Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 22:37:47 (8059)

2001-05-17 22:37:47# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. 1. minni hluta LB
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[22:37]

Frsm. 1. minni hluta samgn. (Lúðvík Bergvinsson):

Virðulegi forseti. Þessi umræða hefur staðið nokkuð lengi og er því ekkert óeðlilegt þó maður hugleiði eftir að umræðan hefur staðið í u.þ.b. tíu tíma eða svo hvernig á því standi að maður hefur enn þá skoðun að enn hafi ekki komið fram trúverðug rök fyrir því að sú leið sem ríkisstjórnin ákveður að fara, muni leiða til og ná þeim markmiðum sem að er stefnt.

Það er kannski dálítið sérstakt og ekkert óeðlilegt að menn séu ögn vonsviknir eftir alla umræðuna því lítið sem ekkert hefur komið fram sem gerir það að verkum og réttlætir að sú leið sé farin sem hér er lagt til.

Í nál. meiri hluta samgn., sem er vægt til orða tekið heldur rýrt í roðinu, er rétt rúm blaðsíða að lengd, er að finna meginrökin fyrir þeirri leið sem ákveðið var að fara, þ.e. að selja fyrirtækið í einu lagi.

Ég held að sé alveg nauðsynlegt á þessum tímapunkti þar sem ríkisstjórnin og talsmenn hennar, hv. þm., hafa núna haft tíu tíma til að koma sjónarmiðum sínum á framfæri, pólitík sinni í þessum efnum, þeirri hugmyndafræði sem þeir byggja á og þeim markmiðum sem að er stefnt með framlagningu frv., að fara yfir nokkur af þeim rökum sem finna má í nál. meiri hlutans og fjalla aðeins um þau.

Eins og fram hefur komið í umræðunni gerðu gestir sem á fund samgn. komu verulegar athugasemdir við þá aðstöðu og þá stöðu sem landsbyggðin er í og mun verða í í fyrirsjáanlegri framtíð í fjarskiptamálum. Í nál. meiri hlutans segir, með leyfi forseta, um þetta atriði:

,,Meiri hlutinn telur nauðsynlegt að áfram verði unnið markvisst að því að jafna kostnað og aðgang landsmanna að öflugustu og hagkvæmustu gagnaflutningsleiðum, eins og tæknin þróast á hverjum tíma óháð vegalengd.``

Þessu til viðbótar er það tínt til að samgrh. vinni í samstarfi við samgn. tillögur um að jafna kostnað við gagnaflutninga og þar með samkeppnisstöðu fyrirtækja um allt land og skal þeirri vinnu verða lokið fyrir árslok 2001.

Í raun og veru er ekkert handfast að finna um hvernig eigi að tryggja landsbyggðinni sambærilega eða svipaða eða nægilega stöðu til að hún sitji ekki eftir í þeirri öru þróun sem hefur verið á þessu sviði og mun augljóslega verða áfram á næstu árum. Í raun og veru er ekkert handfast í þeim efnum að tryggja þessa stöðu. Hefðu menn meint eitthvað af því sem hér er sagt og viljað ná einhverjum árangri hefðu menn opnað fjarskiptalögin og tryggt að alþjónustukvöðin sem er núna m.a. kveðið á um að sé 128 Kb yrði aukin. Það væri eina leiðin sem hægt væri að fara og nauðsynlegt er að fara áður en Síminn er seldur ef menn meintu eitthvað með þessu.

Hvernig ætla menn að taka á alþjónustukvöðinni á næstu árum eftir að Síminn verður seldur? Jú, menn hafa velt upp þessari leið og líka þeirri að það eigi að fara gömlu hugsanlegu sjóðasukksleiðina. Það skuli taka eitthvað af fjármununum, setja í sjóð og nota hugsanlega til þess að byggja eitthvað upp. Þetta er sú leið sem meiri hlutinn hyggst fara.

Ekkert í þessu segir til um hvaða aðstöðu eigi að tryggja, hvað eigi að byggja upp eða hvernig eigi að standa að því. Þetta eru hugmyndir eða væntingar um að hugsanlega verði eitthvað gert í framtíðinni.

Ég hlýt að beina þeirri spurningu til meiri hlutans, af því meiri hlutinn er í þessu tilviki að opna fjarskiptalögin því lítið frv. sem fylgir þessu frv. er einmitt frv. til breytinga á fjarskipalögunum:

Af hverju var ekki farið í það núna að víkka út alþjónustukvöðina?

Af hverju var ekki farið í að setja eitthvert gólf svo þeir sem kaupa fyrirtækið, þeir sem kaupa hlutaféð viti að hverju skuli stefnt, þeir viti hvaða skilyrði þeir þurfa að uppfylla í framtíðinni?

