Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 11:58:43 (7972)

2001-05-17 11:58:43# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[11:58]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hélt sig við það að reyna að skrumskæla afstöðu framsóknarmanna í þessu máli. Ég vil aðeins gera grein fyrir því hvers vegna framsóknarmenn hafa verið þeirrar skoðunar að ekki eigi að skilja grunnnetið frá við söluna, en eftir að hafa farið yfir málið út frá tæknilegum og hagrænum forsendum þá liggur sú niðurstaða fyrir að menn telja að ekki eigi að skilja grunnnetið frá.

Það eykur kostnað fyrir notendur, einkum á landsbyggðinni, til lengri tíma litið ef þessi leið kratanna verður farin. Drifkraftur aukinnar samkeppni og auknar kröfur um aðgang samkeppnisaðila að fjarskiptanetunum mun drífa áfram uppbyggingu og tækniþróun fjarskiptakerfisins og vísum við þar til m.a. tilskipana ESB sem ég hélt að kratarnir væru nú tilbúnir að taka undir.

Ég vil taka fram að við höfum ekki haldið því fram að ekki sé hægt að skilja grunnnetið frá. Við teljum það bæði óhagkvæmt fyrir notendur og óskynsamlegt, sérstaklega út frá hagsmunum landsins alls til lengri tíma litið og ekki síður landsbyggðarinnar. Og ég hef tekið eftir því að eftir faglega umfjöllun um þetta mál eru sífellt fleiri úr röðum Samfylkingarinnar aðeins að linast í afstöðunni sem fram kemur í máli hv. þm.