Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 11:08:38 (7967)

2001-05-17 11:08:38# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. 1. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[11:08]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Ég ætla að gera grein fyrir áliti 1. minni hluta samgn. og þeirri afstöðu sem 1. minni hluti hefur til þessarar sölu.

Eins og flestum er kunnugt er hér lagt upp með einhverja stærstu einkavæðingu sem ríkið hefur lagst í og án efa þá áhrifamestu. Með sölu Landssímans er í reynd verið að taka ákvörðun um að ríkissjóður, eða ríkið, dragi sig út af fjarskiptamarkaði. Með sölu Landssímans er tekin ákvörðun um í hvaða umhverfi fjarskiptamarkaðurinn og hugbúnaðargeirinn muni starfa á næstu árum. Hér er því að mínu viti gríðarlega stór og mikil ákvörðun á ferðinni og skiptir miklu máli að vandað sé til hennar eins og kostur er.

Fjarskiptaheimurinn er víðáttumikið svið og í stöðugri breytingu vegna mikilla tækniframfara. Ríkiseinkaleyfin hafa mótað rekstur fjarskiptafyrirtækja og þar af leiðandi tæknilega þróun þeirra frá upphafi. Afnám ríkiseinkaleyfanna markar eiginlega þau tímamót að þá fyrst fór að vera veruleg þróun á þessu sviði. Við höfum séð gríðarlega þróun á undanförnum árum, séð internetið, séð GSM og þráðlausu símana þróast mjög ört. Þróun á þessu sviði hefur verið gríðarlega ör, eftir að ríkiseinkaleyfin voru afnumin almennt. Þessi þróun er í sjálfu sér ekki svo gömul. Líklega var þetta fyrst gert í Bandaríkjunum á áttunda áratugnum, Evrópa hefur verið að gera þetta undanfarin 10 ár. Þessar breytingar hafa gert það að verkum að tæknileg þróun í fjarskiptageiranum hefur horfið frá því að vera þróun í þágu ríkisfyrirtækjanna í það að þróast sjálfstætt enda höfum við séð gríðarlega miklar breytingar á þessum sviðum undanfarin ár. Þess vegna er það a.m.k. skoðun mín að afnám þessara ríkiseinkaleyfa hafi verið mikið framfaraskref.

Það breytir þó ekki hinu að við afnám þessara einkaleyfa standa eftir risastór fyrirtæki í ríkiseigu sem skyggja á allan annan rekstur. Það er einmitt þetta fyrirtæki sem er ætlunin að selja núna. Vandamálið við að ákveða að selja er fyrst og fremst hvernig á að selja. Hvaða afleiðingar hefur það í för með sér að fyrirtækið er selt? Hvaða afleiðingar hefur það í för með sér að fyrirtækið er selt í einu lagi? Að mínu mati hafa menn ekki rætt þessa spurningu nægilega mikið og mér hefur fundist það allt of mikið kappsmál að selja fyrirtækið í einu lagi. Ég verð að segja það líka að rökin sem sett eru fram eru ekki mjög sterk.

Menn hafa reynt að færa fram rök fyrir því að fyrirtækið sé verðmerkt með því að selja það í einu lagi. Í öðru lagi hafa rökin verið þau að menn vita ekki hvað þeir fá ef það er gert með öðrum hætti. Það er ákveðin íhaldssemi. Menn treysta sér ekki til að breyta vegna þess að þeir vita hvað þeir hafa en ekki hvað þeir fá.

Að mínu viti var það aðeins tímaspursmál hvenær Landssími Íslands yrði seldur en ekki spurning um hvort. Þegar ríkiseinkaleyfin voru afnumin þá var það bara tímaspursmál hvenær fyrirtækið yrði selt. Eftir að þessi atvinnugrein er tekin úr þessu ríkiseinkaleyfafyrirkomulagi og sett á samkeppnissvið þá tel ég að sé ofureðlilegt að ríkið dragi sig út af þeim markaði. En í ljósi þessarar löngu sögu einkaleyfanna, í ljósi langrar sögu um að tæknin hafi þróast á forsendum þessara ríkisfyrirtækja, í ljósi þeirrar miklu þekkingar sem þarna er og í ljósi þeirra miklu verðmæta sem fyrirtækið er, þá er mjög vandmeðfarið að selja þessi fyrirtæki.

Sá sem hér stendur er þeirrar skoðunar að það beri að selja fyrirtækið en það megi ekki selja það í einu lagi. Af hverju má ekki selja það í einu lagi? Það er einfaldlega vegna þess að þá mun fyrirtækið, Landssími Íslands, breytast úr því að vera ríkiseinokun í það að verða einkaeinokun. Með því að selja fyrirtækið og þjóðveginn þannig að það fyrirtæki ráði því alfarið hverjir geti ferðast um vegakerfið, er verið að færa fyrirtæki, einstöku fyrirtæki, alveg gríðarlega yfirburðarstöðu á þessum markaði sem mun hafa mikil áhrif á það hvernig önnur fyrirtæki þróast.

Vissulega hafa menn sagt að hér séu í gildi samkeppnislög og hér séu í gildi lög um Póst- og fjarskiptastofnun, og Samkeppnisstofnun hafi ásamt Póst- og fjarskiptastofnun alla burði til að tryggja að umferð um þetta vegakerfi verði sem skyldi. En það vita allir að það getur aldrei orðið þannig. Fyrirtæki sem ræður aðgengi að vegakerfinu ræður því hvenær menn koma, hvernig menn haga samskiptum við önnur fyrirtæki og sagan sýnir okkur ómældan fjölda dæma um að menn hafi sett upp tæknilegar viðskiptahindranir án þess að nokkur eftirlitsstofnun hafi getað komið að því máli eða beitt sér í því fyrr en löngu eftir að menn hafa hætt að leita eftir svörum við þeim spurningum sem menn báru hugsanlega upp í upphafi.

