Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 20:50:35 (8028)

2001-05-17 20:50:35# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, ÞKG
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[20:50]

Þorgerður K. Gunnarsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu mikið. Hún hefur staðið í allan dag og um margt verið fróðleg en það hefði að mínu mati mátt ræða málið á styttri tíma en notaður hefur verið hingað til.

Ég átti þess kost að sitja fund í samgn. þegar þetta góða frv. um sölu ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands var til umfjöllunar. Ég tel að yfirferð samgn. hafi verið mjög góð. Hún var ítarleg og afar fróðleg og undir röggsamri stjórn formanns nefndarinnar. Ýmis álitaefni komu upp og voru þau öll skoðuð mjög gaumgæfilega, enda um stórt hagsmunamál allrar þjóðarinnar að ræða.

Ég vil fyrst víkja að sjálfri sölunni. Ég velti fyrir mér þessu með kjölfestufjárfestana. Ég vék að því í fyrstu ræðu minni varðandi þetta mál. Ég hef þegar bent á að það sé mjög mikilvægt að fá sterkan kjölfestufjárfesti, helst erlendan. Undir það var tekið af þeim sérfræðingum í málefnum hlutabréfamarkaðarins sem voru gestir nefndarinnar. Það er mjög mikilvægt að fá í gegnum erlenda kjölfestufjárfesta, frekari faglega þekkingu, reynslu og ekki síst fjármagn inn í landið í tengslum við þessa sölu. Það væri gott.

Í frv. er talað um að 25% eigi að seljast til slíkra fjárfesta. Hugsanlega yrðu 5--10% til viðbótar tekin frá til að laða að kjölfestufjárfesta. Það hefur sýnt sig erlendis að oft duga 35% til þess að einmitt slíkir kjölfestufjárfestar hafi nokkuð sterka stöðu innan slíkra fyrirtækja sem er mjög mikilvægt. Ég tel að þetta ákvæði ætti að duga til að laða að þessa erlendu fjárfesta, þetta vilyrði um frekari eignarhlut. Engu að síður er afar brýnt að hæstv. ríkisstjórn gefi vísbendingar um hvernig og hvenær eigi að selja hin 51% sem eftir standa.

Þeir sérfræðingar á verðbréfamarkaði sem samgn. fékk á sinn fund, auk ýmissa keppinauta Símans, voru sammála um að sala ríkisins á eignarhlut sínum í Símanum geti virkað sem vítamín fyrir verðbréfamarkaðinn sem er nokkuð einhæfur hér á landi. Eftirmarkaðurinn í sumar gæti orðið öflugri og yrði auðvitað allt mjög til hagsbóta fyrir efnahagslífið í heild. Sala Símans er sem sagt þjóðhagslega mjög hagkvæm.

Það var nokkur umræða um hvort betra hefði verið að selja í fyrra. Aftur á móti er afar erfitt að fá á hreint og í raun er enginn sem getur endanlega gefið svar um hvenær hárrétt er að selja. Engu að síður er sú umræða óeðlileg í ljósi þeirrar þróunar sem hefur verið á verðbréfamarkaðnum. Hann er greinilega að rétta úr kútnum bæði hér og erlendis, hvort sem er í Ameríku eða Evrópu.

Á fundi nefndarinnar kom fram að það hefði ekki verið heppilegt fyrir almenning eða hlutabréfamarkaðinn að selja Símann þegar markaðurinn var í algjöru hámarki og spákaupmennska, eins og einn sérfræðingur orðaði það, með versta móti. Þótt markaðurinn sé óvenjulegur er ekkert sem gefur til kynna að hann sýni núna lágmarksverð. Sérfræðingar á verðbréfamarkaði töldu þetta þægilegan tíma til að selja, markaðurinn væri að rétta úr kútnum og byrjaður að leiðrétta sig. Þetta var því talinn heppilegur tími til að fá almenning til að fjárfesta í hlutabréfum í Símanum.

