Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 16:23:40 (8000)

2001-05-17 16:23:40# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, HjÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[16:23]

Hjálmar Árnason (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Kristján Möller hélt hér ítarlega ræðu. Mér fannst að vísu megnið af hans ræðu vera lýsing á núverandi ástandi. Ég get hins vegar tekið mjög vel undir lokaorð hans og tel að það sé einmitt það markmið sem fram kemur í áliti meiri hluta hv. samgn. um jöfnuð, um jöfnuð landsmanna og jafnt aðgengi fyrirtækja og einstaklinga að dreifikerfinu.

Hv. þm. fór nokkrum orðum um það hvort ætti að selja netið eða ekki. Jafnframt fjallaði hann nokkuð um að ýmsir hefðu breytt um skoðun á afstöðu til þess hvort ætti að selja netið með eða ekki.

Mig langar til að spyrja þingmanninn --- og les hér úr nál. hv. 1. minni hluta samgn. sem hv. þm. Kristján Möller stendur að ásamt hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni. Á bls. 2 stendur skýrum stöfum: ,,Þess vegna leggur 1. minni hluti til að grunnnetið verði ekki selt með öðrum hlutum fyrirtækisins.`` Þetta er skýr og afdráttarlaus stefna. Ég er hins vegar ekki sammála henni og vitna til þeirra raka sem ég reyndi að draga fram í ræðu minni.

Nú fletti ég um ekki nema eina síðu og stendur þar á bls. 4: ,,Það er mat 1. minni hluta að skynsamlegra hefði verið að breyta markaðsgerðinni með því að selja grunnnetið frá fyrirtækinu.``

Ég spyr hv. þm. Kristján Möller: Hvor stefnan er nú í augnablikinu ofan á hjá Samfylkingunni, sú sem er á bls. 2, um að ekki eigi að selja netið, ellegar hin sem er á bls. 4, að skynsamlegra væri að selja það?