Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)

Miðvikudaginn 16. maí 2001, kl. 21:36:26 (7949)

2001-05-16 21:36:26# 126. lþ. 126.1 fundur 551#B almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumræður)#, VE
[prenta uppsett í dálka] 126. fundur, 126. lþ.

[21:36]

Vilhjálmur Egilsson:

Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Íslenska hagkerfið hefur stækkað um 25% milli áranna 1995 og 2000. Lífskjör þjóðarinnar, alls almennings hafa batnað í sama takti.

Þessi mikli hagvöxtur hefur reynt á þanþol efnahagslífsins og þess vegna þurfum við að ná betra jafnvægi í hagkerfinu. Það þarf að stilla eftirspurn opinberra aðila, heimila og fyrirtækja í hóf, það þarf að stilla betur strengi atvinnulífsins sem er framboðshliðin í hagkerfinu. Það þarf að stilla upp til frekari sóknar á næstu árum.

Viðfangsefni hagstjórnarinnar er að sjá til þess að þetta jafnvægi batni. Mikilvæg breyting var gerð fyrir nokkrum vikum þegar gengi krónunnar var látið ráðast af markaði. Við það verður gengið virkara jafnvægistæki í efnahagslífinu.

Ef við veltum fyrir okkur hagvextinum á næstu árum getum við velt því fyrir okkur hvað það mun taka mörg ár að stækka hagkerfið um önnur 25%. Það mun ráðast af því hvernig til tekst í atvinnulífinu. Það þarf að efla útflutning vöru og þjónustu, allar atvinnugreinar þurfa að ná betri árangri í alþjóðavæðingu, það þarf að leggja aukna áherslu á hagræðingu og framleiðniaukningu og það verður sífellt að styrkja og hlúa að innviðum hagkerfisins. Og hver skyldu nú vera helstu verkefnin í því sambandi?

Forsrh. hefur lagt fram tillögur í skattamálum atvinnulífsins sem koma Íslandi á kortið í alþjóðlegu skattalegu samhengi. Það þarf að þróa áfram viðskiptalöggjöfina í víðum skilningi. Á undanförnum árum hafa verið unnin stórvirki í þá átt að setja nútímalöggjöf um starfsumhverfi atvinnulífsins og viðskipti og mikilvæg skref eru fram undan.

Við þurfum að efla menntakerfið, gífurlegar breytingar hafa orðið á því sviði á undanförnum árum, sérstaklega á sviði æðri menntunar og fjarkennslu. Síaukinn áhugi og aðkoma einkaaðila er að því að veita menntun. Það er með stolti sem ég nefni Verslunarráð Íslands í þessu sambandi sem er með yfir 500 millj. kr. í eigið fé í menntastofnunum sem veita vel á annað þúsund manns menntun. Og það er með stolti sem ég ber þessi samtök saman við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja sem undir forustu hv. þm. Ögmundar Jónassonar álítur það sitt helsta samfélagsverkefni að binda eigið fé í sumarbústöðum.

Það er verkefni að ná stóriðjusamningum, ná samningum um stækkun Norðuráls og Reyðaráls og reisa tilheyrandi virkjanir. Það er sífellt viðameira og mikilvægara verkefni að tryggja réttindi okkar á erlendri grund. Alþjóðavæðingin byggir á samningum um réttindi fyrirtækja og einstaklinga við erlend ríki. Utanrrh. og hans menn hafa unnið gott verk á þessu sviði.

Velferðarkerfið þarf að efla. Það er öflugt samkeppnistæki þegar ungir Íslendingar sem hafa menntast erlendis velja um það hvort þeir flytja aftur heim eða ekki. Þá skiptir máli að búa við góða heilbrigðisþjónustu og gott almannatryggingakerfi. Árangur okkar í atvinnulífinu og velferðarkerfinu hangir saman. Án öflugs atvinnulífs verður ekki öflugt velferðarkerfi og án öflugs velferðarkerfis fáum við ekki unga fólkið til landsins til þess að byggja upp atvinnulífið.

Ýmis verkefni eru fram undan í byggðamálum. Skapa þarf verðmætari störf sem skila samkeppnishæfum tekjum fyrir íbúa landsbyggðarinnar, það er forsenda blómlegs mannlífs. Það þarf að endurskoða stjórn fiskveiða, það þarf að viðhalda ábyrgri stjórnun, sjávarútvegur þarf að þróast á hagkvæman hátt og það þurfa allir að fá sanngjarna möguleika til þess að ná árangri í rekstri. Bábiljur hv. þm. Guðjóns Arnar Kristjánssonar munu ekki rætast.

Virðulegi forseti. Það flæða hér góð mál um þingsali. Ég nefni sölu hlutafjár ríkisins í ríkisbönkunum. Ég nefni heimildir til sölu hlutafjár ríkisins í Landssímanum. Ég nefni að sparisjóðir fái heimild til þess að breytast í hlutafélög. Ég nefni að samvinnufélög fái heimild til þess að breytast í hlutafélög. Ég nefni nýja löggjöf um Seðlabanka Íslands. Ég nefni heildarlöggjöf um opinber innkaup og opinberar framkvæmdir. Ég nefni ný vaxtalög. Ég nefni löggjöf um rafrænar undirskriftir. Ég nefni frv. til nýrra raforkulaga. Og ég nefni frv. til almannatrygginga.

Virðulegi forseti. Ég nefndi áðan að við þyrftum að efla samkeppnishæfni íslensks atvinnulífs. Vinnustöðvanir eru ekki samkeppnistæki. Aðilar vinnumarkaðarins hafa mikil réttindi til þess að stöðva hjól atvinnulífsins. Þessum réttindum fylgir mikil ábyrgð. Það hefur ekki verið skemmtilegt verk að grípa inn í kjaradeilu sjómanna og útvegsmanna. Það hefur hins vegar verið nauðsynlegt. Fyrir hverja ríkisstjórn sem vill stjórna landinu með ábyrgð gagnvart almenningi er það nauðsynlegt. Það hljóta að vera takmörk fyrir hvað deiluaðilar í kjaradeilum geta látið sig almannahagsmuni litlu varða. Sjómenn hefðu þolað lengra verkfall. Mörg útgerðarfyrirtæki hefðu þolað miklu lengra verkfall. En þjóðin þarf á því að halda að sjávarútvegurinn skili eðlilegu framboði af gjaldeyri inn á gjaldeyrismarkaðinn. Með því að skrúfa fyrir framboð á gjaldeyri frá sjávarútveginum í svo langan tíma er verið að halda gengi krónunnar niðri og kynda undir verðhækkunum og lækka kaupmátt almennings. Inngrip í þessa kjaradeilu var því orðin þjóðhagsleg nauðsyn.

Virðulegi forseti. Nú eru mörg heimilin og fyrirtækin að spá í framtíðina eftir eitt glæsilegasta uppgangstímabil sem við Íslendingar höfum lifað. Margir hafa gengið of hratt um gleðinnar dyr og misreiknað sig í neyslu og fjárfestingum. Því skiptir máli að við notum tækifærið til að læra og draga réttar ályktanir fyrir framtíðina. Við höfum alla burði til þess að ná meiri árangri og það er á okkar valdi að halda stöðu Íslands í hópi mestu velmegunar- og velferðarríkja.