Af hverju eru mörkin sett við eitt prómill af landsbyggðinni miðað við það sem boðið er upp á á höfuðborgarsvæðinu núna?

Af hverju hafa menn ekki meiri metnað á þessu sviði?

Það er ekki nokkur spurning að ef landsbyggðin á að vera samkeppnishæf þarf að tryggja aðganginn að því að geta tekið þátt í fjarskiptabyltingunni. Það gerist ekki með 128 Kb. Það liggur alveg fyrir.

En einu hugmyndirnar sem koma fram eru þessar: Að samgrh. beiti sér í samstarfi við samgn. Ég get þó gefið þá yfirlýsingu að ekki mun standa á mér að hjálpa til við það að einhvern tímann í framtíðinni skuli eitthvað vera gert og einhverjir peningar skuli notaðir úr hugsanlegum sjóðum til að framkvæma eitthvað. Það er allt og sumt. Það er allt og sumt sem lagt er til í þessum efnum.

Það hefði nefnilega verið einfaldasta málið núna að hækka þessa alþjónustukvöð og gera þetta þannig úr garði að kaupendur fyrirtækisins vissu þá að hverju væri stefnt.

Ég spyr: Telja menn sjálfgefið og einboðið að menn hafi möguleika á því að setja hinu nýja fyrirtæki ef svo má að orði komast, hinum nýju eigendum skilyrði í framtíðinni að þeir skuli sjá til þess að öll heimili í landinu hafi aðgang að tilteknu lágmarkssambandi? Það er ég ekki viss um. Þess vegna hefði verið miklu skynsamlegra og miklu heiðarlegra að festa þetta í sessi núna þannig að menn vissu hvað þeir væru að kaupa í þessum efnum. Það klór yfir þann vandræðagang sem er að finna í þessu áliti er þess eðlis að ekki er hægt að taka það mjög hátíðlega.

[22:45]

Virðulegi forseti. Í öðru lagi, önnur rök sem meiri hlutinn leggur fram, er hvernig menn ætla að tryggja að hér verði samkeppni. Þetta er eitt þeirra atriða sem hefur verið rætt hvað mest í dag. Þetta er eitt þeirra atriða sem skiptir hvað mestu máli. Þetta er það atriði sem gerir það að verkum að Samfylkingin getur ekki staðið að þeirri hugmynd sem ríkisstjórnin kemur hér fram með. Og hvað ætla menn að gera til þess að tryggja samkeppni? Það er eftirlit. Það á að beita tveimur stofnunum í líki einhvers konar löggæslu til þess að tryggja að samkeppni fari fram, samkeppni gagnvart fyrirtæki sem hefur 85% markaðshlutdeild.

Virðulegi forseti. Ég hefði nú viljað að hæstv. ráðherra væri í salnum rétt á meðan --- hann er kominn.

(Forseti (HBl): Forseti hefur séð hæstv. ráðherra í salnum síðan hv. þm. tók til máls, ef maður telur það salinn þó menn rétt gangi yfir þröskuldinn hér í hliðarherberginu.)

Virðulegi forseti. Mér sýndist hæstv. ráðherra vera að yfirgefa salinn. Það hefur sennilega verið missýn hjá mér.

Hæstv. ráðherra sagði í andsvari áðan að það væri alveg fráleitt að ríkið væri að beita sér af öllu sínu afli á samkeppnissviði, það væri alveg fráleitt.

Mér komu í hug nokkrar umræður utan dagskrár og ýmislegt sem hér hefur farið fram þar sem menn voru að vekja eftirtekt á því hvernig Landssíminn í skjóli ríkisvaldsins var að hegða sér á markaði. Ég verð að segja, virðulegi forseti, að þessi yfirlýsing gladdi mig kannski meira en flesta aðra hér inni. Hún þýddi það að hæstv. ráðherra var smám saman að skilja út á hvað þetta gekk allt saman á sínum tíma. Ég sé það á svipbrigðum hæstv. ráðherra að ég dreg rétta ályktun sem af þessum orðum. Menn skyldu þá ekki gera lítið úr því að dropinn holar steininn í þessum efnum.

En burt séð frá því. Til staðar eru tvær stofnanir, Póst- og fjarskiptastofnun annars vegar og Samkeppnisstofnun hins vegar, og þær eiga að tryggja að þessi risi hegði sér þannig að hann misnoti ekki markaðsráðandi stöðu sína.

En hvað segja svo sérfræðingarnir á þessu sviði? Hvað skyldu þeir nú segja um þessa aðferðafræði? Hvað skyldi Samkeppnisstofnun segja um þetta? Hún hafnar þessu alfarið. Hún telur að eina leiðin til þess að tryggja að menn misnoti ekki markaðsráðandi stöðu sé sú að breyta markaðsgerðinni.

