Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 12:11:57 (7982)

2001-05-17 12:11:57# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[12:11]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Af orðum hv. þm. má draga þá ályktun að ágreiningur sé innan Samfylkingarinnar. Í nefndarálitinu stendur:

,,Það er mat 1. minni hluta að skynsamlegra hefði verið að breyta markaðsgerðinni með því að selja grunnnetið frá fyrirtækinu.``

Það stendur hér, og það getur ekki verið um nein mistök í prentun að ræða, að áður en kemur til þess að selja Símann í heild sinni eigi að selja grunnnetið frá. (Gripið fram í.) Það er mjög athyglisvert ef ágreiningur er um þetta hjá Samfylkingunni.

Aðalatriði málsins er hins vegar það að enginn hefur valið þennan kost. Ef selja ætti grunnnetið sérstaklega gætum við staðið frammi fyrir því að önnur símafyrirtæki keyptu grunnnetið. Ætti þá að gera það sem skilyrði að símafyrirtækin mættu ekki kaupa grunnnetið ef það væri til sölu?