Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 14:58:46 (7988)

2001-05-17 14:58:46# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[14:58]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Ég verð aðeins að leiðrétta. Hv. þm. sagði að við hefðum einhvern tímann verið samstiga. Ég hygg að það sé ekki alveg rétt. Ég sagðist vilja sjá rök fyrir því að hér skapaðist ekki Microsoft-ástand. Ef niðurstaðan af þeirri skoðun væri sú að hér væri Microsoft-ástand, að einn aðili réði markaðnum og hleypti ekki öðrum að, þá hefðum við líklega verið sammála. Megnið af minni 50 mínútna löngu ræðu fjallaði einmitt um það hvernig ég tel, eftir að hafa rætt við fjölmarga aðila, ég ætla ekki að endurtaka það, að umhverfið hafi breyst. Ég ætla ekki að endurtaka þá ræðu en skal með glöðu geði afhenda hv. þm. útskrift af henni þegar hún verður tilbúin.

Munurinn er kannski sá að í framsöguræðu hv. þm. fyrir áliti 1. minni hluta sagði hv. þm. að það eina sem hefði breyst frá því umræðan hófst væri það að settir væru inn tveir til þrír starfsmenn hjá Samkeppnisstofnun. Þetta er ekki mjög málefnaleg yfirlýsing sem hv. þm. kemur með og ég vona að ég hafi einmitt með ræðu minni svarað því að það er gott betur en tveir til þrír eftirlitsaðilar sem verið er að ræða um hér, það er miklu, miklu fleira.

Ég tel að sami grundvöllur verði, svo ég svari spurningu hv. þm., að það verði samkeppnisgrundvöllur m.a. vegna þess að Landssíminn sem er að bjóða einhverja þjónustu verður að kaupa af sjálfum sér á sama verði og aðrir aðilar. Sjálfur get ég upplýst það að ég hef verið í sambandi og tengdur við Landssímann og átt við hann mjög góð viðskipti, en nú er verið að bjóða mér í heimabæ mínum af einkaaðila enn betri þjónustu og ég þarf að velja núna á milli við hvorn aðilann ég vil eiga viðskipti og ég læt þar verð og gæði ráða. Þróunin bara af þessu einfalda dæmi, eins og er víða annars staðar, sýnir að samkeppnisumhverfið er til staðar.