Þetta segja sérfræðingarnir sjálfir sem eiga þó að sinna þessu eftirliti. Samkeppnisstofnun leggur reyndar upp eina þrjá eða fjóra möguleika í þeim efnum að breyta markaðsgerðinni. Ein þeirra er að selja netið. En stofnunin segir líka að það sé mjög ólíklegt þegar slíkur risi er á markaði að hægt sé að tryggja samkeppni með eftirliti eftir á, þ.e. þegar menn hafa misnotað markaðsstöðu sína.

Þetta segja sérfræðingarnir sjálfir um þetta. Ég held það sé rétt, virðulegi forseti, að ég lesi upp úr þessu áliti fyrir hæstv. ráðherra vegna þess að hann og talsmenn ríkisstjórnarinnar í þessu hafa tönnlast dálítið á þessu atriði, að þar með sé tryggt að þetta markmið náist. Sérfræðingarnir segja nei.

Með leyfi forseta ætla ég að lesa upp hvað þeir segja nákvæmlega um þetta:

,,Stofnunin telur enn nauðsynlegt að grípa til hliðaraðgerða í tilefni af sölu Landssímans. Eins og nánar er rakið í minnisblaði stofnunarinnar til einkavæðingarnefndar geta slíkar hliðaraðgerðir falist í aðskilnaði grunnfjarskiptanets frá Landssímanum, sölu breiðbandsins og/eða breytinga á fjarskiptalögum í því skyni að kveða á um afdráttarlausan rétt keppinauta til aðgangs að grunnnetinu. Jafnframt telur stofnunin æskilegt að öll meginsvið samkeppnisrekstrar Landssímans séu rekin í sérstökum félögum.``

Með öðrum orðum kom skýrt fram hjá fulltrúa stofnunarinnar sem kom fyrir nefndina, að hann taldi mjög ólíklegt að menn gætu náð þessu markmiði, og ég ítreka að miklu skynsamlegra er að breyta markaðsgerðinni. Það er miklum mun skynsamlegra.

Þess vegna hefur verið dálítið leiðigjarnt um margt að hlýða á meiri hlutann í ræðum sínum hér í dag tönnlast sí og æ á að þessi aðgerð tryggi að þetta markmið náist þegar meira að segja þeir sem fá tvo eða þrjá starfsmenn --- það fleytti Framsókn yfir erfiðustu hjallana að það á að ráða tvo eða þrjá starfsmenn í hvora stofnun --- meira að segja þeir segja: ,,Þetta er ekki hægt.`` (Gripið fram í: Þeir verða þá bara að hætta.) Það mundi nú gleðja íhaldið því fátt hefur sennilega reynst íhaldinu erfiðara í tilvist sinni en að þurfa að lúta því að á markaðnum gildi ákveðnar leikreglur.

Það var líka dálítið sérstakt er hæstv. ráðherra talaði um markaðsöflin í andsvari sínu áðan. Hann nefndi m.a. sérstaklega hv. þm. Ögmund Jónasson í þeim efnum og sagði að hann hefði örugglega lesið það líka að markaðsöflin tryggðu samkeppni. Það sagði hæstv. ráðherra. Þetta er grundvallarmisskilningur. Markaðurinn er í sjálfu sér ekkert annað en verðmyndunartæki þar sem framleiðendur og kaupendur hittast og kaupin fara fram. Til að tryggja eðlilega verðmyndun á markaði þarf að vera nægilegt framboð á markaði. Þá þarf að vera nægilegt aðgengi að þessum markaði. Það þarf líka að tryggja að neytendur hafi aðgengi að þessum markaði. Það þarf að tryggja að það séu nægilega margir framleiðendur til þess að menn hafi val á þessum markaði. Það er við slíkar aðstæður, þar sem samkeppni ríkir, sem markaðurinn virkar.

