Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 14:05:07 (7986)

2001-05-17 14:05:07# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, HjÁ
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[14:05]

Hjálmar Árnason:

Herra forseti. Síðustu missirin hefur farið fram hér í sölum hv. Alþingis sem og í fjölmiðlum og í þjóðfélaginu öllu mikil umræða um fjarskipti. Það er í sjálfu sér mjög eðlilegt, en segja má að tilefni þeirrar líflegu umræðu sé af tvennum toga. Annars vegar er það spurningin um hvort selja eigi það mikla og ágæta fyrirtæki sem hefur þjónað landsmönnum jafnlengi og raun ber vitni og þá hvernig skuli selja það, en ekki síður hefur tilefni umræðunnar verið sú staðreynd að tæknileg þróun í fjarskiptum hefur verði alveg einstaklega ör á síðustu árum. Það hefur m.a. leitt til þess að nýir aðilar með nýja tækni hafa verið að hasla sér völl og sprotafyrirtæki hafa litið dagsins ljós með þeirri umræðu sem slíku fylgir ávallt. Þetta hefur sem sagt verið mjög lífleg umræða og oftast nær afskaplega málefnaleg og skemmtileg.

Í tengslum við þau frv. sem hér eru til umræðu, einkum þó frv. um heimild til að selja hlutabréf Landssímans, má segja að umræðan snúist í rauninni um tvennt. Í þeirri miklu vinnu sem fram fór í hv. samgn. þá held ég segja megi að umræðan hafi snúist um tvennt. Annars vegar um það hvort selja eigi fyrirtækið og þá hvernig, en megnið af umræðunni, ekki síst hjá gestum okkar, hefur snúist um núverandi ástand, þ.e. ástandið á fjarskiptamarkaðnum eins og það er núna, þegar ýmsir aðilar hafa verið að hasla sér völl á þessu sviði. Þá er rétt að velta því aðeins upp hvernig þetta núverandi ástand er sem tók verulegan tíma í frásögnum ágætra gesta til hv. samgn. eins og fram hefur komið í umræðu um þetta mál hér í morgun.

Ástandinu er e.t.v best lýst með því sem ég nefndi áðan, að þróunin er afskaplega ör tæknilega og hefur skapað framsæknum einstaklingum góða möguleika til þess að notfæra sér breytta og að mörgu leyti aðgengilegri tækni til þess að skapa sér atvinnutækifæri og sækja fram í nýju umhverfi.

Núverandi ástand mótast að sjálfsögðu einnig af því að hér hefur verið áratugum saman eitt stórt og mikið fyrirtæki, einn allsherjarrisi sem hefur drottnað í skjóli ríkisvalds og veitt landsmönnum alveg ágæta þjónustu á þessu sviði. Segja má að umræðan innan nefndarinnar og að nokkru leyti í þessum stól taki svolítið mið af núverandi ástandi og hvernig nýjum fyrirtækjum gengur að hasla sér völl í grjótharðri samkeppni við það stóra fyrirtæki Landssímann.

Í þessu sambandi er líka rétt að draga það fram að Landssímanum hefur verið gert, og ekki vitað annað en að það hafi gengið eftir, að aðgreina bókhaldslega einstaka þætti í rekstri sínum.

Umræðan snýst í þessu sambandi langsamlega mest um það hvernig nýjum fyrirtækjum vegnar í samkeppni við þann risa sem hefur haft mikið forskot og þá ekki síst hvaða möguleika þau eiga til að keppa við hann og þá einkum hver aðgangur þeirra er að hinu stóra og mikla dreifikerfi Landssímans. En þá verður líka að hafa það í huga, herra forseti, að við erum ekki að tala um eitt dreifikerfi eða eitt net í eigu Landssímans. Einmitt vegna þess að tækninni hefur fleygt fram og fyrirtækjum fjölgað má segja að dreifikerfið og dreifingin á fjarskiptagögnum sé orðin samkeppnissvið í dag. Ætli það séu ekki rúmlega tíu fyrirtæki í landinu, sennilega nær 20, sem eru að reyna að hasla sér völl á dreifingarsviðinu með því að byggja sér upp dreifikerfi í höfuðborginni, á ýmsum öðrum þéttbýlisstöðum og líka á hálendinu, m.a. Landsvirkjun, en verið er að nýta raflagnir Landsvirkjunar. Dreifikerfið sjálft er því í raun orðið samkeppnissvið eins og aðrir þættir.

Herra forseti. Það er rétt að draga þetta fram m.a. vegna þess að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson lýsti þeirri afdráttarlausu skoðun að Landssíminn ætti að selja þá þætti sína sem væru í samkeppni. Og það er alveg ljóst að samkeppnin er að eiga sér stað á dreifisviðinu alveg eins og öðrum. Líklega er NMT-kerfið hið eina þar sem engin samkeppni er. Á öðrum sviðum, svo sem eins og GSM, í dreifingu og öðrum þáttum, er alveg bullandi og grjóthörð samkeppni.

