Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 11:00:30 (7963)

2001-05-17 11:00:30# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[11:00]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því varðandi nefndarálitið að hv. þm. Árni Johnsen, frsm. meiri hluta samgn., sagði að meiri hluti samgn. legði mikla áherslu á breytingar á gjaldskrá vegna leigulína. Það er útlistað í nefndarálitinu hvernig það er. Þetta staðfestir reyndar það álit sem við í minni hlutanum höfum margoft talað um, hið mikla ójafnvægi sem er milli fyrirtækja á þessu sviði. Svo við tökum dæmi kostar 25 þús. kr. að leigja tveggja megabæta leigulínu á höfuðborgarsvæðinu en ef við förum til Vestmannaeyja, aðeins í 150 km fjarlægð, þá er það 300% dýrara. Ég ætla ekki að nefna verðið sem gilti áður en síðasta breyting var gerð 1. nóvember 1999, ég ætla ekki að nefna þær tölur af tillitssemi við alla aðila, muninn sem þá var.

En ég nefni líka að munurinn milli þess að leigja þessar línur á höfuðborgarsvæðinu og á þeim stöðum sem sem einna lengst eru héðan, svo við tökum Neskaupstað sem dæmi, er 1000%. Það er 1000% dýrara að leigja þessar línur fyrir fyrirtæki sem er að hasla sér völl á þessu sviði á Neskaupstað en á höfuðborgarsvæðinu. Mig langar að spyrja hv. frsm. hvort það sé ekki hrikalegur munur og hvort þau fáu og fátæklegu orð sem sögð eru í nál. meiri hlutans um þetta atriði sé ekki nánast eins og að skila auðu. Það er lagt til og beðið um að þetta sé skoðað og allt það en þetta hefur gengið ákaflega hægt. Það kom fram hjá öllum gestum sem komu af landsbyggðinni að þetta var mesta umkvörtunarefni þeirra.