[11:15]

Samfylkingin er þeirrar skoðunar að menn eigi að nota markaðinn til þess að tryggja vöxt og viðgang þessarar greinar. Ef markaðurinn er í lagi mun hann tryggja góða þjónustu og betra verð til neytenda. En það er algjör forsenda fyrir því að markaðurinn virki að samkeppni sé á þeim markaði. Með því að selja fyrirtækið í einu lagi er verið að selja það þannig að það er mjög ólíklegt að markaðurinn skili okkur þeim afrakstri sem hann gæti. Og það er nákvæmlega þarna sem skilur á milli Samfylkingarinnar annars vegar og ríkisstjórnarinnar hins vegar.

Það er líka fróðlegt að skoða aðeins af hverju við gerum svona mikla kröfu um að fyrirtækið verði selt þannig að samkeppni verði tryggð. Hvað er það í þessari samkeppni sem gerir það að verkum að við leggjum svona mikla áherslu á þetta? Það er í fyrsta lagi, virðulegi forseti, að þar sem samkeppni er tryggð, þar er aðgengi neytenda tryggt. Þar er tryggt að menn geti náð í þá þjónustu sem þeir vilja sækja á eðlilegu verði. Markaðurinn er í sjálfu sér ekkert annað en tæki til þess að mynda eðlilegt verð. Og eðlilegt verð myndast ekki á markaði nema samkeppni sé til staðar. Því má segja að að hluta til sé samkeppni að mörgu leyti félagsleg aðgerð þar sem verð myndast á markaði. Reynt er að tryggja fjölda þeirra sem hafa aðgang að því að kaupa og reynt er að tryggja fjölda þeirra sem geta selt á þessum markaði. Þess vegna er samkeppni að hluta til félagsleg aðgerð þar sem verð myndast á markaði en um leið tryggir samkeppni að fyrirtækin sem þar eru að selja séu á tánum vegna þess að þau sem gefa eftir lifa líklega ekki af í slíkri samkeppni.

Þess vegna er alveg fráleitt, að mínu viti, að fara úr ríkiseinokun í einkaeinokun á þessu sviði. Og með því að fara þá leið held ég að við munum ekki njóta þess sem við gætum dregið fram ef við leyfum markaðnum að vinna þar sem samkeppnin er sem skyldi.

Fróðlegt er að horfa á stjórnmálaflokkana hér á þingi í þessu ljósi þegar litið er til þess hver afstaða þeirra er. Það hefur lengi verið mjög rík afstaða hjá Sjálfstfl. og einkanlega hægri mönnum í Evrópu almennt, og það má kannski segja sem svo að ungliðarnir í Sjálfstfl. séu í raun og veru að presentera það almenna viðhorf sem hægri flokkar hafa í Evrópu, þ.e. þeir eru andvígir þeirri aðferðafræði að byggja markaðinn upp þar sem samkeppnin er tryggð. Þeir telja að markaðurinn geti séð um sig sjálfur og hann skili ætíð því besta, það þurfi ekki afskipti ríkisvaldsins. Að vísu gusaðist dálítið yfir þessa afstöðu nýverið, m.a. þegar Samkeppnisstofnun setti fram skýrslur sínar um grænmetismarkaðinn þar sem þetta virkaði reyndar ekki nema ákveðið aðhald og eftirlit sé viðhaft, en það breytir ekki hinu að í Sjálfstfl. hafa verið rík viðhorf í þessa átt og það þekki ég vel eftir að hafa unnið að samkeppnislögunum.

Það má einnig segja að Vinstri grænir eru mjög skýrir í þessum efnum. Þeir telja einfaldlega að þessu sé best fyrir komið hjá ríkisvaldinu, að ríkisvaldið eigi að sjá um þetta og í raun og veru eru þeir þeirrar skoðunar að kannski eigi að vinna til baka, að ríkið fái aftur einkaleyfi á fjarskiptum. En það breytir ekki hinu að þeir hafa mjög skýr viðhorf í þessu. Þeir telja að þessi þjónusta, sem þeir skilgreina sem þátt af samfélagsgerðinni, sé best komið fyrir hjá ríkisvaldinu og það er skýrt.

Við erum annarrar skoðunar. Við teljum að selja eigi fyrirtækið á þeim forsendum að samkeppnin verði til staðar og við notum samkeppnina og markaðinn til að ná því besta fram fyrir samfélagið. Það er okkar skýra afstaða og nál. gerir grein fyrir því.

En í öllu þessu veltir maður því fyrir sér: Hvar í veröldinni er Framsfl. í þessu öllu saman? Hann hafði lengi talað fyrir því að fara þá leið sem við leggjum hér upp með. Hann hafði lengi talað fyrir því að skilja ætti grunnnetið frá. Hann hafði lengi talað fyrir því að hér yrði engin samkeppni nema grunnnetið yrði skilið frá. Svo þegar maður les álit meiri hlutans og forsendurnar fyrir sölu með þessum hætti þá virðist svo að hann hafi fallið frá afstöðu sinni af því að það á að ráða tvo menn til Samkeppnisstofnunar. Það á að bæta við tveimur mönnum hjá Samkeppnisstofnun og líklega öðrum tveimur hjá Póst- og fjarskiptastofnun.