Þá er líka vert að hafa í huga til að lýsa núverandi ástandi að fjarskiptalögin sem samþykkt voru á hv. Alþingi eru afskaplega merkileg lög vegna þess að þar er kveðið svo afdráttarlaust á um valdsvið stjórnvalda til þess að grípa inn í. Þar er kveðið svo afdráttarlaust á um það hvernig ráðandi aðili verður að aðgreina hina aðskiljanlegustu þætti í rekstri sínum. Þar er kveðið á um aðgang inn á dreifikerfið og þannig má áfram telja. Með öðrum orðum vil ég segja að ekki síst á grundvelli fjarskiptalaga, sem ég ítreka að ég tel vera afskaplega merkileg og í rauninni grundvöll að þeim tólum sem stjórnvöld þurfa að hafa á fjarskiptamarkaðnum, eru úrræðin afskaplega góð. En af því að lögin eru annars vegar tiltölulega ný og hins vegar að mörg ný fyrirtæki hafa verið að hasla sér völl þá má kannski segja að markaðurinn hafi ekki lagað sig að þessum lögum og hafi e.t.v. ekki áttað sig á hvaða möguleika einstök fyrirtæki hafa á grundvelli gildandi laga. Þá á ég einkum við fjarskiptalög, en að sjálfsögðu koma til önnur lög þar um, svo sem lög um Póst- og fjarskiptastofnun, lög um Samkeppnisstofnun o.s.frv. En, herra forseti, ég tel að úrræðin séu til staðar þó að þau hafi ekki verið nýtt.

Þessi umræða um núverandi ástand var hryggjarstykkið í umræðunni sem fór fram innan hv. samgn. og þeirri umræðu sem fer fram í sölum hv. Alþingis um söluna á Landssímanum og um fjarskipti á Íslandi. Fyrst og fremst er verið að lýsa ástandi eins og það er og má segja að að mörgu leyti hafi það lítið með sjálfa söluna að gera. Menn eru hér að draga fram áhyggjur sínar við núverandi aðstæður. Ég tel að hvað sem mönnum finnst um prinsippið með að selja Landssímann eða selja hann ekki þá sé það þó alla vega jákvætt við umræðuna að þessi álitamál hafa verið dregin fram og ég tel að í kjölfar þessarar umræðu hafi verið gripið til mjög jákvæðra úrræða. Ekki síst vil ég í því sambandi vitna til niðurstöðu þeirrar sem fram kemur í nefndaráliti hv. samgn. þar sem markvisst, og ég tel mjög faglega, er verið að bregðast við þeim áhyggjum sem menn hafa af ástandinu í dag hjá ríkisfyrirtækinu Landssímanum hf.

[14:15]

Nú spyrja menn, það er grundvallaratriði sem ég varpaði sjálfur fram fyrir hálfu ári eða einu ári, ég man það ekki nákvæmlega, hvort hér ríki eða verði Microsoft-ástand á fjarskiptasviðinu. Með skírskotun til þess að hér er einn stór og mikill risi sem hefur mjög gott forskot á þessum nýja samkeppnismarkaði þá þurfa menn að skoða hvernig samkeppnisumhverfið sem stjórnvöld ætla sér að byggja upp verður. Það er í raun hinn þátturinn sem umræðan hefur snúist um og vinna hv. samgn. snerist um. Ég veit að einstakir hv. nefndarmenn samgn. hafa lagt mikla vinnu í að afla sér fanga utan funda, með viðræðum við aðila á samkeppnismarkaði og alls kyns sérfræðinga, til að fá faglega umfjöllun um hvort ástæða sé til að óttast að hér sé eða hafi skapast svokallað Microsoft-ástand, þ.e. að einn aðili geti drepið aðra í dróma og setið einn að markaðnum. Það er grundvallarspurning sem þarf að svara.

Ég tel, eftir þá miklu vinnu sem farið hefur fram, að hægt sé að svara því skilyrðislaust að umhverfið, samkeppnisumhverfið, sé þannig á grundvelli laga og tilskipana, m.a. frá EES, að ekki sé ástæða til að óttast þessi atriði. Í því sambandi nefni ég sérstaklega fjarskiptalögin, sem mér finnst því miður ekki nægjanlega vel dregin inn í þessa umræðu til að svara eðlilegum ótta manna við óeðlilegt samkeppnisumhverfi, en ég vísa enn og aftur til þeirra.

Í öðru lagi vil ég nefna lagaákvæði í fjarskiptalögunum um skyldur til að leggja ISDN-tengingu til 98% þjóðarinnar fyrir árslok 2002, ef ég man rétt. Ég vil í þessu sambandi einnig nefna samning sem hæstv. samgrh. gerði við fyrirtækið Landssímann, um að fjölga ATM-stöðvum um 27, ef ég man rétt, þannig að þær nái á næstu fimm árum til allra staða á landinu með 150 íbúa og fleiri.