Hæstv. ráðherra þarf í sjálfu sér ekki að fara langt í upprifjun sinni að því er varðar fréttaflutning undanfarnar vikur þar sem í ljós hefur komið að samkeppnin óx ekki af sjálfu sér. Skýrsla Samkeppnisstofnunar og rannsóknarstarf Morgunblaðsins um grænmetismarkaðinn hafa sýnt og sannað að þar sem ekki er aðhald, þar sem ekki er samkeppni fara menn einfaldlega þá leið að nýta sér stöðu sína til þess að fá hærra verð og notfæra sér markaðsráðandi stöðu. Við höfum séð þetta líka í smásöluversluninni. Því er alveg ljóst ef menn ætla að tryggja að markaðurinn virki, virki fyrir neytendur, virki fyrir framleiðendur, að tryggja þarf samkeppnina og það gerist ekki af sjálfu sér. Þar skilur okkur hæstv. samgrh. að. Það er nákvæmlega þetta sem skilur okkur að og þess vegna hefur mér þótt, eins og ég sagði hér áðan, leiðinlegt að hlýða á það að þetta eigi að tryggja hlutina án þess að færð séu nein góð og gild rök fyrir því, því full ástæða er til þess þegar menn halda slíku fram þegar sérfræðingarnir allir eru á öðru máli. Við hljótum að gera kröfu til þess að menn setji a.m.k. fram rök sín en tönnlist ekki á einhverjum frösum um að löggæslusveitir muni sjá til þess að þessi markmið náist.

Virðulegi forseti. Ég hafna því alfarið að sú leið sem ríkisstjórnin ætlar að fara í þessum efnum til að tryggja að þessi markmið muni nást.

Þess vegna hef ég dregið þá ályktun og fleiri hafa gert það hér í dag að verið sé að selja ríkiseinokun og í stað ríkiseinokunar komi einkaeinokun. Það er að mörgu leyti miklu verri einokun vegna þess að þegar slík staða er verður arðsemiskrafa eigendanna miklu hærri eðli málsins samkvæmt. Það er eðlilegt því þeir hafa algjör yfirráð á þessum markaði.

Við hljótum að gera þá kröfu til meiri hlutans á hinu háa Alþingi að hann færi rök fyrir því hvar sérfræðingarnir eru á villigötum. Hvar misskildu þeir hugmyndafræði og pólitík ríkisstjórnarinnar? Það er algert grundvallaratriði að þetta komi fram, annars falla orð þeirra dauð og ómerk.

Virðulegi forseti. Þá eru ekki síður umhugsunarverð rökin að með því að selja fyrirtækið í einu lagi fáist meira fyrir það. Eiginlega hef ég skilið ríkisstjórnina og talsmenn hennar, hv. þingmenn, þannig að það fengist meira fyrir fyrirtækið en að selja ekki tiltekna hluti, þ.e. það fengist meira fyrir fyrirtækið við að selja það í einu lagi en að selja allt nema grunnnetið. Það má færa góð og gild rök að þeirri niðurstöðu að eftir því sem þeir selja meira hljóti þeir að fá meira.

Ég held að við getum alveg tekið undir þetta. Ég held að full ástæða sé til að taka undir þetta að því leytinu til að selji menn ekki alla hluti, ekki allt úr fyrirtækinu, fái menn minna en að selja allt. Það er í sjálfu sér engin lógík.

En ekkert liggur fyrir um það að menn fái meira fyrir fyrirtækið með þessum hætti en að skipta því upp eins og m.a. Samkeppnisstofnun leggur til. Það sem er að gerast núna úti í Evrópu og í Bandaríkjunum er að fjárfestarnir, eigendurnir, telja að það þjóni hagsmunum sínum betur að skipta fyrirtækjum upp. Af hverju? Einfaldlega vegna þess að menn fá meira út úr fjárfestingunni. Og hvað eru þeir þá að segja? Þeir eru að segja: Fyrirtæki er verðmætara hver deild í sínu lagi en fyrirtækið í einu lagi. Þetta er grundvallaratriði. En samt sem áður tönnlast ríkisstjórnin og talsmenn hennar á því að fyrirtækið sé verðmeira í einu lagi en með því að búta það upp. Það er alveg sama með þetta og samkeppnisrökin frægu að það er engin alvöru rök færð fram fyrir þessu, ekki nokkur.

Maður kallar það fátækleg og aum rök sem meiri hlutinn setur fram í áliti sínu sem er upp á rúmlega heila síðu. Það er allt og sumt sem menn telja ástæðu til að skrifa þegar verið er að ráðast í stærstu einkavæðingu sem farið hefur verið í, stærstu einstöku sölu. Þá þarf ekki að rökstyðja það betur en með þrennum, fernum rökum og þetta er rétt rúm síða. Það er allt og sumt. Jafnvel þó hér sé farið gegn flestum sérfræðingum sem hafa tjáð sig þá breytir það engu, það eru bara gömlu góðu rökin: ,,Við erum fleiri``, og ,,af því bara``. Það er allt og sumt. ,,Við ráðum.`` Það er allt og sumt. ,,Afleiðingarnar eru algjört aukaatriði. Okkur langar bara að hafa þetta svona.`` Einu sinni langaði Framsókn að hafa það öðruvísi, en svo fengu þeir tvo starfsmenn í Samkeppnisstofnun og tvo starfsmenn í Póst- og fjarskiptastofnun og þar með var óttinn við Microsoft-ástand fyrir bí. (Gripið fram í.) Þetta var algjör snilld.

