Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 21:53:49 (8045)

2001-05-17 21:53:49# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, samgrh.
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[21:53]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson):

Herra forseti. Hér hefur orðið nokkuð löng og umfangsmikil umræða í dag. Nefnd hafa verið nokkur atriði og þeim beint sérstaklega til mín þannig að ég tel rétt að koma inn á nokkur atriði og getur það vonandi orðið til þessa að auðvelda þá umræðu sem kann að verða hér á eftir.

Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir vakti athygli á þeirri skoðun sinni að henni fyndist skorta nokkuð á sannfæringarkraft okkar stjórnarliða þegar mælt væri fyrir þessum málum. Ég held að það mikill misskilningur og miklu fremur óskhyggja að svo sé því við fylgjum þessu máli fram af einurð og sannfæringu. Öll gögn sem lögð hafa verið hér fram vegna sölu á hlut í Símanum hafa verið unnin að undangenginni mikilli athugun og vandaðri vinnu (ÖJ: Trúarhita.) og jafnvel trúarhita. Hv. þm. Ögmundur Jónasson vekur athygli á því að trúarhitinn þarf að vera til staðar svo gott verk sé unnið. Það er jafnan þannig.

Engu að síður er býsna mikill áhugi í þjóðfélaginu fyrir þeirri breytingu sem mun fylgja því að almenningi og fjárfestum verði gefið færi á að eignast hlut í því merkilega fyrirtæki sem hér hefur verið svo rækilega til umræðu í dag.

Það vakti athygli mína í ræðu helsta talsmanns Samfylkingarinnar í þessari máli, í ræðu Lúðvíks Bergvinssonar, og það var ánægjulegt, að hann undirstrikaði mjög rækilega í sinni ræðu að Samfylkingin teldi að það ætti að selja Símann og hann væri sannfærður um að markaðsöflin ættu að ráða og að þau mundu tryggja best hagsmuni neytenda. Ég get að því leyti vísað til ágætrar ræðu hv. þm. um þau efni og vakið athygli hv. þm. Ögmundar Jónassonar á þeim rökstuðningi að markaðsöflin eru býsna mikilvæg fyrir neytendur. Það sjáum við hvern dag og ætti að geta verið svar við einum af hinum sjö punktunum sem hv. þm. spurðist fyrir um og vildi fá skýringar á.

Ég vek athygli á þessari afstöðu hv. þm. Lúðvíks Bergvinssonar vegna þess að þetta er mjög mikilvægt sjónarmið. Það er jafnframt mjög mikilvægt að standa þannig að málum að við tryggjum framvindu samkeppninnar. Hv. samgn. fór mjög vandlega yfir þau mál. Hún undirstrikar og leggur ríka áherslu á að þær stofnanir sem við treystum til þess að vinna að eðlilegri samkeppni hvað þetta varðar, þ.e. Fjarskiptastofnun og svo Samkeppnisstofnun, eiga mjög mikilvægt verk að vinna og samgn. undirstrikar það og leggur áherslu á að efla þurfi þær stofnanir sem allra mest svo þær geti unnið sitt verk.

Ég tek undir það sjónarmið samgn. og vænti þess að jafnvel fulltrúar og hv. þm. Vinstri grænna geti staðið með okkur í þeirri gjörð, enda heyrði ég að hv. þm. Ögmundur Jónasson hafði nokkrar áhyggjur af því að Póst- og fjarskiptastofnun sinnti ekki nægjanlega vel starfi sínu hvað varðar póstinn. Ég er ekki sammála því. En mér finnst ég heyra stuðning úr þeirri áttinni þegar kemur að því að standa við bakið á þessum stofnunum.

Hv. þm. Lúðvík Bergvinsson ræddi nokkuð kostnað við leigulínur og raunar fleiri. Það er alveg hárrétt sem hefur komið hér fram í dag að kostnaður við leigulínusambönd er allnokkur hér á landi eins og raunar annars staðar. Við í samgrn. höfum undir höndum upplýsingar um að þetta er mjög mismunandi þegar litið er yfir OECD-löndin. Kostnaður við leigulínur á Íslandi er engu að síður tiltölulega lágur þegar borið er saman við önnur lönd þó okkur finnist þetta hár kostnaður. Hér kom fram í dag sú krafa að leigulínukostnaður yrði óháður vegalengd. Í raun komi fram krafa, og ég held að hv. þingmenn Samfylkingarinnar ættu að hlusta rækilega á það sem ég segi núna, um sama verð fyrir allar leigulínur óháð vegalengd.

