Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 15:01:02 (7989)

2001-05-17 15:01:02# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. 1. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[15:01]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég spurði hv. þm. hvort hann teldi líklegt að það yrði samkeppni að því er varðar heimtaugarnar í grunnnetsþjónustu sem verður ekki öðruvísi en að ný heimtaug verði grafin. Hv. þm. svaraði því og orð hans verða ekki skilin öðruvísi en svo að þessi aðferðafræði um jafnan aðgang dugi, þ.e. þá verður ekki samkeppni í grunnnetsþjónustunni.

Vegna þess að hv. þm. sagði að við hefðum eitt sinn verið sammála en værum það ekki lengur, þá verð ég, virðulegi forseti, að lesa úr ræðu hv. þm. Hún var svona:

,,Landssíminn er ráðandi á íslenskum fjarskiptamarkaði og drottnar yfir nýjum fyrirtækjum sem reyna að hasla sér völl á þessu sviði. Verði hann seldur í einu lagi er einfaldlega verið að koma á Microsoft-ástandi á Íslandi. Ég vara við því.``

Virðulegi forseti. Ég get ekki skilið þessi orð öðruvísi en svo að við höfum eitt sinn verið samstiga og sammála í þessum málum. (Forseti hringir.) En hér var ekki verið að segja neitt annað en að vara við því að selja í heilu lagi.

(Forseti (GuðjG): Forseti minnir hv. þingmenn á 58. gr. þingskapa. Þar stendur: ,,Eigi má, nema með leyfi forseta, lesa upp prentað mál.`` Forseti biður hv. þingmenn að hafa það hugfast.)