Mikilvægt er, herra forseti, að minna á þessi atriði vegna þess að flutningsmöguleikar á grundvelli ATM-kerfisins svara þeirri þörf sem til staðar er hjá langsamlega flestum einstaklingum og fyrirtækjum á fjarskiptamarkaði í dag. Það má líklega telja þá á fingrum annarrar handar sem hafa raunverulega tæknilega þörf fyrir svokallaðar leigulínur. Að því leyti má segja að áherslan á leigulínur, miðað við þá þörf sem er til staðar, sé kannski óeðlilega mikil í umræðunni, þ.e. miðað við tæknilega þörf einstakra fyrirtækja. Þá er ég ekki eingöngu að tala um smáfyrirtæki heldur líka fyrirtæki í hugbúnaðargeiranum, fyrirtæki sem eru í tölvugeiranum. Ég er að tala um stærri fyrirtæki og banka, sem notfæra sér einmitt þessa ATM-þjónustu. Ég tel mikilvægt að það komi skýrt fram, herra forseti, að hæstv. samgrh. hefur þegar gert samning við Landssímann um að tryggja að fyrir árið 2005 verði slíkar ATM-stöðvar a.m.k. komnar til allra svæða á landinu sem hafa 150 íbúa og fleiri. Slíkt kerfi á að geta svarað þeirri þörf sem til staðar er.

Ég vil líka nefna það í þessu sambandi, herra forseti, að ný fyrirtæki sem hasla sér völl á þessu sviði hafa á síðustu missirum lagað sig að lagaumhverfinu í kjölfar lagasetningar um fjarskipti. Nægir í því sambandi að vitna til deilna milli fyrirtækisins Tals hf. og Landssímans á árdögum hins unga fyrirtækis, sem ég held að sé þriggja ára gamalt og nokkurra daga betur. Þar voru afskaplega erfið samskipti til að byrja með en í kjölfar lagasetningar um fjarskipti hafa samskiptin verið mjög eðlileg í alla staði. Það hefur forstjóri Tals staðfest. Viðskiptavinir þess fyrirtækis geta nýtt sér dreifikerfi Landssímans á grundvelli reikisamninga milli Landssímans og Tals. Sama gildir um Íslandssíma og önnur fyrirtæki. Ég nefni þetta, herra forseti, til að sýna hvernig markaðurinn hefur lagað sig að nýju fjarskiptaumhverfi. Viðskipti virðast þar ganga eðlilega fyrir sig, eftir því sem talsmenn þessara fyrirtækja segja.

Þá er að nefna eitt til viðbótar, herra forseti. Á hv. Alþingi er til afgreiðslu till. til þál. sem byggir á reglugerð frá EES. Þar er kveðið mjög skýrt á um að fyrirtæki á þessum markaði hafi skilyrðislausan aðgang að heimtaugum. Ég ítreka það, herra forseti: skilyrðislausan aðgang að heimtaugum. Þetta er sama leið og Evrópusambandið er að fara, byggð á reglugerð sem er unnin í Brussel fyrir Evrópusambandið og á grundvelli tvíhliða samnings við Evrópusambandið þá innleiðum við þessi sömu skilyrði. Þau skilyrði hafa ekki skapað vandræði í Evrópusambandsríkjunum. Það hefur ítrekað komið fram að skilyrðin þar hafa ekki skapað vandræði fyrir nýsprotafyrirtæki á þessu sviði, þróunin hefur verið mjög fjörleg og blómleg í allri Evrópu.

Í því samhengi er rétt að benda á það sem m.a. forstöðumaður Póst- og fjarskiptastofnunar segir, að með lagaumhverfinu að viðbættri EES-reglugerðinni er aðgangur að netinu hér eins og best þekkist í Evrópu. Ég tel að það skipti afskaplega miklu máli og mér finnst sumir hv. þm. sem hér hafa talað í morgun gera lítið úr þeim þætti. Þar er sá hlutlausi óháði aðili sem hefur þetta eftirlit með höndum, sem fylgist með því sem gerist á þessu sérsviði erlendis. Hann metur það svo að lagalegt umhverfi okkar og starfsumhverfi sé eins og best þekkist í Evrópu.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson nefndi það í ræðu sinni í morgun að hann og Samfylkingin teldu að hér ætti að setja leikreglur þannig að samkeppnisaðstæður væru eðlilegar, gagnsæjar og heilbrigðar. Undir það sjónarmið get ég mjög vel tekið. Hann gaf hins vegar í skyn að þá væri í raun engin þörf á eftirliti. Þar er ég mjög ósammála hv. þm. Ég tel einmitt að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafi verið og sé enn mikill stuðningsmaður þess að hér sé virkt eftirlit. Það er mikilvægasta trygging neytenda í samkeppnisumhverfi að til séu eftirlitsstofnanir sem hafi þá þau tæki og úrræði að geta gripið inn í. Á þeim forsendum voru m.a. samykktar hér á Alþingi breytingar á lögum um Samkeppnisstofnun, einmitt til að færa þeirri stofnun aukin völd og verkfæri til að grípa inn í ef fyrirtæki gera sig sek um að misnota þá samkeppnis- og markaðsstöðu sem þau hafa komið sér upp.

Mér finnst að mörgu leyti órökrétt, herra forseti, að segja öðrum þræði að Samkeppnisstofnun sé mikilvæg fyrir hinn frjálsa markað, en ætla sér síðan að undanskilja t.d. fjarskiptasviðið. Þar greinir okkur væntanlega á, mig og hv. þm. Samkeppnisstofnun hlýtur að eiga að fylgjast með öllum hinum frjálsa markaði, hvort sem það er matvörumarkaður, olíumarkaður, fjarskiptamarkaður eða annar markaður.