[22:00]

Þá kemur upp vandi sem endurspeglast m.a. í því að forsendur gjaldskrár vegna leigulínu eiga að vera kostnaðurinn við flutningana. Að einhverju leyti kemur vegalengd á milli staða þar inn í. Vakin hefur verið athygli á því, m.a. í nefndarálitum, að Danir hafi valið þann kostinn að hafa þak á þessu, að það væri miðað við vegalengd upp að 85 km og eftir það gilti sama verð. Norðmenn eru sagðir hafa 300 km viðmiðun og eftir það gildi sama verð. Þetta segir að fleiri glíma við þetta en Íslendingar. Það eru fleiri þjóðir, fleiri símafyrirtæki og væntanlega fleiri þjóðþing en okkar sem kljást við þetta vandamál. Forsendurnar í regluverkinu öllu eru að byggt sé á kostnaði við þessa flutninga þannig að símafyrirtækjunum sé ekki gert óeðlilega erfitt fyrir en jafnframt að þau geti ekki lagt kostnaðinn við þessa gagnaflutninga á einhverja aðra en þá sem nýta sér þjónustuna.

Ég tek fram að þetta er eitt af því sem við verðum að leysa. Það er undirstrikað alveg sérstaklega í nál. meiri hluta samgn. Við viljum og höfum lýst því yfir að unnið skuli að því að fjarskiptin verði okkur til hagsbóta um allt land og til þess að svo megi verða þarf að draga úr þessum kostnaði

Í skýrslu einkavæðingarnefndar eru rakin þau vandkvæði sem fylgja því að taka ekki tillit til kostnaðar vegna vegalegndar. Þar er vakin athygli á því að skoða þurfi sérstaklega hvort það beri fremur að miða þessa kostnaðarútreikninga við flutningsmagn en vegalengd. Ég tel eðlilegt að þetta verði ásamt mörgu öðru til skoðunar á næstunni þegar við leggjum á ráðin um hvernig tekist verði á við það mikilvæga verkefni að ná niður kostnaðinum við gagnaflutninga í landinu.

Fjarskiptalögin eru alveg skýr hvað það varðar að við höfum sama sambærilegt verð á almennri símaþjónustu og alþjónustu um allt land. Um það er ekki að deila. Hins vegar hefur Landssími Íslands komið vel til móts við óskir okkar um lægri gagnaflutningskostnað með þeim samningi milli mín og Símans, sem byggir á því að nýta svokallað ATM-net og hafa sama verð innan allra svæða og eitt og sama verð á milli svæða. Annars vegar er gert ráð fyrir því að að nýta þetta svokallaða ATM-net og Síminn gerir síðan ráð fyrir því að lækka megi kostnað með aukinni umferð og meiri notkun á þeim aðferðum við gagnflutninga sem ATM-netið býður upp á.

Ég vildi fara sérstaklega yfir þetta vegna þess að ég heyri að hv. þm. hafa áhyggjur af því að ekki takist að lækka þennan kostnað. Samgn. fjallaði vandlega um málið og eins og ég sagði áðan er farið yfir þetta í áliti nefndarinnar. Ég mun að sjálfsögu leggja mig fram um að vinna að þessu máli eins og við höfum gert hingað til í samgrn.

Ég verð að viðurkenna að það kom mér skemmtilega á óvart og ég var býsna ánægður með þá yfirlýsingu hv. þm. Ögmundar Jónassonar er hann sagði að öllum hafi verið það ljóst að Síminn yrði seldur. Við erum því ekki að boða nein ný tíðindi, ekki einu sinni hv. þm. Ögmundi Jónassyni. Það ætti að stytta allmikið leiðina og auðvelda okkur afgreiðslu þessa máls. Ég sé og heyri að menn hafa áttað sig mjög vel á þessu máli og þekkja sinn vitjunartíma í þessu efni.

Ég held að þetta sé rétt metið hjá hv. þm. Við getum ekki búist við því að ríkinu haldist uppi að setja fyrst löggjöf um frelsi í fjarskiptum og ætla síðan ríkinu að keppa af öllu afli við þá sem koma inn á þennan markað. Þetta er auðvitað hárrétt athugað hjá hv. þm. Það hlaut að koma að því að ríkið seldi hlut sinn í Símanum af þessum ástæðum. Þar af leiðandi hljóta þingmenn Vinstri hreyfingarinnar að ganga til liðs við okkur í þessu verki og standa þannig að þessari mikilvægu breytingu að hún verði okkur öllum til hagsbóta. Það er verkefni dagsins.