Í raun og veru er ekkert annað í þessu sem réttlætir slíka kúvendingu hjá Framsfl., ekki neitt. Og mér þykir það miður vegna þess að mér þótti þeir vera alveg á hárréttri leið lengi vel í þessari umræðu. Vel má vera að það séu aðrir samningar sem við ekki vitum um sem tengjast sölunni og tengjast því að Framsfl. fór að lokum inn á línu Sjálfstfl. Um það ætla ég ekki að hafa fleiri orð. En það eru gríðarleg vonbrigði að Framsfl. skyldi fara af þeirri leið sem hann var á í upphafi. Þegar menn reyna síðan að fara yfir þetta og reyna að velta fyrir sér markmiðunum með þessari stóru sölu, kannski mestu sölu, mestu einkavæðingu sem ríkið hefur farið í, að þá skuli flokkarnir, a.m.k. þessir þrír, Samfylking, Sjálfstfl. og Vinstri grænir hafa nokkuð skýra afstöðu til málsins en Framsfl. flakkar þarna á milli. Á endanum er það svo að þar sem verður bætt við tveimur mönnum hjá Samkeppnisstofnun og tveimur hjá Póst- og fjarskiptastofnun þá telja þeir að sú samkeppni sem þeir hafa oft á tíðum talað fyrir sé tryggð. Það er ekkert annað í málflutningi þeirra eða í því sem hægt er að lesa sem réttlætir slíka kúvendingu. Það hlýtur því að vera eitthvað annað sem býr að baki.

Virðulegi forseti. Ég ætla nú að gera grein fyrir nál. 1. minni hluta, sem hv. þm. Kristján L. Möller stendur að ásamt mér.

Þegar ákvörðun er tekin um að selja fyrirtæki eins og Landssíma Íslands, sem í rúm 90 ár naut einkaréttar til reksturs á fjarskiptaþjónustu hér á landi, er ljóst að verið er að taka ákvörðun um sölu fyrirtækis sem hefur yfirburðastöðu á fjarskiptamarkaði. Ákvörðun um sölu fyrirtækisins og hvernig staðið verði að henni er um leið ákvörðun um hvernig rekstrarumhverfi fjarskipta- og hugbúnaðariðnaðarins verði í nánustu framtíð. Það hefur komið fram við meðferð þessa frumvarps að fyrirtækið hefur nú 85% hlutdeild í tekjum á fjarskiptamarkaði. Eftirfarandi upptalning gefur þessa stöðu e.t.v. betur til kynna:

Landssíminn hefur sterka fjárhagslega stöðu, eigið fé fyrirtækisins er talið vera um 13 milljarðar kr.

Áætluð velta á árinu 2001 er 17 milljarðar kr.

Landssíminn hefur yfirburðastöðu á GSM-markaðinum.

Landssíminn rekur eina NMT-farsímakerfið hér á landi.

Landssíminn er í einokunaraðstöðu í rekstri talsímaþjónustu og hefur því viðskiptatengsl við nær öll heimili í landinu.

Landssíminn hefur yfirburðastöðu í útlandasímtölum.

Landssíminn og dótturfyrirtæki hans hafa markaðsráðandi stöðu á netmarkaðinum, en sá markaður er nátengdur fjarskiptamarkaðinum.

Í skjóli einkaréttar í áratugi og margvíslegrar ríkisaðstoðar hefur Landssíminn byggt upp fjarskiptakerfi sem að mati fyrirtækisins sjálfs er í fremstu röð í heiminum í dag.

Landssíminn hefur í áranna rás byggt upp víðtækt sölukerfi á þjónustu sinni.

Landssíminn hefur fjárfest í mörgum fyrirtækjum á fjarskipta- og hugbúnaðarsviði þar sem fyrirtækið hefur veruleg áhrif á rekstur þeirra.

Af þessari upptalningu um stöðu fyrirtækisins má ráða að Landssíminn mun alltaf verða stórt og öflugt fyrirtæki á íslenskan mælikvarða, hvort heldur hann yrði seldur í einu lagi eða honum skipt upp á einhvern hátt. Meginrökin sem færð eru fyrir sölu fyrirtækisins eru tvenn. Í fyrsta lagi að fyrirtækið sé verðmætara í einu lagi en ef það yrði bútað niður. Í öðru lagi hafa verið færð rök að því að verulegur kostnaður hljótist af því fyrir neytendur ef grunnnetið verður aðskilið við söluna vegna ýmiss konar tæknibúnaðar sem yrði að koma upp og kostnaðar sem af því kynni að hljótast. Þá hefur verið á það bent að menn viti í dag hvað þeir hafi en ekki hvað þeir fái yrði fyrirtækinu skipt upp. Með öðrum orðum, ákveðin íhaldssemi um að viðhalda því ástandi sem nú er á fjarskiptamarkaði hefur einnig áhrif á niðurstöðuna að mati fulltrúa ríkisstjórnarinnar. Vegna mikillar gagnrýni þess efnis að núverandi ástand sé skaðlegt fyrir samkeppni og eðlilega þróun á þessum markaði hefur ríkisstjórnin, eða fulltrúar hennar, kynnt bókun þingflokks Framsóknarflokksins um að til að koma í veg fyrir að fyrirtækið misnoti einokunar- eða yfirburðastöðu sína í framtíðinni verði farin sú leið að Samkeppnisstofnun og Póst- og fjarskiptastofnun verði efldar, án þess að það sé skýrt frekar. Þetta eru helstu rökin sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar hafa fært fyrir því að sú leið verði farin sem fram kemur í frumvarpinu.

