Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 22:24:54 (8050)

2001-05-17 22:24:54# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, samgrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[22:24]

Samgönguráðherra (Sturla Böðvarsson) (andsvar):

Herra forseti. Sú var tíðin að þetta fyrirtæki hafði 100% markaðshlutdeild. (Gripið fram í.) Það var Póst- og símamálastofnun. Skylt er skeggið hökunni, eins og þar stendur. Þetta hefur verið að breytast. Við getum litið til þess að nú stunda þrjú símafyrirtæki rekstur á GSM-símamarkaði. Hvers vegna skyldi það vera? Jú, vegna þess að við settum fjarskiptalög sem skapa þessum símafyrirtækjum skilyrði með svokölluðum reikisamningum til að fara inn á hvers annars kerfi. Þannig byggjum við upp samkeppni. Það er bullandi samkeppni hjá þessum fyrirtækjum á GSM-símamarkaði.

Fastlínukerfið hins vegar er svolítið öðruvísi og þar er Landssíminn með ráðandi markaðshlutdeild. Ég geri ráð fyrir því að í tímans rás muni það breytast. Íslandssími er að bjóða út núna, óhræddur, hlutabréf til þess að fara í samkeppni við Landssímann og ég spái því að Landssíminn þurfi að hafa sig allan við í framtíðinni til þess að glíma við þá aðila sem þar koma.