Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 12:06:27 (7978)

2001-05-17 12:06:27# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[12:06]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Þriðja spurning mín laut að því hvort hv. þm. eða Samfylkingin hafnaði samstarfi innan samgn. við samgrn. um að útfæra jöfnunarleiðir. Ég tel hins vegar að hv. þm. hafi ekki svarað því skýrt hvort hann blési á og hafnaði mati yfirmanns Póst- og fjarskiptastofnunar þar sem hann fullyrðir ítrekað að það sé jafn aðgangur og eins og best þekkist í Evrópu.

Í tengslum við það má spyrja hvort hv. þm. telji að upp hafi komið vandamál í Evrópu þar sem grunnnetið var alls staðar selt með, hvort nýsprotafyrirtæki á sviði fjarskipta hafi ekki orðið til í Evrópu eftir söluna þar. Ég vil fá skýr svör við þessu hjá hv. þm., annars vegar um þetta samstarf sem ég nefndi áðan og hins vegar um afstöðu yfirmanns Póst- og fjarskiptastofnunar sem m.a. benti á að ekki ein kæra hefði borist þeirri eftirlitsstofnun. Hugsanlega hefur því markaðurinn (Forseti hringir.) ekki lagað sig að nýjum fjarskiptalögum enn þá.

(Forseti (GÁS): Forseti vekur athygli á því að þegar rauða ljósið skín er tímanum lokið.)