Þessu er 1. minni hluti ósammála. Í fyrsta lagi er ljóst að sagan hefur kennt að vilji menn tryggja samkeppni á markaði sé vænlegra til árangurs að gera breytingar á markaðsgerðinni, þ.e. haga sölunni þannig að sú staða skapist ekki að fyrirtæki geti misnotað markaðsráðandi stöðu sína, sem er mun vænlegri leið til árangurs en að setja eftirlitskerfi sem skuli bregðast við sé þessi staða misnotuð. Þess vegna leggur 1. minni hluti til að grunnnetið verði ekki selt með öðrum hlutum fyrirtækisins. Í þessum efnum má vissulega skoða fleiri leiðir en 1. minni hluti leggur til að þessi leið verði farin.

Í öðru lagi er það skoðun 1. minni hluta að í framtíðinni muni neytendur og einkanlega landsbyggðin líða fyrir það að núverandi einokunarstaða sé seld í einu lagi með því að greiða hærra verð fyrir þjónustuna.

Í þriðja lagi hefur komið fram á fundum nefndarinnar að líklegt sé að þessi sala leiði til þess að þróunar- og rannsóknarstarf þróist ekki sem skyldi því að eignarhald fyrirtækisins á grunnnetinu muni leiða til þess að þróun og fjárfesting í því taki aðeins mið af hagsmunum fyrirtækisins.

Það er því mat 1. minni hluta að sú aðferðafræði sem meiri hlutinn ætlar að viðhafa við þessa sölu leiði ekki annað af sér en að fyrirtæki sem nú hefur ýmist yfirburða- eða einokunarstöðu færist úr höndum ríkisins yfir til einkaaðila, sem að öllu jöfnu yrði að telja jákvætt nema hvað reynslan hefur kennt að af tveimur slæmum kostum er einkaeinokun verri en ríkiseinokun. Það er því mat 1. minni hluta að þessi aðferð við söluna leiði til hægari uppbyggingar hugbúnaðar- og fjarskiptageirans hér á landi en ella hefði verið.

Núverandi eignarhald Landssímans á grunnfjarskiptakerfinu veitir fyrirtækinu verulegt forskot á keppinautana. Þetta forskot mun haldast verði fyrirtækið selt í einu lagi. Verðmætamat fyrirtækisins tekur mið af þessari yfirburða- og einokunarstöðu og þau rök eru færð fram að í henni felist stór hluti verðmætis fyrirtækisins. Vegna hennar fáist hærra verð fyrir fyrirtækið en ef því væri skipt upp. Aðrir halda því á hinn bóginn fram að þetta sé rangt og að rétt hefði verið að selja fyrirtækið í einingum. Þannig fengist hærra verð fyrir fyrirtækið í heild því að þá vissu menn nákvæmlega hvaða starfsemi þeir væru að kaupa. Má í því sambandi benda á að France Télécom í Frakklandi er nú að ganga frá sölu á Orange-fyrirtækinu sem er GSM-deild þess. Þá hefur British Telecom lýst yfir því að það muni skipta sér upp fyrir lok ársins og uppi eru hugmyndir um að skipta AT&T upp í allt að sex fyrirtæki. Reyndar skiptu samkeppnisyfirvöld því fyrirtæki upp snemma á níunda áratugnum þar sem m.a. grunnnetsþjónustan var skilin frá annarri starfsemi. Þessi umræða er einnig uppi um Tele Danmark. Það liggur því fyrir að ekkert er öruggt í þeim efnum að heildarverðmæti fyrirtækisins verði meira verði það selt í einu lagi í stað þess að skipta því upp, enda tækju forustumenn þessara stóru fyrirtækja í Evrópu og Bandaríkjunum líklega ekki slíkar ákvarðanir eða ræddu þessar hugmyndir nema þær væru fyrirtækjunum til hagsbóta.

Vegna eignarhalds Landssímans á grunnnetinu eru keppinautar hans á öðrum sviðum óhjákvæmilega einnig viðskiptavinir hans, þ.e. fyrirtækið hefur tekjur af starfsemi keppinautanna. Með því að selja fyrirtækið þannig að eignarhaldið á grunnneti verði í höndum sömu aðila verður Landssímanum í sjálfsvald sett hvernig kerfið verður byggt upp og þarf ekki að taka mið af öðru en hagsmunum fyrirtækisins í þeim efnum. Í reynd leiðir þetta til þess að fyrirtækið getur ráðið því hvar og hvenær keppinautarnir geta boðið viðskiptavinum sínum þjónustu.

[11:30]

Eignarhaldið leiðir til hættu á mismunun, að misfarið verði með trúnaðarupplýsingar og aðrar samkeppnishömlur vegna þeirrar stöðu Landssímans að vera helsti keppinautur þeirra sem bjóða þjónustu, en hinir sömu þurfa að kaupa sér aðgang að grunnnetsfjarskiptakerfi Landssímans til þess að geta selt þjónustu sína. Þetta er sérstaklega vandmeðfarið á landsbyggðinni því að þar er ólíklegt að upp rísi í einhverjum mæli samkeppni í grunnnetsþjónustu. Á höfuðborgarsvæðinu er kominn vísir að samkeppni í grunnnetsþjónustu þótt það eigi enn ekki við um heimtauga- eða notendalínukerfið og ólíklegt sé að á næstu árum fari önnur fyrirtæki að grafa heimtaugar í jörð inn á heimili manna í því skyni að fara í samkeppni við heimtaugakerfi Landssímans. A.m.k. er ljóst eins og staðan er að erfitt verður að keppa við heimtaugakerfi Landssímans um verð þar sem það hefur verið afskrifað að stórum hluta. Þá er það varla þjóðhagslega hagkvæmt að grafa skurði og leggja línur inn á heimili almennings meðan núverandi koparlínur ráða enn við kröfur markaðarins um fjarskiptaþjónustu að mestu leyti því að talið er að með öflugum endabúnaði geti koparlínurnar flutt 2 Mb/s.