Ég held að þegar til kastanna kemur séum við öll á einum og sama báti. Við viljum byggja landið allt og nota til þess þau tæki sem duga og fjarskiptin eru þar á meðal. Við náum ekki miklum árangri í að bæta fjarskiptaþjónustuna í landinu nema við eflum samkeppni og náum niður kostnaði í þágu neytenda.

Svo ég fari nokkrum orðum um það sem hv. þm. Ögmundur Jónasson fór yfir í dag þá kvartaði hann undan því að við værum að selja þetta mikilvæga fyrirtæki. Hann vakti athygli á því að við hefðum mikinn arð af fyrirtækinu. Það er alveg rétt. Við höfum heilmikinn arð af fyrirtækinu. Það er eins með Landssíma Íslands og önnur fyrirtæki og margar stofnanir, t.d. lífeyrissjóði. Það verður að gera ráð fyrir því að fjármagnið sem er bundið í slíkum fyrirtækjum og stofnunum skili einhverju til eigandans.

Lífeyrissjóðirnir, svo við tökum þá sem dæmi, eiga allt undir því --- og þó aðallega þeir sem fá greiðslur úr lífeyrissjóði --- að það pund sé vel ávaxtað sem í þeim er. Það sama gildir að sjálfsögðu um fyrirtæki í eigu ríkisins eins og Landssímann. Við verðum að ætlast til þess að reksturinn gefi af sér það sem eðlilegt er að gera kröfu um þegar litið er til þess fjármagns sem er í fyrirtækinu. Það er mikið. Það er mikil eign fólgin í Símanum. Þess vegna er ekki óeðlilegt að við gerum þá kröfu að arðurinn sé ekki minni og helst meiri en við höfum haft af Símanum, ekki síst þegar við lítum til þess að verðið á þjónustunni sem hann hefur veitt er og hefur verið lágt, þegar borið er saman við það sem er hjá öðrum þjóðum. Á þetta þurfum við að líta.

Til viðbótar vil ég segja, vegna orða hv. þm., að salan á Landssímanum, hvernig svo sem hún fer fram, er í mínum huga tilfærsla á eignum ríkisins, frá því að vera eign í Landssímanum sem gefur tiltekinn arð yfir í fjármögnun annarra verkefna eins og ég sagði í andsvari, t.d. þeirra verkefna að lækka skuldir okkar, lækka vaxtagreiðslur, byggja upp samgöngukerfið, byggja upp uppýsingatæknina í þjóðfélaginu og hvað annað sem við getum nýtt söluandvirði Símans til. Aðalatriðið er að við veljum rétta tímann til sölunnar þannig að við fáum eðlilegt verð, röskum ekki stöðu markaðarins, höfum ekki óeðlileg áhrif á efnahagslífið o.s.frv. Ég undirstrika að þó að Síminn hafi gefið góðan arð þá á það ekki að vinna gegn áformum okkar um að selja fyrirtækið.

Þá kem ég að öðru sem hv. þm. Ögmundur Jónasson gerði að umtalsefni í dag, þ.e. að við ætluðum bara að selja þann hluta Símans sem gefur arð. Nú er það svo að við höfum tilteknum skyldum að gegna sem m.a. er fjallað um í fjarskiptalögunum. Við höfum t.d. skyldum að gegna varðandi öryggismál sjómanna. Ég lít svo á að það sé fullkomlega eðlilegt að sú þjónusta sem Síminn hefur veitt á undanförnum árum og símnotendur hafa greitt sé tekin út og raunkostnaðurinn við hana greiddur af almannafé. Það höfum við gert. Við höfum gert samninga um svokallaða strandstöðvaþjónustu sem Síminn hefur áður veitt og ríkið greiðir það beint.

Ég geri ekki ráð fyrir því að við hefðum getað gert kröfu til þess að Íslandssími eða Tal tækju að sér að sinna fyrir okkur strandstöðvaþjónustu án endurgreiðslu, þ.e. öryggisþjónustu við flotann á höfunum. Þess vegna förum við þá leið að við tökum það sem ekki er hægt að innheimta gjald fyrir í fjarskiptaþjónustunni og greiðum beint úr ríkissjóði en seljum það ekki með Símanum. Þess vegna er þetta svona. Við seljum Símann eins og hann er án þess að honum fylgi sérstök skylda, svo sem þessi almannaþjónusta sem gerð hefur verið að umtalsefni.