Rétt er að skoða aðeins hvað þær eftirlitsstofnanir sem við treystum á og eigum að treysta á til að halda uppi eðlilegu samkeppnisástandi á fjarskiptamarkaðnum segja um söluna sem hér er til umræðu. Þá er ég að vitna annars vegar til Samkeppnisstofnunar og hins vegar Póst- og fjarskiptastofnunar. Frá Samkeppnisstofnun hafa komið þrjú bréf, dagsett 9. desember 1999, 7. apríl árið 2000 og svo 10. maí árið 2001. Þessi bréf fjalla um í fyrsta lagi um fjarskiptalögin og í öðru lagi fjalla þau um hugsanlega sölu á Landssímanum. Mér finnst athyglisvert, forseti, að fara yfir þá þætti sem Samkeppnisstofnun dregur fram í umsögn sinni.

Í síðastnefnda bréfi Samkeppnisstofnunar, frá 10. maí 2001, segir Samkeppnisstofnun að ýmsir þættir geti --- og ég undirstrika --- sem ,,geti`` haft óheppileg áhrif á þróun fjarskiptamarkaðarins, ef netið verði selt með. Þeir þættir sem stofnunin skírskotar til koma fram í bréfi Samkeppnisstofnunar frá 7. apríl árið 2000. Þeir nefna þar í fyrsta lagi, og færa það eiginlega sem rök fyrir því að skilja netið frá, að ef netið verði selt með sé hætta á að samkeppni verði ekki virk.

Ég hef, herra forseti, m.a. vitnað til fjarskiptalaga. Ég hef líka vitnað í hina þáltill. sem ég held reyndar að búið sé samþykkja, um reglugerð EES um skilyrðislausan aðgang að heimtaugum sem bætist þá við þennan skilyrðislausa aðgang inn á aðra hluta dreifikerfisins. Ótta Samkeppnisstofnunar hefur því í raun verið eytt með þessum skýru lagaákvæðum.

Í annan stað talar Samkeppnisstofnun um mikilvægi þess að jafnræði sé á milli samkeppnisaðila. Enn vil ég vísa til fjarskiptalaganna, sem reyndar voru nýsett þegar bréf Samkeppnisstofnunar frá 7. apríl 2000 var sent út. Jafnframt bendi ég á þetta afdráttarlausa ákvæði þess efnis að Landssíminn verði að aðgreina einstaka þætti í bókhaldi sínu. Landssíminn verður þannig að kaupa af sjálfum sér þegar hann fer inn á netið, á sama grundvelli og samkeppnisaðilar sem vilja komast inn á þetta net. Þetta nefni ég með hliðsjón af þeirri þróun og samningum sem gerðir hafa verið á milli Landssímans og fyrirtækjanna Tals, Íslandssíma og fleiri slíkra aðila. Með öðrum orðum: Þetta jafnræði milli samkeppnisaðila er til staðar í núverandi lagaumhverfi.

Í þriðja lagi er talað um að mikilvægt sé að hindra hagsmunaárekstra. Ég held að það sem ég hef nefnt eigi að tryggja að slíkir hagsmunaárekstrar verði ekki. Ef einhver óttast að svo verði þá höfum við bæði Samkeppnisstofnun og Póst- og fjarskiptastofnun, sem hafa vald til að grípa inn í. En það er líka athyglisvert sem kom fram hjá forstöðumanni Póst- og fjarskiptastofnunar að enginn kæra hefur borist. Ég tel það skyldu okkar hv. alþingismanna að fylgjast með þróuninni og framkvæmd laganna.

[14:30]

Hvers vegna kæra menn þá ekki? Það á að hvetja menn og styðja til að leggja fram kærur til þar til bærra stofnana, til að fá úr því skorið að fyrirtækin séu að vinna eftir þeim lögum og reglum sem eru í gildi.

Herra forseti. Póst- og fjarskiptastofnun talar um að gjaldtakan þurfi að vera hófleg. Því hefur verið svarað frá því að þetta bréf frá 7. apríl var skrifað, með því sem ég var að vitna í hér áðan, að það er skylda fjarskiptafyrirtækisins að hleypa öllum aðilum sem þess óska inn á netið á eðlilegu kostnaðarverði. Þar höfum við enn og aftur allar þessar stofnanir, Samkeppnisstofnun og Fjarskiptastofnun, sem eiga beinlínis að fara yfir útreikninga á útseldu verði. Það kom fram m.a. hjá fulltrúum þeirra sem hafa gert samninga við Landssímann, eins og frá Tali og Íslandssíma, að um þetta verð er enginn ágreiningur.

Ég hef nefnt þau atriði sem Samkeppnisstofnun lýsti á sínum tíma sem áhyggjuefni og tel að það sem hefur gerst frá 7. apríl 2000 hafi í raun og veru eytt þessum ótta að nánast öllu leyti.

