Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 15:07:30 (7993)

2001-05-17 15:07:30# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[15:07]

Kristján L. Möller (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. svaraði ekki einu einasta atriði af því sem ég var að spyrja hann um heldur fer hér eins og köttur í kringum heitan graut. Það er táknrænt fyrir framsóknarmenn að gera þetta. Það eru skýr skilaboð frá framsóknarmönnum til meginþorra íbúa á landsbyggðinni sem ekki eru komnir með ljósleiðara til sín og þar sem ekki er á dagskrá að leggja hann á næstunni, að þeir eigi að notast við moldarreiðgötur meðan aðrir geta fengið miklu hraðari og öflugri net.

Ég tók eitt dæmi áðan um kvikmyndina. Þar tekur þetta fjórar sekúndur í gegnum ljósleiðaratengi en átta klukkustundir með hinni aðferðinni. Ég hefði viljað gera athugasemdir við ótal atriði í ræðu hv. þm. og mun gera það í ræðu minni hér á eftir og enn fremur fara betur yfir sinnaskipti Framsfl. sem lét Sjálfstfl. í þessu máli eins og svo mörgum öðrum teyma sig í þá ógöngur sem þeir eru komnir í núna.