Virðulegi forseti. Ég hef farið yfir nokkur atriði. Sem betur fer voru ekki margir stórir þættir sem mér fannst verulegur ágreiningur um. Þar væri helst að nefna kröfu hv. samfylkingarþingmanna um að aðskilja grunnnetið frá fyrirtækinu. Ég fór yfir þá hlið málsins í framsöguræðu minni við 1. umr. og sé ekki ástæðu til að endurtaka það. Hv. þm. Hjálmar Árnason fór vandlega yfir rökstuðninginn fyrir því í ágætri ræðu í dag að við viljum ekki skilja grunnnetið frá fyrirtækinu. Við fengum ágæta sérfræðinga til að skoða það og niðurstöðu þeirra má lesa í einkavæðingarnefndarskýrslunni. Ég ætla ekki að endurtaka það, enda var það rætt við 1. umr.

Hv. þm. Ögmundur Jónasson áttaði sig ekki á því að markaðsöflin gætu aukið samkeppni og skilvirkni í þjóðfélaginu, svo ég fari í fyrsta atriðið sem hann tók fyrir úr skýrslu einkavæðingarnefndarinnar, þ.e. úr rökstuðningnum fyrir sölu á hlut ríkisins í Símanum. Ég held að það þurfi ekki langan fyrirlestur um að markaðsöflin hafa býsna góð áhrif á samkeppni í þjóðfélaginu. Aukin samkeppni skapar skilvirkni. Það er grundvallaratriði í hagfræðinni sem ég geri ráð fyrir að hv. þm. hafi lesið um í gegnum tíðina þannig að það þarf ekki að skýra það frekar.

Varðandi pólitísk áhrif í fyrirtækjum, sem einnig er minnst á í skýrslunni, þá er krafa nútíðarinnar sú, í öllu því regluverki sem við höfum komið upp, að stjórnmálamenn séu ekki á vettvangi á samkeppnismarkaði. Þess vegna leggjum við mikla áherslu á að draga okkur út úr þessum rekstri með því að undirbúa sölu á hlut ríkisins í Símanum. (ÖJ: Og svari því Skagfirðingar.) Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur hugann mjög við Skagfirðinga um þessar mundir. Ég skal segja honum að ég held að það séu mörg erfiðari viðfangsefni sem bíða mín en þau að tryggja póstþjónustu í Skagafirði. Ég er sannfærður um að ýmsir verða tilbúnir að standa með mér í því verki. (Gripið fram í.) Ég þarf ekki sérstakar leiðbeiningar úr þeirri átt sem nú er kallað.

Að bæta stöðu ríkissjóðs, var fjórða markmiðið sem talið var upp sem rök fyrir sölunni. Ég held að með því að selja hlut ríkisins í Símanum megi bæta stöðu ríkissjóðs og það fer ekki á milli mála. Hvernig? Jú, við lækkum skuldir og styrkjum stöðu ríkissjóðs.

Hagur neytenda er sérstaklega tiltekinn sem fimmta markmiðið, svo ég fari yfir þau atriði sem hv. þm. vakti máls á. Hagur neytenda á mikið undir því að á komist öflug samkeppni á þessum markaði. Við trúum því að með því að kalla til eigendur að Símanum, fleiri eigendur, almenning, lífeyrissjóði o.fl., þá verði krafan enn þá harðari um öfluga markaðsstarfsemi og það muni koma neytendum til góða.

Öflug og framsækin símafyrirtæki skipta miklu máli fyrir stöðu starfsmanna. Það er sjötta atriðið, sem hv. þm. þekkir mjög vel, sem nefnt er á bls. 14 í einkavæðingarnefndarskýrslunni. Þar er talað um að við leggjum áherslu á að styrkja stöðu starfsmanna með aðgerðum okkar. Það getur ekki annað verið en að hv. þm. sé reiðubúinn að standa með okkur í slíkum aðgerðum. Við erum sannfærðir um að Síminn, eins og hann er rekinn í dag og eins og við gerum ráð fyrir að hann verði rekinn, muni styrkja stöðu starfsmanna sinna og reyndar hjá símafyrirtækjunum almennt.

Þetta eru helstu atriðin sem ég vildi nefna, vegna þeirrar löngu ræðu sem hv. þm. Ögmundur Jónasson flutti þar sem hann vitnaði sérstaklega til einkavæðingarnefndarskýrslunnar.

Herra forseti. Ég hef farið yfir þau atriði sem ég vildi undirstrika sérstaklega eftir umræðuna sem farið hefur fram í dag. Ég vænti þess að það geti orðið til þess að auðvelda mönnum að ljúka þessari umræðu í kvöld.