Þá vil ég nefna hinn samkeppnisaðilann, sem er Póst- og fjarskiptastofnun, en í umsögn Póst- og fjarskiptastofnunar kemur það fram sem ég er reyndar þegar búinn að nefna hér, að fjarskiptalögin að viðbættri tilskipun Evrópusambandsins, sem hefur verið hér til umfjöllunar, um skilyrðislausan aðgang að heimtaugum, tryggi jafnræði að netinu eins og best þekkist í Evrópu.

Í Evrópu og e.t.v. hér hefur mestur vandinn verið um aðganginn að heimtaugunum. Þar hefur vandinn verið kannski mestur en með því að innleiða þá tilskipun sem ég hef oft nefnt í ræðu minni er verið að eyða þeim vafa. Það er skilyrðislaus aðgangur að heimtaugunum.

Herra forseti. Það sem stendur þá eftir, það sem eftirlitsaðilarnir segja, Samkeppnisstofnun, Póst- og fjarskiptastofnun, er í rauninni það að lagalegt umhverfi og samkeppnisumhverfið sé eðlilegt og heilbrigt. Það sé með öðrum orðum óhætt að treysta á þetta lagaumhverfi, en þó er bent á það bæði hjá Póst- og fjarskiptastofnun og Samkeppnisstofnun, að eins og staðan er í dag séu þær undirmannaðar og hafi ekki þann mannskap sem þurfi til að sinna þeim miklu skyldum sem verða væntanlega lagðar á þær með sölu Landssímans.

Einmitt þess vegna, herra forseti, leggur meiri hluti samgn. til að í tengslum við söluna verði báðar þessar stofnanir mannaðar með tveimur til þremur stöðugildum hvoru um sig, með sérfróðum aðilum, bæði tæknilega og rekstrarlega, til að sinna fjarskiptunum sérstaklega.

Að því sögðu held ég að megi fullyrða það, a.m.k. hefur vafa mínum hvað varðar jafnt aðgengi einstaklinga og fyrirtækja og hvað varðar eftirlitsþáttinn verið eytt að öllu leyti með því sem hér hefur verið farið yfir.

Þá vil ég, herra forseti, aðeins víkja að grundvallarspurningunni: Á að selja eða á ekki að selja? Hér hafa menn komið fram, talað mjög digurbarkalega en kannski ekki mjög málefnalega, og m.a. lýst því yfir að Framsfl. hafi skipt um skoðun á þessu sviði. Það er ekki rétt. Framsfl. hefur ekkert ályktað um hvort eigi að selja Landssímann með eða án netsins. Aldrei hefur verið ályktað um það á flokksþingi Framsfl.

Hins vegar hafa einstakir menn, bæði þingmenn og aðrir stuðningsmenn Framsfl., lýst þeirri skoðun sinni, þar á meðal ég, að meðan ekki er hægt að sýna fram á fullgild rök þess efnis að skynsamlegt sé að láta netið fylgja með þá hafi menn verulegar efasemdir um það.

Ég segi það sem afdráttarlausa skoðun mína eftir mikla vinnu, bæði innan samgn. og utan hennar, að þeim ótta sem ég hafði um að hér yrði ekki eðlilegt samkeppnisumhverfi, hér hefði landsbyggðin ekki öll jafnan aðgang og þar fram eftir götunum, hefur einfaldlega verið eytt með ítarlegum viðræðum við sérfræðinga á sviði fjarskipta. Það er stefna flokksins og hefur verið lengi að þar sem einstaklingar eru farnir að hasla sér völl á sviði atvinnulífsins eigi ríkið að draga sig úr rekstri. Það hefur alltaf verið stefna Framsfl. og er enn og ég hygg að svo muni verða enn um hríð.

Það er alveg ljóst að grjóthörð samkeppni er núna til staðar á sviði fjarskipta og þess vegna er það mat flokks míns að nú sé eðlilegt að ríkið dragi sig út úr þessu. Ef það liggur fyrir að samkeppnisumhverfið sé eðlilegt, landsbyggðinni verði ekki mismunað og öll þau rök sem hafa verið talin fram, að meðan þau skilyrði eru uppfyllt, þá er skynsamlegt að ríkið selji Landssímann með manni og mús, ef svo má orða.

Þá kemur spurningin: Hvernig á að selja? Ég ætla ekki að eyða tíma í það, það gerði hæstv. samgrh. í framsöguræðu sinni um það hvernig á að ... (GÁS: Þá er það alveg nóg ... ) --- já, þarna koma nú hin málefnalegu rök frá hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni, en ég ætla nú samt að reyna að halda áfram. Hæstv. samgrh. lýsti því hvernig á að selja, þ.e. það á að byrja á að bjóða almenningi og starfsmönnum og í því samhengi vil ég einmitt draga það fram hér, herra forseti, að fulltrúar starfsmannafélags Landssímans lýsa sig mjög fylgjandi því að selja fyrirtækið í einu lagi og að selja fyrirtækið. Það skyldi þó ekki vera að starfsfólkið byggði þessa afstöðu sína á þekkingu sinni á fyrirtækinu?

