Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 12:11:52 (7981)

2001-05-17 12:11:52# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. 1. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[12:11]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tvennt sem ég vil svara í þessu andsvari.

Í fyrsta lagi er það rétt hjá hæstv. ráðherra að grunnnetið hefur hvergi verið skilið frá. Hins vegar hefur reynslan kennt mönnum að nú er smám saman verið að fara aðra leið í stórum fyrirtækjum. Ég hlýt að spyrja: Af hverju horfum við ekki á það sem er að gerast núna en ekki það sem var gert fyrir tíu árum hugsanlega þegar fyrirtækið var selt? Menn hljóta að spyrja þeirrar spurningar.

Virðulegi forseti. Í öðru lagi er á þskj. 1314, 707. máli, breytingartillaga við frv. til laga um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf. Þar segir einfaldlega að annað en grunnnetið skuli selt frá. Standi það í nefndarálitinu sem hæstv. ráðherra vitnar til og ég dreg ekki í efa þá er þar einfaldlega um það að ræða að það hefur ekki verið lagfært nægilega vel í lokin.

Afstaða okkar er skýr. Allt annað en grunnnetið skal selja. Grunnnetið verður áfram í ríkiseigu. Hafi orðið mistök í prentun á nefndarálitinu þá er í sjálfu sér bara minnsta mál í heimi, virðulegi forseti, að viðurkenna að svo hafi verið. Hins vegar er afstaða okkar skýr.

Ég sé að hæstv. ráðherra ætlar að koma í andsvar við mig. (Forseti hringir.) Þess vegna tel ég ástæðu til þess að geyma í ræðupúltinu breytingartillöguna svo hæstv. ráðherra geti lesið hana.