Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 11:54:30 (7969)

2001-05-17 11:54:30# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. 1. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[11:54]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér er bæði ljúft og skylt að svara þeirri spurningu sem hér er borin upp og kannski kemur svarið fram í brtt., þ.e. við leggjum til að fyrirtækinu verði skipt upp. Við leggjum til að eignarhlutar í öllu öðru en grunnnetinu verði seldir og við leggjum til að ríkið haldið þessu eftir.

Það breytir ekki hinu að skoðun mín er sú að það yrði væntanlega í framtíðinni einnig selt. En það sem við leggjum til núna er samkvæmt brtt. það að fyrirtækinu verði skipt upp, að samkeppnissvið þess --- og þar á ég við símaþjónustuna, GSM-deildina, hlutabréfasjóðinn og allt annað en grunnnetið verði selt en fyrst í stað verði grunnnetið í eigu ríkisins, þó að það sé mín skoðun og hefur verið mín skoðun að eftir afnám einkaleyfanna, eftir að ríkið afnam einkaleyfi ríkisfyrirtækjanna stóru í fjarskiptum þá sé einboðið að ríkið muni draga sig út af þeim markaði.