Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 17:44:55 (8007)

2001-05-17 17:44:55# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[17:44]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg ljóst að samkeppnisyfirvöld, þá á ég við bæði Samkeppnisstofnun og Fjarskiptastofnun, ber skylda til þess að hafa eftirlit með því að ekki sé ólöglega fært á milli rekstrarþátta í þeim tilgangi að undirbjóða í samkeppni. Það er mjög mikilvægur þáttur í eftirliti opinberra aðila.

Hvað varðar samkeppni þá er alveg ljóst að það er komin samkeppni á Íslandi sem betur fer á GSM-símamarkaðnum og þar nýta fyrirtækin sér heimildir í fjarskiptalögunum um reikisamninga og það kemur neytendum mjög til góða vegna þess að með reikisamningakerfinu er minni ástæða til þess að fjárfesta í grunnkerfum, margföldum grunnkerfum, og sama er uppi á tengingnum í fastlínukerfinu vegna þess að hinu markaðsráðandi fyrirtæki ber skylda til þess að hleypa að netum og heimtaug þannig að önnur símafyrirtæki eigi möguleika á því að keppa við markaðsráðandi fyrirtækið. Það er þess vegna mjög eðlilegt sem fram kemur í nefndaráliti hv. samgn. að þar er undirstrikað það mikilvæga hlutverk sem samkeppnisyfirvöld eiga að hafa þegar kemur að samkeppni.

Hins vegar kemur mjög undarlegt fram í áliti Samkeppnisstofnunar sem sýnir að hún er haldin tilteknum bábiljum þegar hún telur að eina leiðin sé sú að rífa burt grunnnetið til þess að tryggja samkeppni á þessum markaði. Það er fjarri öllu lagi og sú ágæta stofnun þarf að lesa betur heima.