Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 16:29:18 (8003)

2001-05-17 16:29:18# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, KLM (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[16:29]

Kristján L. Möller (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla aðeins að koma einu að hér, það var ekki efnislega nein spurning en hlutur sem ég gleymdi áðan. Ég ætla að nota tækifærið í mínu stutta andsvari og nefna það.

Það kom fram hjá hv. flm. meirihlutaálits, Árna Johnsen, að meiri hlutinn leggur mikla áherslu á það sem talað er um hér, aðra þjónustu á sviði upplýsingatækni, að ganga enn hraðar til fulls jafnvægis eða til fulls jafnréttis í verði á milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis hvað þetta varðar. Og fram kemur að það eigi að gera í hv. samgn. í fullri samvinnu við samgrh.

Mér fannst áðan eins og hv. þm. Hjálmar Árnason væri eitthvað að ýja að því að við fulltrúar Samfylkingarinnar í nefndinni, ég og hv. þm. Lúðvík Bergvinsson, yrðum ekki með í því. Ég vil taka skýrt fram að við hlökkum mikið til að taka þátt í þeirri vinnu sem hér er boðuð, að nota hluta af söluandvirði Landssímans til að jafna það verð milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar.

Herra forseti. Ég er mjög hlynntur þeirri kröfu íbúa höfuðborgarsvæðisins um að jafna misvægi atkvæða með því að gera landið að einu kjördæmi.

Herra forseti. Ég er líka áhugamaður um að jafna lífskjör landsmanna, hvort sem það er í gegnum skattkerfið eða í gegnum gjaldskrá Landssímans, fyrir eða eftir sölu, hvað það varðar að fyrirtæki, hvort sem þau eru á Raufarhöfn, Neskaupstað, Reykjavík, eða Akureyri, sitji við sama borð hvað varðar kostnað á þessari grunnþjónustu sem Landssíminn veitir í gegnum ljósleiðara. Og að íbúar alls landsins geti setið við sama borð hvað þetta varðar, bæði hvað varðar gæði og verð.

Ég er einnig mjög hlynntur því að e.t.v. verði fjarskiptasamband bætt á milli húsa, þannig að stafsetningarvillur eða orðabil fari ekki milli húsa.