Ég vil stuttlega koma inn á þriðju kynslóð símanna. Ég ítreka að ég tel að heppilegra hefði verið að úthlutun á leyfum á þeirri nýjung og þeirri framför hefði verið lokið áður en til sölu á Símanum kemur. Ég tel það mjög mikilvægt upp á verðlagningu á fyrirtækinu og að það geti skipt miklu máli. Í raun höfum við ekki fengið útskýringu á því frá hæstv. samgrh. af hverju svo er ekki gert.

Í umfjöllun nefndarinnar snerist umræðan um að miklu leyti um grunnnetið, líkt og umræðan hér í allan dag, og sölu þess með öðrum þáttum Símans. Helstu samkeppnisaðilar Símans, Tal og Íslandssími, voru sammála því að grunnnetið ætti að seljast með, þar sem tryggð væri samkeppni og jafn aðgangur að grunnnetinu á raunverði. Ég kem síðar að því hvernig efla má eftirlit stjórnvalda á þessu sviði.

Ég tel réttmætt, herra forseti, að þessi gagnrýni hafi komið fram. Miðað við núverandi gjaldskrá hins ríkisrekna fyrirtækis er nokkur munur á leigulínum og því ekki óeðlilegt að umræðan um grunnnetið skyldi koma upp. Hins vegar er ekkert sem segir að ekki sé hægt að tryggja þessa hagsmuni landsbyggðarinnar með því að selja grunnnetið með Símanum. Í máli gesta nefndarinnar kom ekkert fram sem útilokaði þetta. Þeir einu sem gagnrýndu sölu grunnnetsins voru af landsbyggðinni. Það er skiljanlegt miðað við núverandi ástand, þ.e. mismunandi kostnað á leigulínunum. Þrátt fyrir að þeir gagnrýndu að grunnnetið væri selt þá kom ekkert fram sem sýndi fram á að hægt yrði að tryggja að núverandi ástand væri ekki viðvarandi með því að aðskilja grunnnetið og hafa það áfram í ríkiseigu.

Enn fremur komu engar vísbendingar fram um að ríkisrekið fyrirtæki tryggði, sem er mjög mikilvægt atriði, að tæknileg þróun og uppbygging haldist í hendur við þörfina hjá þjónustuaðilum, sem eru í beinum tengslum við neytendurna í landinu. Uppbygging grunnnetsins verður að vera í samræmi og haldast í hendur við þjónustuna. Það er mjög mikilvægt atriði, m.a. til þess að hin tæknilega þróun verði áfram þannig að hugbúnaðarfyrirtækin þróist eins og þau hafa gert mjög vel hingað til. Við höfum enn þá forskot á önnur lönd, eins og einn gesturinn sagði, Ingvar Kristinsson að mig minnir.

Uppbygging grunnnetsins og hvatinn til framfara og nýjunga verður að vera í samræmi við þarfir þeirra sem kaupa af grunnnetinu. Ef sú tenging er ekki í lagi er ég hrædd um að við sitjum eftir í samkeppni við erlend hugbúnaðar- og tæknifyrirtæki.

Sé litið til annarra landa og reynslu þeirra við einkavæðingu ríkissímafyrirtækja er engin vísbending um að notendur í þéttbýli eða dreifbýli hafi farið illa út úr því að grunnnetið hafi verið selt með símafyrirtækjum. Það er ekkert dæmi til um að það hafi verið óheppilegt fyrir neytendur að selja grunnnetið með. Sennilegra er að ríkissímafyrirtæki sem sett hafa verið á markað líti á það sem markaðstækifæri að vera tengd við alla landsmenn. Þetta hefur líka sýnt sig við sölu ríkissímafyrirtækja þar sem alþekktar eru klausur um þjónustu við landsbyggðina eða jaðarbyggðir.

Mikilvægast er að til verði öflugt og stöndugt fjarskiptafyrirtæki. Það stuðlar enn frekar að því að við höldum forskoti okkar á önnur lönd með heilbrigðri samkeppni. Slíkt fyrirtæki skilar hagnaði sem síðar leiðir til fjárfestinga, ekki síst í fjarskiptakerfum.

