Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 20:35:53 (8021)

2001-05-17 20:35:53# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[20:35]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég gef mér ekkert í þeim efnum. Ég geri ráð fyrir því að ríkið fái í sinn hlut einhverja tugi milljarða. En ég var að gera grein fyrir því í ræðu minni að á aðeins síðustu tíu árum hafa komið 20 milljarðar í ríkissjóð frá þessu fyrirtæki sem þó er enn aflögufært. Það er staðreynd. Það sem mun breytast er að þeir fjármunir sem annaðhvort renna til ríkisins eða til uppbyggingar í fyrirtækinu munu nú hér eftir renna til fjármagnseigenda.

Póstútibúum í Varmahlíð og á Hofsósi var lokað. Starfsemin eða þjónustan var að hluta til færð, í öðru tilviki í bensínafgreiðslu og í hinu tilviki í verslun, eftir því sem ég best veit. Í Skagafirði skrifaði sveitarstjórnin til Póst- og fjarskiptastofnunar og spurðist fyrir um hvort það stæðist lög að fara fram með þessum hætti. Um 200 manns, 200--300 manns, ég veit ekki nákvæmlega hve margir, undirrituðu plagg til hæstv. samgrh. og óskuðu eftir því að hann tæki þessi mál til endurskoðunar og kæmi í veg fyrir að póstútibúunum væri lokað og fólki sagt upp störfum eins og reyndin varð. Eftir því sem ég best veit hefur hæstv. samgrh. ekki virt þetta fólk svars. Ef þetta eru ekki kaldar kveðjur til fólks í Skagafirði þá veit ég ekki hvað eru kaldar kveðjur.