Í framhaldinu er ætlunin að leita til svonefndra kjölfestufjárfesta og margir gera sér vonir um að þar komi erlendir fjárfestar inn, jafnvel erlend fyrirtæki. Kosturinn við það er að með því fáum við erlent fjármagn inn í íslenskt efnahagslíf. Sannarlega þurfum við á því að halda. Ekki síður getur það verið mikilvægt fyrir fjarskiptaumhverfið á Íslandi að fá sem einn af eigendum í Landssímanum erlenda aðila á sviði fjarskipta, sem hafa hugsanlega breiðari og meiri þekkingu á fjarskiptasviðinu en við höfum hér í dag.

Ég vek jafnframt athygli á því, herra forseti, að þetta er selt í áföngum og þróunin mun eiga sér stað hægt og rólega. Það er ekki fyrr en á lokastigi sem ríkisvaldið dregur sig út úr þessu.

Herra forseti. Niðurstaðan af þessu er sú að það er mat okkar að öll rök mæli með því að selja núna og einmitt að selja núna og selja fyrirtækið í einu lagi.

En þá kemur stóra spurningin, til viðbótar því sem hér hefur þegar verið sagt, hvort netið eigi að fylgja með eða ekki. Þar vil ég nefna til viðbótar álit Þórðar Runólfssonar, prófessors í rafmagnsverkfræði við Háskóla Íslands. Það álit hafði a.m.k. veruleg áhrif á afstöðu mína og mér fannst því miður hv. þm. stjórnarandstöðu skauta afskaplega léttilega fram hjá því. Þórður Runólfsson á engra hagsmuna að gæta og hefur starfað við þessi mál í Bandaríkjunum og þekkir þennan markað tæknilega betur en nokkurt okkar sem hér sitjum á hv. Alþingi þó oft megi skilja það svo að við þykjumst vita ansi mikið.

Í greinargerð Þórðar Runólfssonar, sem ég sendi nú til allra hv. nefndarmanna í samgn. og þeim á að vera kunnugt um, segir, með leyfi herra forseta:

,,Þegar skipting á kerfi Landssímans er íhuguð ber að hafa í huga að fjarskiptakerfi nútímans eru gífurlega flókin kerfi þar sem hlutar kerfisins vinna saman á mörgum mismunandi stigum. Öll skipting á kerfinu í minni sjálfstæðar einingar sem gæti leitt til óhagræðingar eða takmarkana í virkni kerfisins eða gert innleiðingu nýrrar tækni eða virkni erfiða, annaðhvort frá tæknilegu eða viðskiptalegu sjónarmiði, er óæskileg frá sjónarhóli notenda kerfisins.``

Áfram heldur prófessorinn:

,,Betri nýting á bandbreidd grunnnetsins er eitt af meginmarkmiðum rekstraraðila grunnflutningskerfisins, sérstaklega þegar til lengri tíma er litið. Því er nýtni umferðarstjórnunarkerfanna (stafræna símstöðvakerfisins og ATM-netsins) á flutningsgetu kerfisins mjög mikilvæg og er tilhögun tengingar grunnflutningskerfisins og umferðarstjórnunarkerfisins mikilvægt atriði í þessu sambandi.``

Ég árétta þetta, herra forseti, ,,tenging grunnflutningskerfisins og umferðarstjórnunarkerfisins er mjög mikilvægt atriði.``

Með leyfi forseta, ég legg mikla áherslu á það sem segir í áliti prófessorsins:

,,Það er álit margra aðila sem stunda rannsóknir og þróun á þessu sviði`` --- nú er verið að vitna, herra forseti, í sérfræðinga víða um heim --- ,,að í grunnneti framtíðarinnar muni grunnflutningskerfið og ATM-umferðarstjórnunarkerfi sameinast í einu kerfi sem allir aðrir hlutar fjarskiptakerfisins munu tengjast við. Frá þeim sjónarhóli að gera slíka endurskipulagningu og innleiðingu nýrrar tækni sem henni fylgir sem auðveldasta, er aðskilnaður grunnflutningskerfisins frá umferðarstjórnunarkerfunum óæskilegur.``

Áfram mætti halda með að vitna í skýrslu og álit hins mæta prófessors en ég tel að þetta nægi. Það er niðurstaða í mati eins af fremstu vísindamönnum okkar á þessu sviði, óháðs aðila sem á engra hagsmuna að gæta í þessu sambandi, að frá tæknilegu sjónarmiði, með þarfir neytenda, með skírskotun til framtíðar, sé af tæknilegum ástæðum óæskilegt að aðskilja einstaka þætti grunnnetsins frá almennum rekstri.

Herra forseti. Það tel ég að skipti miklu máli, vegna þess að við viljum halda uppi öflugu fjarskiptakerfi fyrir alla landsmenn. Það er ekki síður fyrir landsbyggðina en þéttbýlið sem þessi atriði skipta máli.

Önnur rök fyrir því að selja kerfið í einu lagi eru í rauninni tengd þessu tæknilega, þ.e. það eru fjárhagsleg rök. Það að slíta einstaka þætti kerfisins úr sambandi við annað og skilja það eftir hugsanlega sem tæknilega úrelt fyrirbrigði vegna þess að með því að selja það eitt og sér muni verða erfiðara að fylgja eftir nýjungum þá erum við í rauninni að skaða kerfið fjárhagslega.

