fyrirsjáanlegt. Þar er ekkert sem kemur á óvart. Ég bendi mönnum á að bera saman annars vegar gjörðir ríkisstjórnarinnar og hins vegar stefnuskrá og kröfur stórfyrirtækja, Samtaka atvinnulífsins, Fjárvangs hf. og Gróða sf., stórkaupmanna og Verslunarráðsins. Herra forseti, mér kæmi það ekki á óvart að hv. þm. Vilhjálmur Egilsson, sem jafnframt er kröftugur talsmaður þessara aðila og ekkert nema gott um það segja enda heiðarlegur maður og sjálfum sér samkvæmur, eigi hér á eftir eftir að færa alveg sérstakar kveðjur frá fyrrnefndum aðilum, Fjárvangi og Verslunarráðinu, og lýsa ánægju með störf þessarar ríkisstjórnar. Ég hvet menn til að leggja við hlustir.

Hins vegar verðum við að vera hófsöm og sýna miskunnsemi þar sem hún á við. Menn eru nokkuð þrekaðir eftir mikinn afmælisfögnuð, tíu ára afmæli ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar, og dómgreindin kannski ekki alveg upp á það besta. Afmæliskruðirí og önnur fjörefni örva blóðrásina og kunna að rugla menn í ríminu og gefa óskhyggjunni byr undir báða vængi. Við slíkar aðstæður telja menn sig gjarnan búa yfir mikilli festu og að öll þeirra verk séu eins góð og best verður á kosið.

En, herra forseti, nú eru þessar sjálfshælingarhátíðir að baki og rétt að gera þá kröfu til þeirra sem treyst er fyrir þjóðarskútunni að þeir horfi raunsætt á málin og í samhengi. Það er ekki nóg að segja að skuldir ríkisins fari lækkandi. Það þarf líka að grafast fyrir um skýringarnar, innstreymi í ríkissjóð á grundvelli vaxandi viðskiptahalla og aukinnar skuldsetningar atvinnulífsins, sölu ríkiseigna og yfirfærslu á skuldum ríkisins yfir á herðar sveitarfélaganna.

Þegar dæmið er gert upp í heild sinni kemur í ljós að erlendar skuldir Íslendinga eru núna hærri en þær hafa nokkru sinni verið í Íslandssögunni eða næstum 800 milljarðar kr. Já, en ríkissjóður hefur ekki skrifað upp á þessar skuldir, segir hæstv. fjmrh. Við berum enga ábyrgð. Auðvitað ber ríkið ábyrgð og auðvitað er samhengi á milli efnhagsstefnu ríkisstjórnarinnar, rýrnandi verðgildis krónunnar, viðskiptahalla og skuldsetningar þjóðarinnar. Það er mikill misskilningur ef ríkisstjórnin heldur að hún geti staðið álengdar ef efnahagskerfið riðar til falls. Þegar til kastanna kemur er ríkið ábyrgt fyrir því sem gerist. Þannig var norska ríkið nauðbeygt til að verja 500 milljörðum kr. til stuðnings bankakerfinu þar í landi, sem hafði verið einkavætt, þegar það hrundi vegna ábyrgðarlausrar fjárfestingarstefnu.

En afmælisbörnin okkar hafa ekki miklar áhyggjur af þessu. Þau vilja bara fleiri partí og meira fjör og eru í alvöru að tala um að ráðast í mörg hundruð milljarða áhættufjárfestingar í virkjunum og stóriðju. Þegar er búið að verja milljörðum í undirbúning fyrir virkjanir sem alls óvíst er að ráðist verði í. En svo blindur er hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., að ekkert, nánast ekkert virðist hann sjá annað en mengandi málmbræðslur. Átakanlegar voru lýsingar á fundi Útflutningsráðs fyrir tveimur dögum þar sem hann lá nánast á hnjánum og sárbændi menn um að leggja ekki stein í götu stóriðju.

Hvað með loforðin, hæstv. utanrrh.? Ég veit ekki betur en því hafi verið lofað að hrófla hvergi við Þjórsárverum. Hvernig stendur þá á því að áform eru nú uppi um slíkt? Í þessum sal var því lofað í fyrravetur að ekki yrði ráðist í virkjunarframkvæmdir á hálendinu norður og austur af Vatnajökli eða neinar framkvæmdir sem tengdust virkjunum þar fyrr en raforkusamningar lægju fyrir og sönnur væru færðar á arðsemi raforkusölunnar. Voru þetta sams konar loforð og þegar sagt var að ekki stæði til að selja Landssímann, það ætti aðeins að breyta honum í hlutafélag? Það er alvarlegt þegar stjórnmálamenn og heilar ríkisstjórnir svíkja loforð sín, en hitt er þó enn verra ef spjöllin sem þær valda eru óafturkræf og þar vísa ég til Þjórsárvera.

Ég hvet hæstv. utanrrh. til að hafa sig upp af hnjánum og reyna að sjá til sólar. Það virtist hann gera á nýafstöðnu flokksþingi Framsfl. Það var líka full ástæða til. Þar var kosið í mörg embætti, margir komust til mikillar virðingar og öllum liðsmönnum Framsfl. var fengið hlutverk. Við höfum að undanförnu verið að kynnast því á hve smellinn hátt þeir rækja þetta nýja hlutverk sitt hér í þinginu með því að ráðast á helsta ógnvald sinn, Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð, og segja hana þjóðlegt afturhald sem helst vilji nærast á hreindýramosa. Hundasúrur hafa einnig komið nokkuð við sögu í þessum málflutningi, verið eins konar einkennismark framsóknarmanna þegar þeir taka til við að gagnrýna Vinstri hreyfinguna -- grænt framboð. Sjálfum finnst mér hvíti gæðingurinn hæstv. landbrh. Guðna Ágústssonar skemmtilegra tákn fyrir framsóknarmenn en hundasúran, en þetta er eflaust smekksatriði eins og svo margt annað.