Ég ætla ekki að draga fjöður yfir það, varðandi grunnnetið, að hægt væri að gera ýmislegt í þeim efnum. Reyndar fylgja því tæknilegir erfiðleikar, m.a. kemur það fram í einkavæðingarskýrslunni hjá sérfræðingi sem var fenginn til að athuga þetta, að aðskilja grunnnetið frá öðrum rekstri. Hins vegar kom líka skýrt fram á fundi nefndarinnar að það er alveg hægt, ef vilji er til staðar, að aðskilja grunnnetið. Það kostar aftur á móti mikið, við vitum það. Það kostar gríðarlega fjármuni að aðskilja grunnnetið. Gott og vel. Sá kostnaður lendir auðvitað aðeins á neytendum.

[21:00]

Eins og ég hef áður bent á skulum við líka átta okkur á því að við erum ekki að tala um eitthvert lítið fyrirtæki þegar rætt er um aðskilnað grunnnetsins frá öðrum þáttum Símans heldur erum við að tala um stórt fyrirtæki. Það kom líka fram á fundum samgöngunefndar. Það eru u.þ.b. 1.380 starfsmenn hjá Símanum og áætlað er að u.þ.b. 400--450 starfsmenn starfi að því sem tengist starfsemi grunnnetsins. Við erum því ekki að tala um lítið sætt, nett fyrirtæki þriggja, fjögurra starfsmanna í einni símstöð heldur erum við að tala um stórt ríkisfyrirtæki sem yrði eftir við sölu á Símanum ef hugmyndir um aðskilnað grunnnetsins frá öðrum þáttum hans yrðu að veruleika.

Ég tel afar óheppilegt og í raun vonlaust að ríkisfyrirtæki sem slík komi til með að skammta þjónustu að grunnnetinu enda lögðust stærstu samkeppnisaðilar Símans mjög gegn því að það væri aðskilið. Ríkið á að mínu mati ekki að vera í skömmtunarhlutverki á þessum fjarskiptamarkaði sem nú þegar er í bullandi samkeppni. Samkeppnin er hafin, við verðum öll þess vör og áskynja, ríkið á að gegna stjórnsýsluhlutverki en á ekki að vera rekstraraðili að mínu mati.

En varðandi þessa 1.380 starfsmenn, þar af 400--450 sem kæmu að grunnnetinu, þá vil ég benda á að fulltrúar starfsmannafélags Símans mættu á fund nefndarinnar og voru þeir mjög jákvæðir gagnvart sölunni. Aðspurðir sögðust þeir ekki hafa rætt aðskilnað grunnnetsins, það hefði ekki komið til umræðu. Það segir mér auðvitað heilmikið. Það segir mér að ekki er mikill þrýstingur af hálfu starfsmanna Símans að skilja grunnnetið frá. Það hlýtur að vera að það hefði komið upp á fundum hjá starfsmannafélagi Símans, þar sem þetta margir, 400--450 manns starfa hjá grunnnetinu, að einhver af þeim hefði viljað skilja þann hluta frá öðrum þáttum Símans. Svo var ekki.

En hvað er þá til ráða svo tryggt verði að landsbyggðin njóti þeirrar tækniþróunar sem á sér stað og að kostnaður verði sem jafnastur? Við erum öll sammála um að á einhvern hátt þarf að tryggja það. Áherslurnar eru mismunandi en við erum öll sammála um að við þurfum að tryggja að landsbyggðin sem þéttbýlið eigi að hafa aðgang að þeirri tækniþróun sem á sér stað, á skikkanlegu verði á þeirri þjónustu sem er í boði.