Komið hefur fram að tekjur Landssímans vegna grunnnetsins hafi numið 1.467 millj. kr. á síðasta ári.

Kostir þess að skilja grunnnetið frá Landssímanum eru þessir:

Stuðlað er að virkri samkeppni í fjarskiptaþjónustu sem rekin er á grunnkerfinu.

Jafnræði keppinauta er tryggt og tortryggni eytt.

Komið er í veg fyrir hagsmunaárekstra og hvers konar millifærslur á fjármunum milli reksturs á grunnkerfum og annarrar starfsemi Landssíma Íslands.

Dregið er úr markaðsyfirráðum Landssímans.

Stuðlað er að hóflegri gjaldtöku fyrir aðgang að grunnkerfinu.

Með því að selja Landssímann í einu lagi er í reynd verið að taka ákvörðun um rekstrarumhverfi fjarskipta- og hugbúnaðariðnaðarins næstu árin. Þar mun eitt fyrirtæki verða með 75--85% markaðshlutdeild. Núverandi staða Landssímans ein og sér hefur skaðleg áhrif á samkeppni á fjarskiptamarkaðinum. Sú staða mun ekki batna við það að fyrirtækið verði selt einkaaðilum. Það er mat 1. minni hluta að skynsamlegra hefði verið að breyta markaðsgerðinni með því að aðskilja grunnnetið frá fyrirtækinu. Það er almennt viðurkennt í samkeppnisrétti að vænlegra til árangurs sé að breyta markaðsgerðinni þegar stefnt er að því að skapa samkeppnisumhverfi í tiltekinni atvinnugrein í stað þess að fara þá leið að ætla eftirlitsstofnunum að grípa inn í þegar fyrirtæki með markaðsráðandi stöðu misnotar hana. Það þarf ekki að fara langt til að sjá að fyrirtæki sem hafa haft markaðsráðandi stöðu hafa oftar en ekki misnotað aðstöðu sína og hefur það leitt til þess að markaðurinn nýtist ekki sem verðmyndunartæki og því þarf almenningur að borga mismuninn.

Samkeppnisstofnun telur nauðsynlegt að benda á að aðgerðir sem lúta að breytingu á gerð markaðarins eða uppskiptingu fyrirtækja eru þekktar í samkeppnisrétti til að eyða samkeppnishömlum og efla samkeppni og nefnir hún dæmi í því skyni. Framkvæmdastjórn ESB hefur lýst því yfir að í tilteknum tilvikum geti það verið eina leiðin til að skapa virka samkeppni að fjarskiptafyrirtækjum verði gert skylt að losa sig alfarið við kapalkerfi sín. Í Bandaríkjun um var AT&T-símafyrirtækinu skipt upp á áttunda áratugnum að kröfu samkeppnisyfirvalda og áfram má telja.

Það er mat 1. minni hluta að sú leið sem meiri hlutinn vill fara sé til þess fallin að skapa umhverfi þar sem samkeppni muni vart þrífast að ráði. Fram hefur komið að ein meginröksemd British Telecom fyrir því að skipta fyrirtækinu upp sé sú staðreynd að vegna stærðar þess þurfi það að eyða miklum tíma og fyrirhöfn í viðræður við stjórnvöld um það hvernig það megi haga sér á markaði og því sé skynsamlegra að minnka fyrirtækið og gera það þannig meira spennandi fyrir fjárfesta. Hér er á hinn bóginn ætlunin að fara þá leið að setja eftirlitsstofnanir til höfuðs fyrirtækinu í stað þess að reyna að skapa þannig markaðsgerð að eðlileg samkeppni fái þrifist.

Mjög mikilvægt er að gerð sé grein fyrir stöðu landsbyggðarinnar í tengslum við sölu Landssímans. Óbreytt fyrirkomulag á sölu eins og fyrir liggur í frumvarpinu, þ.e. sala á samkeppnishlutanum ásamt grunnnetinu, mun vafalítið verða til tjóns fyrir landsbyggðina í fjölmörgum atriðum. Komið hafa fram mjög sterkar vísbendingar um að þjónustustig grunnnetsins í óskiptu félagi muni halda áfram að verða verulega lakara úti á landi en á höfuðborgarsvæðinu. Í því sambandi er bent á burðargetu einstakra tenginga sem mælist m.a. í því að á höfuðborgarsvæðinu eru fáanlegar 100 Mb/s og allt upp í 1 Gb/s tengingar í fjarskiptakerfinu en úti á landi er einungis búið að tryggja 128 Kb/s. Í 1 Gb/s eru 1 millj. Kb/s. Kvöðin um 128 Kb/s sem fram kemur í fjarskiptalögunum er raunar ekki uppfyllt enn, en reiknað er með að svo verði innan tveggja ára.