Hvaða hætta er þá til staðar, herra forseti? Þá er einmitt sú hætta til staðar að hér komi upp önnur kerfi, sem geri þá kannski fyrst og síðast út á þéttbýlið og skilji eftir tæknilega úrelt kerfi, sem þjónar hvorki landsbyggð né þéttbýli.

Síðan kann kannski að skipta einhverju máli vilji og viðhorf starfsfólksins um öryggi sitt, að vilja fylgja fyrirtækinu sem það hefur unnið hjá. Það kom a.m.k. afskaplega glöggt fram í skýrri afstöðu fulltrúa starfsfólksins hjá hv. samgn. hversu meðmælt það var því að selja Landssímann með netinu og öllu saman. Ég árétta það sem ég sagði áðan, það skyldi þó ekki vera vegna þess að þetta starfsfólk sem þekkir innviði fjarskipta betur en líklega flestir þingmenn, telji það hyggilegast út frá hagsmunum heildarinnar og út frá verðmætum fyrirtækisins?

[14:45]

Þá er einnig rétt að nefna, herra forseti, sem mér finnst menn ekki hafa svarað hér þótt spurðir væru: Hver hefur reynslan verið erlendis af því að selja þar ríkisfyrirtæki? Hvort heldur það er ákvörðun sósíaldemókrata í Evrópu eða annarra flokka þá hafa menn tekið þá ákvörðun að selja ríkissímafyrirtækin í einu lagi. Og hvers vegna skyldi það nú vera? Það er væntanlega með sömu rökum og hér er verið að reyna að draga fram, að það sé skynsamlegra fyrir viðkomandi þjóðir bæði út frá fjárhagslegum forsendum og ekkert síður út frá tæknilegum forsendum. Þótt British Telecom ætli sér eftir söluna að selja netið frá þá er það í rauninni af allt öðrum hvötum, það eru þá viðskiptasjónarmið ein og sér sem þar ráða. En þetta er reynslan alls staðar í Evrópu og ég veit ekki betur en að þróun á fjarskiptamarkaði í Evrópu hafi verið afskaplega öflug og kraftmikil, ekkert síður eftir að ríkið dró sig út úr rekstri fjarskiptafyrirtækja sinna og seldi þau undantekningarlaust með netinu. Og þá skulum við einnig hafa það í huga, herra forseti, að reynslan sem hér er komin á grundvelli fjarskiptasamninga í samskiptum við Tal, Íslandssíma og fleiri gagnvart Landssímanum virðist bara vera nokkuð góð.

Meginniðurstaða mín er að svo lengi sem samkeppni er eðlileg sé það beinlínis varasamt að sundurgreina netið frá öðrum þætti Landssímans öðruvísi en bókhaldslega. Það snertir ekki bara þéttbýlið, eins og menn hafa eðlilega áhyggjur af, heldur landsbyggðina alla eins og ég fór yfir áðan og um leið fjarskipti á Íslandi almennt.

Það fer nú að styttast í þessu hjá mér, herra forseti. Mig langar aðeins til að víkja að byggðaþættinum sem mikið hefur verið til umræðu og ekki að ástæðulausu og árétta enn það sem ég sagði í byrjun, að umræðan í nefndinni snerist kannski fyrst og fremst í að lýsa núverandi ástandi þar sem ný fyrirtæki í nýju umhverfi finna til óöryggis. Og þá finnst mér hvað varðar verðið og verðlagningu hér rétt að minna á, sem við skulum ekki gera lítið úr, að verð á Íslandi í fjarskiptum er með því lægsta sem þekkist í Evrópu. Fram hjá því verður ekkert litið. Við skulum fagna því að svo vel hefur tekist til hjá afskaplega símaglöðum Íslendingum að búa til kannski ekki fullkomið kerfi, það vantar vissulega mikið í þetta kerfi, en þó þannig að okkur hefur tekist að koma hér upp bærilegu kerfi sem er það ódýrasta sennilega ekki bara í Evrópu, heldur í heiminum öllum. Það er sama verð á GSM-símum, NMT, ISDN. Hins vegar þegar kemur að ATM-tengingunni, þá er talað um 17.000 kr. mun ef menn fara á milli svæða. (Gripið fram í: Á mánuði.) Á mánuði, vissulega. Það er töluverð upphæð.

En þá vil ég vísa til þess sem mér fannst vera gert fulllítið úr af því að í greinargerð meiri hluta samgn. er full alvara á bak við þau orð að hluti andvirðisins sem fæst af sölu Landssímans verði notaður til þess að jafna þennan mun. Og að hluti andvirðisins verði notaður til þess að ljúka við lagningu á dreifikerfinu þar sem vantar í dag. Og það er það sem dregið er fram í áliti meiri hluta samgn. og er samkomulag við hæstv. samgrh. að það sem eftir lifir þessa árs fari samgn. og samgrn. í sameiginlega vinnu við að útfæra þá aðferð að jafna aðgengi landsmanna að þessu. Um það er sátt á milli meiri hluta samgn. og hæstv. samgrh. og talað er um samgn. og ég trúi ekki öðru en að fulltrúi stjórnarandstöðu lýsi sig reiðubúinn til að taka þátt í slíkri vinnu. Og þegar henni lýkur, þá er það a.m.k. okkar sýn að tekist hafi að jafna aðgengi, jafna verðmun á milli dreifbýlis og þéttbýlis og það yrði það markmið sem allir eru sammála um.

