Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 22:23:38 (8049)

2001-05-17 22:23:38# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. 1. minni hluta LB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[22:23]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að ástæða sé til að þakka hæstv. ráðherra fyrir að sitja hér allan þennan tíma og kveinka sér ekki. Ástæðan fyrir því að ég óskaði eftir að veita hæstv. ráðherra andsvar er yfirlýsing sem kom fram hjá honum áðan um að við værum sammála um að virkja markaðinn til þess að ná fram ákveðnum árangri. Hins vegar skilur mjög á milli okkar í þeim efnum þar sem við í Samfylkingunni gerum kröfu til þess og segjum einfaldlega þetta: Markaðurinn virkar ekki nema samkeppni sé þar tryggð. Samkeppni verður ekki til af sjálfu sér heldur þurfa til að koma ákveðnar aðgerðir.

Því spyr ég hæstv. ráðherra: Finnst honum líklegt að samkeppni sé tryggð þar sem eitt fyrirtæki hefur samkvæmt hans eigin orðum 85% hlutdeild í tekjum á þessum markaði? Finnst hæstv. ráðherra líklegt að sala á slíku fyrirtæki í einu lagi tryggi samkeppni?