Það er vert að vekja eftirtekt á því að þó að ætlunin sé að breyta lögum um Landssíma Íslands og selja hlutaféð þá er ekki gert ráð fyrir því að breyta fjarskiptalögum hvað þetta varðar. Því mun landsbyggðin áfram búa við það að einungis alþjónustukvöð tryggi þeim 128 Kb/s gagnaflutningsþjónustu.

Engin alþjónustukvöð er um sítengingu, ADSL. Þetta þýðir í stuttu máli að alþjónustukvöðin er innan við eitt prómill af því sem hægt er að bjóða á höfuðborgarsvæðinu.

Það er því ljóst að að óbreyttu muni frekari þróun leiða til þess að alþjónustukvöðin úreldist mjög hratt og verði marklaus að skömmum tíma liðnum ef hún er ekki uppfærð reglulega.

Því má með sanni segja að áform ríkisstjórnarinnar um sölu grunnnetsins með Landssímanum séu skýr skilaboð hennar um að alþjónustan eigi að vera annars flokks miðað við höfuðborgarsvæðið. Ríkisstjórnin ætlar landsbyggðarfólki að vera áfram í mónó meðan höfuðborgarbúar verða í steríó.

Ljóst er að enn sem komið er er framboð á gagnaflutningsgetu til einstakra notenda á landsbyggðinni takmarkað miðað við það sem er á höfuðborgarsvæðinu. Tekur þetta einkum mið af því að burðargeta í grunnnetinu milli landshluta er enn meira en tvöfalt og jafnvel þrefalt dýrari en í nágrannalöndunum, auk þess sem hún er seld á kílómetragjaldi samkvæmt línuleiðum en ekki í loftlínu eins og í nágrannalöndunum sem í mörg um tilfellum tvöfaldar enn þann mun sem er á verði grunnflutningsgetu. Landsbyggðin hefur ávallt borgað miklu hærra gjald fyrir leigulínur, eins og sjá má í töflu sem fylgir nefndaráliti okkar.

Þingflokkur Samfylkingarinnar gerir skýlausa kröfu um að þessi verðlagning verði jöfnuð fullkomlega og að Landssímanum verði gert skylt að breyta gjaldskránni til fulls jafnræðis milli fyrirtækja, án tillits til þess hvar þau eru á landinu, enda fylgi því enginn aukakostnaður.

Það er ekki dýrara að flytja gögn um leigulínur frá Reykjavík til Raufarhafnar en milli húsa í Reykjavík, svo að dæmi er tekið. Rétt er að benda á að í áðurnefndri töflu sést að fyrirtæki sem vill hafa 2 Mb/s leigulínu á Raufarhöfn þarf að greiða 262.618 kr. en sams konar fyrirtæki í Reykjavík þarf aðeins að greiða 25.664 kr. Þetta er óþolandi misvægi og því má með sanni segja að núverandi gjaldskrá fyrir leigulínur skekki samkeppnishæfni fyrirtækja milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Ein gjaldskrá fyrir talsíma og ATM-línur hjá Landssímanum sýnir fram á að þetta er hægt.

Verðskrá í nágrannalöndum okkar, t.d. í Danmörku, tekur mið af þessu og t.d. er hún þar miðuð við loftlínur og með 75 km hámarki. Slíkt er einnig gert í Noregi með 300 km hámarki. Eftirlitsstofnanir hafa ekki gert athugasemdir við þessi atriði svo að vitað sé.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks frá 28. maí 1999 segir um einkavæðingu ríkisfyrirtækja m.a. um sölu Landssímans:

,,Hafinn verði undirbúningur að sölu Landssímans. Við sölu hans verði þess gætt að tryggja góða þjónustu á sem hagstæðustu verði við byggðir landsins og einnig að tryggja virka samkeppni á fjarskiptamarkaði.``

Enn fremur segir á bls. 14 í skýrslu einkavæðingarnefndar:

,,Auk þeirrar almennu stefnumörkunar sem fram kemur í þessari yfirlýsingu hafa í tengslum við einstök verkefni á sviði einkavæðingar verið sett viðbótarmarkmið. Hafa þau ýmist komið fram í sérstakri lagasetningu, umfjöllun á Alþingi, í ákvörðunum ríkisstjórnar eða einstakra ráðherra. Jafnframt hafa verið sett fram almenn markmið með einkavæðingarstarfinu af hálfu framkvæmdanefndar um einkavæðingu.``

Fyrsti minni hluti vill vekja athygli á eftirtöldum liðum sem snerta landsbyggðina meira en aðra og segja kannski allt sem segja þarf um þá ætlun ríkisstjórnarinnar að selja grunnnetið með öðrum hlutum Landssímans.

Í 4. lið segir:

,,Að bæta stöðu ríkissjóðs. Með sölu á hlutabréfum ríkisins er unnt að greiða niður umtalsvert af skuldum ríkissjóðs og minnka þannig vaxtabyrði í framtíðinni.``

Ef grunnnetið væri skilið frá sölunni mundi verðgildi Landssímans fyrir söluna auðvitað skerðast og minni tekjur koma í ríkissjóð til ,,að greiða niður umtalsvert af skuldum ríkis sjóðs, og minnka þannig vaxtabyrði í framtíðinni,`` eins og þar segir.

