Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 12:13:13 (7983)

2001-05-17 12:13:13# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. 1. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[12:13]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er aldeilis að menn hafa fundið flöt á þessari umræðu. Hæstv. ráðherra kemur keikur í stólinn og heldur því fram að ágreiningur sé í Samfylkingunni um allt og ekki neitt. Og rökin sem hann finnur eru hér á bls. 4 þar sem stendur ,,að selja``. En það hefur greinilega orðið prentvilla þarna. Þetta á að vera ,,aðskilja``. Þetta á að vera í einu orði. Við munum láta prenta þetta upp. Þarna hefur mönnum skjöplast á tveimur stöðum í álitinu. Þetta er nú aldeilis orðinn pólitískur og hugmyndafræðilegur flötur á sölu Símans og það er aldeilis kominn upp ágreiningur innan Samfylkingarinnar við það að mistök urðu í prentun, að mönnum hafi skjöplast á tveimur stöðum í nefndarálitinu.

Virðulegi forseti. En ég ítreka enn og aftur afstöðu okkar til þessa máls. Það hefur verið farið mjög ítarlega yfir hana. Hún er skýr. Hér liggur fyrir breytingartillaga. Hér liggur fyrir mjög nákvæm skilgreining á því hvað við teljum vera grunnnetið, hvað skuli skilja frá. Breytingartillagan er mjög skýr. Ég hvet hæstv. ráðherra til að einbeita sér að því sem málið snýst um en ekki vera að snúa út úr prentvillum í nefndarálitinu. (Samgrh.: Ég les bara það sem þið skrifið.)