Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 11:02:42 (7964)

2001-05-17 11:02:42# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. meiri hluta ÁJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[11:02]

Frsm. meiri hluta samgn. (Árni Johnsen) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að það sé einmitt alveg öfugt, að ekki sé slaklega að orði kveðið, heldur mjög ákveðið og þetta séu ekki fátækleg orð í nefndarálitinu, heldur séu þau hugsuð með mikilli sanngirni og framsýni og metnaði, með það fyrir augum að landsmenn allir sitji við sama borð.

Óskað er eftir samstarfi við hæstv. samgrh. við samgn. á þessu ári til að vinna nákvæmlega að framgangi þessara þátta sem skipta miklu máli, þannig að menn sitji við sama borð, eins og gildir til að mynda um gjöld á símtölum á Íslandi í dag. Þetta byggist á því að jafna kostnað á grunnkerfinu þannig að hann verði óháður fjarlægðum. Enginn skoðanamunur er í þessum efnum. Þetta er markmiðið og er sett fram mjög skýrt og skorinort á eðlilegan hátt.