Við höfum tilskipanir, til að mynda frá ESB sem tryggja jafnan aðgang að heimtaugunum. Við höfum fjarskiptalög sem eiga að tryggja hagkvæm og örugg fjarskipti og efla samkeppni. Reikisamningarnir í fjarskiptalögunum eru mjög mikilvægir og skipta gríðarlega miklu máli og hafa nú þegar sýnt og sannað gildi sitt. Við höfum Samkeppnisstofnun sem ætlað er að tryggja jafnan aðgang, góða þjónustu og skikkanlegt verð. Auk þess, eins og við þekkjum öll, er Póst- og fjarskiptastofnun.

Að mínu mati þarf að skerpa skilyrðislausan aðgang að fjarskiptanetinu og efla Samkeppnisstofnun og Póst- og fjarskiptastofnun þannig að þær geti raunverulega sinnt eðlilegu stjórnsýsluhlutverki sínu og stuðlað þannig að heilbrigðri samkeppni.

Það kom fram að Póst- og fjarskiptastofnun hefur t.d. aldrei beitt dagsektarákvæðum og kannski ekki ástæða til þess, hvað veit ég. En dagsektarúrræðin eru að mínu mati líklega skilvirkustu úrræðin sem sú stofnun hefur yfir að ráða. Það þarf mjög veigamiklar ástæður og brýna hagsmuni til að beita jafnörlagaríku úrræði og svipta stór fyrirtæki starfsleyfi. En ég held aftur á móti að dagsektarúrræði séu ákvæði sem eiga að vera sveigjanleg og vera stofnuninni til taks. Hún á að geta gripið til þeirra úrræða þegar svo ber undir.

Vissulega kom líka fram hjá nefndinni að margir samkeppnisaðilar Símans hefðu viljað sjá stofnunina taka hressilegar á málum en hún hefur gert fram til þessa. Því er að mínu mati afar brýnt í ljósi þess að við viljum efla og bæta samkeppnina að þessar stofnanir verði styrktar.

En það er ekki bara það að við getum stólað eingöngu á eftirlitsstofnunina. Aðhald markaðarins, aðhald neytenda, aðhald þeirra sem koma að því að kaupa þjónustuna verður líka að koma til. Þessar stofnanir verða sem sagt að hafa ótvírætt úrskurðarvald og sterk úrræði vegna reglubrota.

Meiri hlutinn leggur einnig til að áfram verði unnið markvisst að því að jafna kostnað og aðgang landsmanna að gagnaflutningsleiðunum með því að hæstv. samgrh. vinni tillögu þar að lútandi í samvinnu við samgn.

Ef við lítum aðeins til framtíðar, herra forseti, þetta eru svona vangaveltur af minni hálfu, þá er ég hins vegar sannfærð um að það komi fram að kostnaður við bandbreiddina verður sífellt minni en hann er í dag enda er allt sem bendir til þess. Ég veit að gert er ráð fyrir því að Ericsson sé að koma með á markað ákveðinn tæknibúnað sem gerir að verkum að aðgangur verður auðveldari fyrir neytendur, einmitt meiri bandbreidd. Hægt er að stækka ljósleiðarahringinn 30 sinnum á tiltölulega ódýran hátt. Það leiðir því af sjálfu sér að ekki verður hægt að réttlæta það að vegalengdin skipti máli. Hugsanlegt er að það sem verður verðlagt innan tíðar sé fjöldi þjónustustaða, það er mun líklegra, það sem haldið er úti í búnaði til að hafa þjónustuna á tilteknum stöðum. Mér finnst líklegra að það fari í þann farveg. En þetta eru einungis vangaveltur af minni hálfu.

Ég vil einnig benda á að í Bandaríkjunum hefur það verið mjög farsæl leið að heimila áskrift að gagnaflutningsnetum í staðinn fyrir að binda sig við vegalengd eða tíma heldur eingöngu áskrift og það hefur stuðlað að örri þróun og eflingu upplýsingatækniiðnaðarins.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég tel að hér sé um afar merkilegt mál að ræða sem er í eðlilegu samhengi við það sem gert hefur verið í íslensku efnahags- og atvinnulífi undanfarin ár og því til mikilla hagsbóta. Það er þjóðfélagslega hagkvæmt og því mikilvægt að klára það sem fyrst.