Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 18:33:18 (8015)

2001-05-17 18:33:18# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[18:33]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað eru miklar breytingar að verða í samfélagi okkar og við höfum tekið hér langar umræður um byggðavanda og brottflutning. Það sem gerðist á þeim tíma var skelfileg staða á markaði hjá útgerðarfyrirtækjum þar sem fólk var flokkað, ekki vegna þess að það vantaði fisk eða afla heldur vegna möguleikanna til að vinna hann heima. Vandinn er annar nú.

Það sem ég er að benda á er að á öllum tímum hafa þær stundir verið að við höfum þurft á ríkisfyrirtækjum eða bæjarfyrirtækjum að halda. Á öðrum tíma hefur verið ljóst að tími þeirra fyrirtækja er liðinn. Það er mat okkar í Samfylkingunni, og þar skilur á milli okkar og Vinstri grænna, að mjög margir þættir í rekstri Landssímans séu þegar í samkeppni hér og ég hef fært fyrir því rök í máli mínu.

En fjarskiptanetið viljum við standa vörð um, það verði ekki selt, það verði öryggisnet sem á að halda áfram að ná út á hvert annes, inn á hvern sveitabæ, skapa jöfnuð með þeim sem það þurfa að nota. En við teljum að fyrirtækin sjálf sem kaupa þjónustu í gegnum þetta net geti mjög vel verið á markaði. Þarna skilur á milli.