Í 2. lið segir enn fremur:

,,Að draga úr pólitískum áhrifum í fyrirtækjum. Reynslan sýnir að meiri faglegar kröfur eru gerðar til stjórnenda og þeir fá meira aðhald frá eigendum eftir einkavæðingu.``

Hér er e.t.v. verið að vitna til þess þegar samgönguráðherra þurfti að skipa stjórn Landssímans á aðalfundi hans árið 2000 að taka sig saman í andlitinu og drífa í verðlækkun og útbreiðslu á gagnaflutningsþjónustu á landsbyggðinni, sem sjá má m.a. í töflunni sem fylgir nefndarálitinu og skal hér vísað til hennar.

Salan á því að vera til ,,að draga úr pólitískum áhrifum`` á stjórn fyrirtækisins.

Í 7. lið segir:

,,Að draga úr áhrifum sérhagsmunahópa. Einkavæðing dregur úr möguleikum ýmissa sérhagsmunahópa til að þrýsta á um framleiðslu eða framleiðsluhætti sem eru óhagkvæmir.``

Hér er sennilega verið að vitna til þess að t.d. alþingismenn af landsbyggðinni sem hafa mikla og víðtæka þekkingu á þörfum einstakra landshluta og byggðarlaga hafa e.t.v. beitt sér fyrir ýmsum úrbótum á þessu sviði. Einkavæðingarnefnd lítur á þessi atriði sem ,,sérhagsmuni``.

Þetta eru kaldar kveðjur frá einkavæðingarnefnd til landsbyggðarbúa og segir meira en mörg orð. Þetta skýrir sennilega best tillögur nefndarinnar um að selja grunnnetið með Landssímanum í stað þess að halda því eftir í eigu ríkisins og nota þá eignaraðild til að auka og byggja grunnnetið enn frekar upp á landsbyggðinni og gera landsbyggðinni kleift að taka þátt í þeirri byltingu sem fram undan er á þessu sviði, samanber þjónustu sem höfuðborgarbúum stendur til boða í þjónustu Línu.Nets.

Væri grunnnetið sérstakt félag gætu stjórnendur þess lagt verulega áherslu á að koma ónýttri burðargetu í verð. Sem dæmi má nefna að nú kostar meira samkvæmt gildandi gjaldskrá að flytja 17 sjónvarpsrásir, grunnpakka breiðbandsins, á ljósleiðaranum en að reisa og reka jafnmarga gervihnattadiska t.d. á Blönduósi til að veita dagskránum inn á breiðbandskapalkerfi bæjarins, sem raunar er ekki komið í gang frekar en á flestum öðrum stærri stöðum úti á landi.

Þó er enginn vafi á að þjóðhagslega væri mun hagkvæmara að flytja allar þessar dagskrár eftir fyrirliggjandi leið sem enn er að miklu leyti vannýtt.

Þá er líklegt að stjórnendur grunnnetsins mundu leggja áherslu á að halda áfram uppbyggingu breiðbandsins út um landið þar sem nú þegar liggja verulegar ónotaðar fjárfestingar í jarðstrengjum sem ætlaðir eru fyrir breiðbandið en hafa ekki verið teknir í notkun enn.

Aðskilnaður grunnnetsins frá Landssímanum gæti mjög líklega leitt til aukins þjónustuúrvals og lækkaðs kostnaðar fyrir notendur fjarskiptaþjónustu á landsbyggðinni án frekari afskipta eða fyrirmæla í þá átt af hálfu ríkisvaldsins.

Þá hefur einnig verið á það bent að landsbyggðin hefur í gegnum tíðina greitt gríðarlega fjármuni til Landssímans í formi hárra langlínugjalda. Þetta er viðurkennt í skýrslu einkavæðingarnefndar þar sem segir á bls. 50:

,,Af ýmsum ástæðum hafa föst gjöld fyrir talsímaþjónustu ekki fylgt verðlagsþróun síðustu áratuga en það hefur verið látið viðgangast vegna mikils hagnaðar af langlínu- og útlandagjöldum.``

Þess vegna telja íbúar landsbyggðarinnar eðlilegt að þeir fá að njóta þess að hafa tekið fullan þátt og e.t.v. meiri en aðrir í að byggja kerfið upp og vilja fá að njóta þess í framtíðinni í verðskrám.

Í þingsályktun um stefnu í byggðamálum fyrir árin 1999--2001 sem samþykkt var á Alþingi 3. mars 1999 segir:

,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að vinna að framkvæmd stefnumótandi áætlunar um byggðamál fyrir árin 1999--2001 sem hafi að markmiði að treysta búsetu á landsbyggðinni. Stefnt verði að því að fólksfjölgun þar verði ekki undir landsmeðaltali og nemi 10% til ársins 2010.``

Þetta er göfugt markmið, en því miður er ekki starfað eftir því. Heildarsala Landssímans, þ.e. með grunnnetinu, verður ekki til að auka líkur á að því verði náð. Hætta er á að landsbyggðin sitji eftir hvað varðar framþróun á sviði fjarskipta og annarra verkefna á þessu sviði, m.a. hvað varðar flutning og möguleika á sjónvarpsefni.

[11:45]

Virðulegi forseti. Ég hef gert grein fyrir nál. 1. minni hluta samgn. þar sem við höfum rökstutt af hvaða sökum við teljum ekki vænlegt að fara þá leið sem meiri hlutinn ætlar að fara, þ.e. að selja fyrirtækið í einu lagi. Auk þess að tala hér fyrir nál. tala ég líka fyrir brtt. þar sem við leggjum til að grunnnet Landssímans verði skilið frá. Við skilgreinum grunnnetið eins og kemur fram í nál., þ.e. að grunnnetið sé:

Allar jarðsímalagnir, niðurgrafin tengibox og götuskápar.

