Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 12:07:51 (7979)

2001-05-17 12:07:51# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. 1. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[12:07]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef aðeins eina mínútu til svara og mun því reyna að svara eins og kostur er.

Fyrst um Evrópu. Í Danmörku eru a.m.k. 60 fyrirtæki sem eru að keppa á þessu sviði. Hér eru það tvö, þrjú eða fjögur sem hægt er að tala um að séu í raunverulegri samkeppni. Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir að þau séu 60, tala forustumenn Tele Danmark um það að þeir séu of stórir, það sé mjög erfitt að vera svona stór á þessum markaði, það sé erfitt að vera sífellt með eftirlitsaðila á hælunum og það sé mjög erfitt að stunda starfsemina og tryggja hagsmuni fyrirtækisins í þessu umhverfi, hvað þá þar sem eru tvö eða þrjú fyrirtæki.

Í öðru lagi flutti ég langa ræðu um að betra væri að breyta markaðsgerðinni en að setja eftirlitsaðila til þess að tryggja samkeppnina. Ég er ekki að hafna því, eins og yfirmaður Póst- og fjarskiptastofnunar hefur væntanlega haldið fram, að hér sé besta umgjörðin. Hún tryggir bara ekki, þ.e. sú aðferðafræði að nota eftirlitsaðila í stað þess að breyta markaðsgerðinni (Forseti hringir.) nær ekki því markmiði sem að er stefnt.