Hitt skulum við taka alvarlega þegar sagt er að við séum afturhaldssöm og jafnvel óábyrg gagnvart atvinnuuppbyggingu í landinu, ekki síst á Austurlandi. Þessu er teflt gegn meintu frjálslyndi og framfarastefnu ríkisstjórnarinnar, einkum Framsfl. En þá spyr ég á móti: Á hvern hátt birtist þetta frjálslyndi og þessi framfarasókn? Birtist hún í því að aflétta gróða af hlutabréfum? Birtist hún í því að brjóta stjórnarskrá á öryrkjum og hafa af þeim og öldruðum réttmætar bætur? Birtist frjálslyndi Framsfl. í því að lækka skattleysismörk og íþyngja sérstaklega lágtekjufólki á Íslandi eða með því að einkavæða skóla og elliheimili? Veldur víðsýnin því að pósthúsum á landsbyggðinni er lokað og dregið þar úr samfélagsþjónustu? Eða er kannski síðasta afrekið, að svipta íslenska sjómenn samningsréttinum, til marks um frjálslynda og víðsýna ríkisstjórn?

Fyrir fáeinum árum var gerð könnun á meðal danskra atvinnurekenda á því hvað þeir teldu mikilvægast til atvinnuppbyggingar, hvað þeir legðu mest upp úr að gert yrði af hálfu samfélagsins gagnvart fyrirtækjum þeirra svo þau fengju dafnað. Svör þeirra voru mjög á einn veg. Eflaust hafa þeir allir viljað greiða sem lægsta skatta þó ekki kæmi það fram í þessari könnun. En svörin voru hins vegar þannig að þau kröfðust útgjalda og þar af leiðandi skatttekna. Þeir töldu brýnt að búa vel að börnum og búa vel að fjölskyldunni. Góðir skólar þyrftu að vera til staðar og heilbrigðisþjónusta. Gott samgöngukerfi með póstþjónustu og fjarskiptum og löggæsla þyrfti að vera traust. Með öðrum orðum töldu þeir að þessar undirstöður samfélagsins þyrftu að vera traustar til að skapa forsendur fyrir atvinnuuppbyggingu.

Auðvitað getur samfélagið örvað atvinnuuppbyggingu á annan hátt einnig, með þjónustu við fyrirtæki og stuðningi við nýsköpun. Það er hlutverk okkar. Það er hlutverk ríkisins. Það er hlutverk sveitarfélaganna. Ef milljörðunum sem nú fara í að búa í haginn fyrir eitt stóriðjuver væri varið í stuðning við fólk og fyrirtæki þá velkist ég ekki í nokkrum vafa um að atvinnulífið mundi taka við sér og blómstra. Gæti það verið, þegar allt kemur til alls, að það séum við sem höfum trú á fólki og á framtíðinni, sem viljum treysta á hugmyndaauðgi og sköpunargleði? Getur það verið að við séum hið raunverulega framfarasinnaða afl þrátt fyrir allar háðsglósurnar en ekki hinir sem í anda stóriðjutrúar eins og hún gerðist stækust á Stalínstímanum þegar ríkið átti að leysa atvinnuvandann með risaverksmiðjum, jafnvel fyrir smá byggðarlög og oft með hörmulegum afleiðingum?

Ég hef skoðað af athygli greinargerðir ungra hagfræðinga sem telja að efnahagslegar forsendur stóriðjudrauma Halldórs Ásgrímssonar standist ekki skoðun. Þessum röddum er að fjölga í þjóðfélaginu. DV spyr í dag hvort álið sé málið. Framkvæmdastjóri á Selfossi varar við því að setja öll eggin í eina körfu. Skáld telur stórvirkjanir í þágu álvera ekki standast umhverfis- og efnahagsforsendur. Starfsmaður Kaupþings varar við því að einblína á álver og hið sama gerir lektor í hagfræði við Háskóla Íslands. Hann hefur efasemdir um arðsemi slíkra virkjana og telur mikilvægt að stuðla að fjölbreytni í atvinnulífi. Hvað það snertir segist hann ekki vera jafnsvartsýnn og Halldór. Það erum við ekki heldur í Vinstri hreyfingunni -- grænu framboði ef rétt er á málum haldið. Út á það ganga okkar tillögur og alltaf þegar ríkisstjórnin sýnir einhverja tilburði til uppbyggingar í samfélagsþjónustunni erum við reiðubúin til samstarfs.

Við vorum ósátt við breytingar á húsnæðiskerfinu á sínum tíma og gagnrýndum þær harðlega en nú þegar hæstv. félmrh. lýsir áhuga á að hefja uppbyggingarstarf að nýju erum við reiðubúin að taka í útrétta hönd. Einmitt sú var hugsunin sem lá að baki tillögum okkar frá í vetur, að boða til sérstaks byggðaþings nú í sumar til að taka sérstaklega á vanda landsbyggðarinnar og ræða leiðir til þess að styrkja hana. Þessu hafnaði ríkisstjórnin með þjósti.

Herra forseti. Að lokum þetta: Það segir sína sögu um viðhorf þeirrar ríkisstjórnar sem nú stýrir landi okkar hver stjfrv. eru sem nú bíða afgreiðslu: sala bankanna, sala Landssímans og dagsverkið þekkjum við, rýtingurinn í bakið á íslenskum sjómönnum. Ekki voru þetta óskalög sjómanna, en ég spyr: Er ekki nóg komið af óskalögum Davíðs Oddssonar?