Virðulegi forseti. Ég held að ég megi til með að óska sjálfstæðismönnum til hamingju með þetta.

[23:00]

Það er full ástæða til þess. (Gripið fram í: Að taka á móti hamingjuóskum.) Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, að ef hann hefði boðið framsóknarmönnum fjóra starfsmenn hefði ekki þurft að hafa frekari áhyggjur af stjórnarsamstarfinu næstu tíu árin.

Virðulegi forseti. Af því hæstv. forseti situr í salnum og gætir þess að umræðan fari vel fram, þá sagði sá hv. þm. sem þá var samgrh., Halldór Blöndal, fyrir átta, níu árum eða svo eitthvað á þá leið, að þrátt fyrir að fyrirtækið yrði selt teldi hann æskilegt að ríkið ætti a.m.k. helming í fyrirtækinu. (Gripið fram í: Ansi ert þú minnugur.) Þetta var fyrir nokkrum árum. En allt er í heiminum hverfult og líka afstaða hinna ýmsustu manna og þá ekki síst Framsfl. sem fyrir nokkrum mánuðum óttaðist ekkert meira en íslenskt Microsoft-ástand. En óttinn hvarf. Þeir fengu fjóra starfsmenn.

Já, virðulegi forseti. Vegir Framsfl. eru órannsakanlegir og verður sennilega ekki gerð tilraun til þess hér að rannsaka þá vegi.

Í þessari stuttu ræðu minni hef ég farið yfir helstu rök meiri hlutans í þessu. Og því miður stendur ekki steinn yfir steini í þeirri röksemdafærslu, hvergi nokkurs staðar. Eiginlega er kæruleysið svo mikið að ekki er einu sinni gerð ærleg tilraun til að rökstyðja þetta. Auminga hv. þm. Hjálmar Árnason kom hér í dag og flutti held ég hátt í klukkutíma ræðu þar sem hann var að reyna að gera grein fyrir breyttu viðhorfi sínu til þessa máls. Þar taldi hann m.a. að ATM-kerfið, ATM-netið mundi leysa öll vandamál sem væru fram undan. En ég held að rétt sé að það komi fram og sé a.m.k. skráð í þingtíðindi að ATM-kerfið er byggt ofan á grunnnetið. ATM-kerfið kemur ekki í staðinn fyrir grunnnetið. Það er byggt ofan á grunnnetið. Best að það liggi alveg fyrir í umræðunni. Það er alveg ástæðulaust að röksemdafærsla af þessum toga standi eftir.

Ég vil hins vegar segja um hæstv. ráðherra, sem af einhverjum ástæðum mér óskiljanlegum hefur horfið tímabundið úr sal, ég vænti þess að hann sé í nágrenninu sem og reynist rétt vera, enda hæstv. ráðherra búinn að sitja mjög ötullega yfir umræðum í dag og á allt gott skilið með það, að hæstv. ráðherra var þó miklu ærlegri í andsvari sínu áðan þegar hann var spurður um samkeppnina. Hann fór ekki þá leið að halda því fram að það yrði einhver sérstök samkeppni í heimtaugakerfinu. Hæstv. ráðherra var ekkert að halda því fram að líkur stæðu til þess að eitthvert fyrirtæki hér færi að grafa 135 þús. heimtaugalínur til að keppa við Landssímann um aðgang að neytendum. Hæstv. ráðherra sagði einfaldlega eins og rétt er: Eini möguleiki þessara nýju fyrirtækja til að komast að neytendum, þ.e. einstaklingum og fyrirtækjum, er að semja við Landssímann. Það er engin önnur leið þannig að Landssíminn mun sitja að öllum viðskiptaleyndarmálum þeirra sem eru að reyna að selja neytendum. Og þegar ég nota orðið neytendur á ég við einstaklinga og fyrirtæki, fjarskiptaþjónustu.

Hæstv. ráðherra var heldur ekkert að reyna að halda því fram að grunnnetskerfi í þráðlausum símtölum væri í einhverri raunverulegri samkeppni við grunnnetið. Það hvarflaði ekki að hæstv. ráðherra, enda veit hann betur.