Hvað varðar leigulínur, þá hef ég þegar farið yfir þær, þar er rekstrarkostnaður allverulegur, en ég árétta það að þeir eru líklega teljandi á fingrum annarrar handar sem af tæknilegum ástæðum þurfa á leigulínum að halda, þökk sé því frábæra ATM-kerfi sem við erum að koma hér upp. Ég minni hv. félaga mína úr hv. samgn. á að ATM-kerfið mun vera eitt það fullkomnasta sem þekkist til þess að nýta bandbreidd í flutningskerfinu. Því á að ljúka á næstu fimm árum eins og hér hefur komið fram. ISDN-tenging sem á að nýta til flestra einfaldari starfa, t.d. fyrir heimili, á að vera komin í lok árs 2002 til 98% þjóðarinnar og þannig má áfram telja.

Með öðrum orðum, hvað byggðamálin varðar þá snýst það annars vegar um aðgengið sem ég hef þegar fært rök fyrir að er jafnt, og hins vegar að með þeirri vinnu og þeim sjóði sem skapaður verður við söluna er verið að jafna þennan aðstöðumun. Þar með lít ég svo á að búið sé að ná þeim meginmarkmiðum sem menn settu sér í upphafi umræðunnar um söluna á Landssímanum.

Ég vil svo aðeins renna yfir efnahagsleg áhrif af sölunni. Fram kom hjá öllum efnahagssérfræðingum sem nefndin kallaði til sín að salan einmitt núna hefði mjög jákvæð áhrif. Margir kæmu inn í þetta, almenningur, starfsmenn, kjölfestufjárfestar o.s.frv. og ljóst væri að í kjölfarið yrði nokkuð líflegur eftirmarkaður sem mundi hleypa jákvæðu lífi í skuldabréfamarkaðinn á Íslandi. Og það hljóta menn að vera sammála um að teljist jákvæð tíðindi.

Komið hefur fram hér í efnahagsumræðu og m.a. í áliti frá Þjóðhagsstofnun og Seðlabanka að það að fá erlenda fjárfestingu inn í landið er eitt besta úrræði sem hægt er að grípa til, ef svo má segja, til að slá á viðskiptahallann og til að treysta stoðir efnahagslífsins hér. Þess vegna lýsi ég þeirri von minni að þegar kemur að því að selja þann hlut sem er til kjölfestufjárfesta, þá muni koma þar inn erlendir aðilar bæði með tækniþekkingu og fjármagn.

Af því að menn hafa talað nokkuð óvarlega um söluna, talað um einkavinavæðingu o.s.frv., þá held ég að það liggi fyrir og menn séu nokkuð sammála um það að lífeyrissjóðir á Íslandi bíði í rauninni eftir tækifæri að fá að fjárfesta í jafnlíflegu fyrirtæki og Landssíminn er og má segja að þar séu lífeyrissjóðir að fjárfesta til að tryggja verðmæti skjólstæðinga sinna, með öðrum orðum, það er almenningur í landinu sem er að fjárfesta. Fram kom m.a. hjá efnahagssérfræðingum sem til okkar sóttu og veittu upplýsingar að altalað er, a.m.k. í þeirra hópi, að lífeyrissjóðirnir bíði eftir þessu tækifæri.

Þá er einnig vert að hafa það í huga að gagnvart hagsmunum ríkissjóðs fæst einfaldlega meira fyrir fyrirtækið með því að selja það í einu lagi.

Herra forseti. Ég læt þessu lokið. Grundvallaratriði í málflutningi mínum eru þau að þær hættur sem ég lýsti fyrir hálfu eða einu ári og spurði hvort hér gæti skapast óeðlilegt ástand, Microsoft-ástand, ég tel að ég hafi farið yfir það í ræðu minni út frá jöfnu aðgengi einstaklinga og fyrirtækja, út frá möguleikum fyrirtækja til að sækja inn á netið og út frá jöfnuði milli landsbyggðar og þéttbýlis. Ég tel að þetta hafi jákvæð áhrif á efnahagslífið. Allt lagalegt umhverfi er mjög heilbrigt, má segja, fjarskiptalögin, tilskipunin frá EES og síðan lög um Samkeppnisstofnun. Eftirlitið verður bætt. Þetta flýtir fyrir því að við fáum hér betra dreifikerfi en er í dag.

Niðurstaða mín, herra forseti, er sem sagt sú að skynsamlegt sé að selja núna og það muni bæta allverulega úr því ástandi sem ríkir á fjarskiptamarkaði í dag. Hann er þó góður en verður með sölunni að mínu mati enn betri en hann er í dag.