Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 12:01:21 (7974)

2001-05-17 12:01:21# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, MS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[12:01]

Magnús Stefánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að harma að hv. þm. er ekki fær um að taka þátt í málefnalegum umræðum og afgreiði það sem útúrsnúninga þegar hv. þingmenn eru að ræða við hann um þessi mál á faglegum nótum.

Hann talar um mikið um einokun. Við höfum bent á það og það liggur fyrir að búið er að afnema einokum í þessum bransa. Það var gert með lögum árið 1998, 1. janúar.

Það er kannski rétt að spyrja hv. þm. Hann talar um að Landssíminn einoki fjarskiptakerfið. Hvernig ástand mun verða ef hv. þm. fengi ráðið og grunnnetið yrði selt, skilið frá við þessa sölu, stofnað um það hlutafélag og það síðan selt á markaði? Er þar ekki frekar um einokun að ræða? Hvernig vill hv. þm. skilgreina það ástand sem þá kæmi upp?