En hv. þm. Hjálmar Árnason sem hér kom fyrr í dag leyfði sér þann munað að reyna að rökstyðja þann snúning sem hann hafði tekið í afstöðu til þessa máls með því að verið væri að grafa meira upp allt landið því allir væru á leiðinni í keppni, í að keppa á grunnþjónustukerfunum. Það verður að segja alveg eins og er að mjög ólíklegt er að af því verði. Það er mjög ólíklegt að af því verði og það er mjög ólíklegt að einhver veruleg samkeppni verði á landsbyggðinni. Hins vegar gæti orðið samkeppni ef svo má að orði komast í heildsöludreifingu, þ.e. menn muni leggja ljósleiðara á milli kaupstaða. Það er kominn ljósleiðari til Vestmannaeyja. Hugsanlega verður einhvern tímann lagður ljósleiðari til Akureyrar. En að menn muni grafa inn til einstaklinga og fyrirtækja þykir mér vægast sagt heldur ólíklegt þannig að raunveruleg samkeppni á þessu sviði, þ.e. í grunnþjónustunni, er mjög ólíkleg. Þess vegna eiga menn ekki að tala um þessa hluti á þessum nótum.

Ég vil einnig nefna það, virðulegi forseti, af því starfsmannafélag Landssímans kom aðeins til tals fyrr í þessari umræðu að það vita allir að þetta mál kom mjög seint fram. Það vita líka allir að málið fékk mjög takmarkaða yfirferð í samgn. tímans vegna. En ég vil þó halda því til haga að allt sem óskað var eftir kom og allir sem óskað var eftir að kæmu á fund nefndarinnar komu. En það breytir ekki því að það var mjög skammur tími sem við höfðum til stefnu og umfjöllunin markaðist af því.

Starfsmannafélagið eða fulltrúar þess komu á fund nefndarinnar, en þeir voru ekki að tala fyrir starfsmannafélagið. Ekki hafði gefist neinn tími til þess að halda fund í stjórn starfsmannafélagsins. Það hafði ekki verið neinn tími til þess að halda fund með starfsmönnum þannig að þeir komu aðeins á þennan fund sem formaður og gjaldkeri og gerðu ágætlega grein fyrir sjónarmiðum sínum. Þau höfðu enga skoðun á því hvort ætti að aðgreina grunnnetið eða ekki. Aðspurð sögðu þau að þau teldu að flestum starfsmönnum litist vel á þetta sökum þess að líklegt væri að þeir gætu fengið að kaupa hlutabréf sem hugsanlega ættu eftir að hækka í verði. Þetta voru þau sjónarmið sem komu fram, enda höfðu þau hvorki umboð né tíma eða tækifæri til þess að kynna önnur viðhorf.

Satt best að segja, þegar menn fóru fyrr í dag að draga starfsmannafélagið inn í þessa umræðu, fannst mér það ekki sanngjarnt. Það var á engan hátt sanngjarnt vegna þess að starfsmannafélagið hafði ekkert umboð til að kynna neina afstöðu eða nein viðhorf.

Við sjáum það líka af því ég nefni þetta sérstaklega að þeir sem gáfu skriflegar umsagnir höfðu þrjár, fjórar, fimm klukkustundir til þess. (ArnbS: Þá hlýturðu að draga önnur sjónarmið... í efa sem hafa komið þarna fram hjá gestum. Nú eru ekki allir með stjórnarsamþykkt á bak við sig.) Virðulegi forseti. Þetta var ágætis frammíkall hjá hv. þm. Arnbjörgu Sveinsdóttur, enda hef ég að öðru leyti ekki nefnt þá sem komu á fund nefndarinnar. En hins vegar, af því hv. þm. situr í samgn. og sat þessa fundi líkt og ég, þá getur hv. þm. vottað að stór meiri hluti þeirra sem komu á fund nefndarinnar taldi að skilja ætti grunnnetið frá. Stór meiri hluti þeirra sem komu á fund nefndarinnar taldi að skilja ætti grunnnetið frá.

Það vill nú þannig til að ég er hér með meirihlutaálitið. Við skulum bara fara yfir það hvað menn sögðu. Ég held að ágætt sé að við gerum það. Síðan geta menn dregið í dilka.

Tveir þeir fyrstnefndu sem mættu voru starfsmenn framkvæmdanefndar um einkavæðingu. Þeir töldu ekki ástæðu til þess að skilja að.

Síðan mættu fulltrúar Landssíma Íslands, Þórarinn V. Þórarinsson og Friðrik Pálsson. Þeir töldu að ekki ætti að skilja að.

Síðan komu fulltrúar frá starfsmannafélagi Landssíma Íslands. Þeir höfðu enga skoðun á þessu máli. (Gripið fram í.) Þeir höfðu enga skoðun á þessu máli, hv. þm.

