Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 12:03:45 (7976)

2001-05-17 12:03:45# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[12:03]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson klifar nokkuð á orðinu einokun og er ég farinn að trúa því að hann sé sannfærður um að hér ríki einokunarástand á sviði fjarskipta. Ég vil því spyrja hv. þm. hvort hann hafni þar með umsögn og mati yfirmanns Póst- og fjarskiptastofnunar um að hér sé aðgangur að netinu eins og best þekkist í Evrópu. Hafnar hv. þm. því mati?

Í annan stað spyr ég hvort hv. þm. hafni líka umsögn eins færasta sérfræðings á sviði fjarskipta, Þórðar Runólfssonar prófessors, sem varar við því af tæknilegum ástæðum að skilja netið frá.

Í þriðja lagi spyr ég hv. þm. í ljósi þess sem hann sagði hér um að eina breytingin væri ráðning tveggja eða þriggja starfsmanna, hvort hann hafni þá samstarfi með samgn. við samgrn. um að finna lausnir fyrir árslok 2001 til að tryggja jafnt aðgengi fyrirtækja í landinu. Er hv. þm. þar með að hafna slíkri vinnu?