Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 12:02:16 (7975)

2001-05-17 12:02:16# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. 1. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[12:02]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að rétt sé að fjalla aðeins um þessa einokun. Á mörgum sviðum er engin samkeppni við Landssímann. Landssíminn hefur í fyrsta lagi 85% hlutdeild. Það er ekki einu sinni kallað yfirburðarstaða, það er allt að því einokunarstaða. Á mörgum sviðum hefur hann einokun. Í þjóðvegakerfinu, sem við erum að tala hér um að greina frá, er alger forsenda þess að þessi staða --- þ.e. að menn eru að selja þjónustu á öllum þremur stigum. Þeir geta því markað og stjórnað uppbyggingu kerfisins í eigin þágu en ekki annarra og munu þess vegna óbeint geta stjórnað nánast hver þróun fjarskipta- og hugbúnaðariðnaðarins verður á næstu árum. Það er þetta sem skiptir öllu máli. Hér eru menn því að tala um að færa þá yfirburða- og einokunarstöðu sem Landssíminn hefur verið í til einkaaðila. Það er nákvæmlega gegn þessu, virðulegi forseti, sem við erum að leggjast. Það er kjarni málsins. Það er hins vegar skiljanlegt að stjórnarmaður í Landssímanum skuli hafa þá afstöðu sem hér hefur komið fram.