Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 12:05:09 (7977)

2001-05-17 12:05:09# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. 1. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[12:05]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það kom mjög skýrt fram í framsöguræðu minni að þrátt fyrir að aðgangur sé tryggður í lögum, eru mýmörg dæmi þess að fyrirtæki sem hafa þá stöðu að ráða alfarið ferðinni geta beitt tæknilegum viðskiptahindrunum til þess að koma í veg fyrir aðgang annarra. Ég er ekki að gera athugasemdir við lögin. Ég er hins vegar að segja, og taka undir það sem flestir sem til þekkja á þessu sviði eru að segja, að eftirlit og lagarammi tryggi ekki að það verði raunveruleg samkeppni.

Í öðru lagi spurði hv. þm. hvort ég hafnaði mati tiltekins sérfræðings sem þarna kom fram. Ég tel einfaldlega, á þeim forsendum sem ég fór yfir áðan, að samkeppnin verði ekki tryggð nema þetta verði gert. Ég hef hins vegar viðurkennt að af því kann að hljótast einhver kostnaður, en til lengri tíma muni það verða neytendum í hag.

Í þriðja lagi spurði hv. þm. um tvo til ... (Forseti hringir.) Ég fæ kannski að koma því svari að á eftir.