Síðan kom Þórólfur Árnason frá Tali. Hann taldi að það ætti að selja fyrirtækið þannig að um væri að ræða einhvers konar yfirstjórn og aðskilja síðan einstaka þætti eins og Samkeppnisstofnun leggur nákvæmlega til í niðurstöðu sinni. Hún segir: ,,Jafnframt telur stofnunin æskilegt að öll meginsvið samkeppnisþátta Landssíma Íslands séu rekin í sérstökum félögum.`` Þetta var afstaða Þórólfs Árnasonar, til að halda því til haga.

Síðan höldum við áfram.

Gústaf Arnar frá Póst- og fjarskiptastofnun taldi sig ekkert vera þess umkominn að tjá sig um það hvað ætti að gera í þessum efnum. Hann væri embættismaður og sem góður og gegn embættismaður var hann ekkert að tjá sig um þessa hluti.

Síðan kom Eyþór Arnalds frá Íslandssíma. Hann hafði skýra afstöðu til þessa og hefur haft lengi. Hann telur nauðsynlegt að skilja netið frá. Ef ná á þessum samkeppnismarkmiðum telur hann það nauðsynlegt.

Ingvar Garðarsson frá Frjálsum fjarskiptum (Gripið fram í: Hann taldi að það ætti að aðskilja.) taldi ef ég man þetta ... (Gripið fram í.) Eyþór Arnalds talaði með þeim fulltrúum sem komu af landsbyggðinni og var sammála þeim sjónarmiðum sem þar komu fram. --- Ég man ekki betur en Ingvar Garðarsson hafi tjáð sig um þetta og hann hafi verið þeirrar skoðunar að ætti að aðskilja þetta.

Kaupþingsmenn höfðu enga skoðun á þessu né fulltrúar frá Íslandsbanka.

Hrafnkell Óskarsson frá Samkeppnisstofnun. Talað hefur verið um hvaða afstöðu hann hafði í málinu.

Jóhannes Gunnarsson og Markús Möller voru á því að það ætti að aðskilja, ef ég man það rétt. Það er rétt að halda því til haga að ég man ekki nákvæmlega hvaða afstöðu þeir höfðu. (JB: Þeir vildu aðskilja.) Þeir vildu aðskilja, kallar fram í hv. þm. Jón Bjarnason (Gripið fram í.) og það er ábyrgðarhlutur að draga í efa það sem hv. þm. Jón Bjarnason segir í þessum efnum.

Samband íslenskra sveitarfélaga hafði ekki skoðun á þessu máli.

Samtök netverja höfðu skýra skoðun á þessu máli. Þeir vildu aðskilja.

Davíð Guðmundsson frá Tölvun í Vestmannaeyjum vildi aðskilja.

Björn Davíðsson frá Snerpu á Ísafirði vildi aðskilja.

Rögnvaldur Guðmundsson frá Skríni á Akureyri vildi aðskilja.

Eiríkur Bragason frá Línu.Neti. Nú verður hv. þm. að viðurkenna að hann man ekki nákvæmlega hvaða afstöðu hann hafði til þessarar spurningar, en auðvelt er að fletta því upp.

Tölvusmiðjan á Egilsstöðum vildi aðskilja.

Fulltrúi Elements á Sauðárkróki vildi aðskilja.

Tryggvi Þór Ágústsson frá Gagnvirkri miðlun vildi aðskilja.

Björn Ingi Jónsson frá Tölvuþjónustu vildi aðskilja.

Virðulegi forseti. Ég held að ekki sé orðum aukið að a.m.k. tveir þriðju af þeim sem komu á fund nefndarinnar vildu aðskilja.

En það breytir í sjálfu sér engu hvað sérfræðingum á þessu sviði finnst. Niðurstaðan er bara þessi: Við erum fleiri. Við ráðum. Og af því bara.

Ég er búinn að hlýða á fulltrúa ríkisstjórnarinnar í allan dag og ég segi ekki sannara orð en það: Ég hef beðið eftir raunverulegri röksemdafærslu fyrir því að fara þessa leið. Hún hefur ekki komið. Það breytir engu þó flestir sérfræðingar séu á annarri skoðun. Þetta er einhvers konar ,,af því bara`` sjónarmið.

Virðulegi forseti. Það er hins vegar spurning hvort það þjóni einhverjum tilgangi að standa hér (Gripið fram í.) og fara yfir þau sjónarmið sem skipta öllu máli í þessu. Það breytir engu. Og hverjar skyldu vera líkurnar á því, þrátt fyrir að hér hafi verið færð sterk rök og sjónarmið fyrir nauðsyn þess að skilja grunnnetið frá, að einhver stjórnarþingmaður skyldi nú hafa sína prívatskoðun í málinu? Hvaða líkur skyldu nú vera til þess? Hvaða líkur skyldu nú standa til þess að einhver hv. þm. stjórnarmeirihlutans, þrátt fyrir að ófáir þeirra hafi lýst nokkuð fjálglega yfir í gegnum tíðina að nauðsynlegt sé að fara þessa leið ef ná á þeim markmiðum að tryggja einhverja raunverulega samkeppni en ekki einkavædda einokun, detti fyrir borð? Virðulegi forseti. Það yrði ekki stórt hlutfall sem veðjaði á að einhver dytti fyrir borð. Allir þramma þeir í takt: Stöndum saman. Með Framsókn.