Allir sæsímastrengir, merkistaurar og tengibúnaður þeirra.

Alþjóðlegir sæsímastrengir, t.d. hlutur Landssímans í Cantat-3 sæstrengnum.

Allar jarðstöðvar (gervihnattasambönd) og stoðbyggingar þeirra.

Örbylgjusendar og -móttakarar og staura- og mastravirki, auk stoðbygginga.

Tengigrindur jarðsímalagna þar sem þær eru í símstöðvarbyggingum.

Ljósleiðarafjölsímar og stoðkerfi þeirra (SDH- og PDH-flutningsstýringar).

Einnig er eðlilegt að rekstrinum fylgi fasteignir sem símstöðvar, tengigrindur og ljósleiðarafjölsímar eru í. Þetta tryggði aðkomu allra fjarskiptafyrirtækja að aðstöðu í þeim. Þá er einnig reiknað með því að einátta flutningur í lofti og kapli, t.d. dreifing útvarps- og sjónvarpsefnis gæti fallið að rekstri grunnnets og væri heimilt að reka slíka flutningsmiðla.

Einnig leggjum við til að hlutafé ríkisins í öðru en grunnnetinu verði selt.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir í grundvallaratriðum það sem skilur okkur frá stefnu ríkisstjórnarinnar. Við erum þeirrar skoðunar að skynsamlegt sé að selja samkeppnissvið Landssímans en við erum hins vegar þeirrar skoðunar að með því að selja grunnnetið einnig sé verið að breyta ríkiseinokun, sem hefur ríkt um langt skeið, í einkaeinokun og það muni aðeins neytendur þessa lands þurfa að greiða.

Það er hvergi til og hvergi dæmi þess að einokun hafi leitt til mikilla framfara. Einokun hefur alltaf verið greidd af neytendum. Einokun á þessu sviði verður einnig greidd af neytendum. Það liggur fyrir. Það er ekki í aðra vasa að fara.

Ég tel að í þessari stóru einkavæðingu sem nú er á ferðinni og ég hef hér gert grein fyrir afstöðu minni til, hefði verið gullið tækifæri að breyta markaðskerfinu á þann hátt að við hefðum getað fengið þannig umgjörð um fjarskiptin og hugbúnaðariðnaðinn sem mundi skila þjóðfélaginu gríðarlega miklu, miklu meira en að skilja umhverfið eftir þannig að í stað fyrirtækis sem hefur vaxið hér í tæp 100 ár og hefur yfirburðastöðu og hefur gert margt mjög gott og gert m.a. það að verkum að við erum í þeirri stöðu sem við erum í í dag, í stað þess að skipta þessu fyrirtæki upp og nýta sér þá möguleika sem markaðurinn býður upp á er farin sú leið að breyta ríkiseinokun í einkaeinokun. Ég held að hér séum við að missa af gullnu tækifæri til að breyta þessu. Framkvæmdastjórar, yfirmenn og eigendur stóru fyrirtækjanna eins og British Telecom, sem var selt í einu lagi í upphafi hafa nú tekið ákvörðun um að skipta því upp. Af hverju? Af því að það er álitið verðmætara í hlutum. Einnig hafa menn nefnt það að erfitt sé að vera svona mikill risi á þessum markaði, það er vont að vera í allt of stórum skóm því að um leið og þessi fyrirtæki fara að snúa sér þá sparka þau í önnur fyrirtæki og valda þeim verulegu tjóni sem þýðir þá aftur á móti að yfirvöld þurfa að fylgja því eftir og vernda þá sem minni eru. Það hefur sýnt sig að þetta er vont umhverfi. Þess vegna hafa yfirmenn og eigendur BT ákveðið að skipta fyrirtækinu upp.

Þessi sama umræða er uppi hjá Tele Danmark og þessi sama umræða er uppi hjá AT&T, þ.e. reynslan hefur kennt mönnum það að sú leið, að selja fyrirtækin í einu lagi, nýtist hvorki markaðnum, fyrirtækinu né samkeppninni sem menn eru að reyna að búa til. En það breytir engu, ríkisstjórnin hér ætlar að fara þessa leið. Og það er í mínum huga sorglegt að menn skuli ekki reyna við þessar aðstæður að nota tækifærið og skapa umhverfi sem getur gert það að verkum að Ísland verði í forustu á þessu sviði í heiminum.

En því miður, virðulegi forseti, þrátt fyrir ítarleg rök og þrátt fyrir að nánast langflestir sem komu á fund samgn. töldu eðlilegt að skipta fyrirtækinu upp þá ákveður ríkisstjórnin að gera það ekki. Þrátt fyrir að menn tækju það fram að menn bæru virðingu fyrir þeim sem væru að reyna að sinna fjarskiptaþjónustu á landsbyggðinni við þessar aðstæður, menn bæru virðingu fyrir því, þá sögðu menn einnig: En það er ólíklegt að menn hafi þrek og þor og getu að stunda slíkt hugsjónastarf árum saman áfram. Þess vegna hefði verið grundvallaratriði núna að selja grunnnetið frá, selja vegakerfið brott, bjóða mönnum að nýta það öllum á jafnræðisgrunni en ekki afhenda það einu fyrirtæki. Ríkisstjórnin hefur ákveðið að gera það ekki og því segi ég, virðulegi forseti, og get vart annað, ég harma að ekki skuli vera hlustað á þau rök sem mjög margir hafa fært fram gegn þeirri leið sem hér á að fara.