Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 16:25:57 (8001)

2001-05-17 16:25:57# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[16:25]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Aðeins um það sem hv. þm. spurði um.

Það er dálítið kyndugt að háttvirtir stjórnarþingmenn hafa eingöngu fjallað um þessi orð sem eru á bls. 4, ég er því miður ekki með þetta álit, en það kom fram í andsvari hæstv. samgrh. hér áðan að hann vitnaði í þetta sama, þ.e. að selja grunnnetið frá fyrirtækinu, sem kemur fram á bls. 4 og það var leiðrétt í morgun og hefur nýju nál. verið dreift, en þarna átti að standa ,,að aðskilja grunnnetið frá fyrirtækinu``. Og það kemur náttúrlega skýrt fram í brtt. þeirri sem við höfum flutt.

En ég er í sjálfu sér mjög ánægður með að þetta skuli vera gert að aðalatriði hér í andsvörum vegna þess að þetta er sannarlega stafsetningarvilla sem e.t.v. hefur orðið vegna þess að flutningsgetan milli skrifstofa hér á Alþingi hefur ekki verið nógu góð eða hún hefur truflast á leiðinni, þá kemur stundum óþægilegt bil. Ég veit ekki hvernig þetta gerðist, en þetta hefur nú verið leiðrétt sem betur fer.

Það er rétt hjá hv. þm. að ég notaði megnið af tíma mínum til að lýsa því ástandi eins og það er í dag, meðan Landssíminn er í ríkiseigu. Og ég notaði tíma minn til þess að vara við því og ég óttast það að þetta muni fara á verri veg en er þarna, þegar þetta verður selt með og enn þá meiri hagnaðarsjónarmið verða látin ráða, enda kemur það fram hér að talað er um sérhagsmunahópa og óeðlileg afskipti alþingismanna eins og kemur fram í skýrslu einkavæðingarnefndar. Þetta eru kannski aðalatriðin.

En það er sannarlega rétt og það er gott að við erum sammála um að við viljum sem jafnaðarmenn að íbúar í Reykjavík og íbúar á Raufarhöfn eigi sama kost á þjónustu hvað þetta varðar og það er gott að heyra til þess.

Þá greinir okkur aðeins á um það að við sjáum ekki hvernig við ættum að fara að þessari leið. Ég tel að það verði betra að gera það með því að aðskilja netið áður.