Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 23:46:42 (8063)

2001-05-17 23:46:42# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, HBl (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[23:46]

Halldór Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. þm. var mjög skýr. Hann gerði grein fyrir því að hann vill að almannaþjónusta, þ.e. þjónusta fyrir almenning, sé rekin af ríkinu í sem ríkustum mæli. Hann nefndi nokkur dæmi af því tagi. Flokksbræður hans --- til skýringar og taki maður þetta í sögulegu samhengi --- voru t.d. á sínum tíma andvígir því að hér væri nokkur sjónvarpsrekstur nema á höndum ríkisins. Vitaskuld er það svo að menn með lífsskoðanir og lífssýn vinstri grænna vilja halda sig við þetta sama heygarðshorn, að láta ríkið vafstra í sem flestu. Þó liggur fyrir að til lengdar hefur það gefist illa. Það sjáum við með margvíslegu móti.

Á hinn bóginn þykir mér þetta undarlegt vegna þess að þegar við kynntumst, ég og hv. þm., var hann skólastjóri á Hólum. Ég var þá landbrh. og mér skildist á honum að hann væri með ýmsar hugmyndir um hvernig hægt væri að auka þjónustuna á Hólum. Er það þó menntastofnun sem veitir almannaþjónustu. Ég gat ekki betur fundið en hann vildi einmitt nýta sér hinn frjálsa markað. Að vísu vildi hann styðjast dálítið við ríkið, fá á fjárlögum svolitla peninga til að fá betri stöðu á markaðnum en ella mundi, t.d. í fiskeldinu. En hann hafði vissa sýn á markaðinn og ég bjóst satt að segja við því að með aldrinum mundi þessi sýn verða gleggri og skýrari.