[23:15]

Virðulegi forseti. Ég velti því fyrir mér hvort það þjóni nokkrum tilgangi að leggja fram rök helstu sérfræðinga og allra sem fyrir nefndina komu. Nei, þeir segja: Af því bara. Það er svo gaman að vera saman og við skulum fara þessa leið.

Hæstv. ráðherra er ekki síðri á þessari vegferð. Hann heldur því fram að tilvist markaðsaflanna --- án þess að ég hafi satt best að segja áttað mig á hvað hann átti við en líklega eru það öfl á markaði ef það ætti að rýna í þetta orð --- muni sjálfkrafa sjá um að tryggja samkeppni. Þrátt fyrir það hefur hæstv. ráðherra lýst því yfir og enginn dregið það í efa að þetta fyrirtæki, sem á að selja í einu lagi, hafi 85% markaðshlutdeild og því sé nánast einu ætlað að sjá til þess að landsbyggðin hafi aðgang að öflugu fjarskiptakerfi. Í frv. er ekki gerð nein tilraun til að tryggja að hægt sé að setja kvaðir á þetta stóra fyrirtæki um að það sjái til þess að staðir, þar sem öðrum fyrirtækjum finnst ekki borga sig að veita þjónustu, muni njóta þeirrar fjarskiptaþjónustu sem nútímamenn krefjast. Forsendan fyrir þróun byggðarlaga er að þau hafi aðgang að slíkri þjónustu.

Virðulegi forseti. Eitt hef ég ekki nefnt í þessu sambandi sem eru enn ein rökin fyrir því að skipta fyrirtækinu upp með einhverjum hætti. Það er sú staðreynd að Landssíminn rekur nokkuð mörg fjarskiptanet eða fjarskiptakerfi. Þróunin gerir það að verkum að mörg þessara kerfa munu hugsanlega í framtíðinni geta flutt svipuð eða sambærileg gögn. Það má t.d. nefna grunnkerfið í þráðlausum fjarskiptum í símum, það má nefna ATM-kerfið og grunnnetið. Smám saman mun tæknin líklega þróast þannig að flest þeirra geti flutt sambærileg gögn þannig að fyrirtækið sjálft og net þess eru komin í innbyrðis samkeppni. Þetta eru enn ein rökin fyrir því að skipta ætti fyrirtækinu upp áður en það er selt.

Það hefur verið kallað eftir svörum við þessum spurningum en á þeim hefur staðið. Í raun og veru hafa engin svör komið. Það er spurning, eins og ég sagði áðan, hvort það þjóni einhverjum tilgangi að reyna að koma vitinu fyrir þessa ríkisstjórn. Það virðist ekki nokkur leið. Ákvörðunin hefur verið tekin og fyrirtækið skal selt í einu lagi. Ástæðan kann að vera sú að kallað hafi verið eftir því af góðkunningjum flokkanna að þeir þurfi að finna eitthvert fóður fyrir aurana sína. Kannski er það raunverulega ástæðan fyrir því að þetta er gert svona. Það er ekki nóg með að fyrirtækið hafi 85% hlutdeild í öllum tekjum á þessum markaði heldur á það í 36 öðrum fyrirtækjum á þessum markaði. Fyrirtækið hefur þannig í reynd stærri markaðshlutdeild.

Það breytir engu, virðulegi forseti, þó að farið hafi verið ítarlega yfir þessa hluti hér og reynt að benda mönnum á á hvaða villigötum þeir eru. En ég ætla að benda mönnum á hugsanlegar afleiðingar. Afleiðingarnar kunna að verða þær að hugbúnaðar- og fjarskiptaiðnaðurinn í framtíðinni þróist ekki við þær aðstæður sem við ella hefðum getað skapað honum með því að skipta fyrirtækinu upp. Hvaða afleiðingar getur það haft fyrir samfélagið?

Það er þó alla vega ekki hægt að segja, ef við náum ekki því markmiði að vera í fremstu röð áfram sem hingað til vegna þessarar sölu á fjarskipta- og hugbúnaðariðnaðinum í einu lagi, að stjórnarandstaðan hafi ekki varað við því. Það er þá kross sem hæstv. samgrh. þarf að bera inn í óskilgreinda framtíð.