Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 23:49:33 (8064)

2001-05-17 23:49:33# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, Frsm. 2. minni hluta JB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[23:49]

Frsm. 2. minni hluta samgn. (Jón Bjarnason) (andsvar):

Herra forseti. Það rifjast upp fyrir mér að stundum eru menn tvær persónur. Þegar hv. þm. Halldór Blöndal kom sem ráðherra í heimsókn að Hólum þá var hann ekki uppfullur af þessu frjálshyggjudýpi. Þá vildi hann horfa á hlutina raunsætt og spurði: Hvað er hægt að gera? Hvernig er best að gera það? Hvernig verður það farsælast? Hvernig kemur það sér best fyrir staðinn? Hvernig kemur það sér best fyrir starfsfólkið og hvernig kemur það sér best fyrir bændur landsins?

Þá var þessi hv. þm. og ágæti landbrh. niðri á jörðinni. Að vísu hoppaði hann upp úr farinu af og til, en með góðri hjálp minni og annarra hélt hann sig á jörðinni. Þá kunni ég ágætlega við hann.

Svo missir hann jarðsambandið og fer inn í þessa sjálfshyggjupólitík Sjálfstfl. í Reykjavík, (Gripið fram í: Í kaupstaðnum.) í kaupstaðnum. Þá kemur kaupstaðarlykt, þá breytist allt. --- Ég er ekki að segja að það sé kaupstaðarlykt af neinum hér inni núna. Ég vil bara taka það fram til þess að forða misskilningi.

Þannig er, herra forseti, alveg ljóst að það er reginmunur á milli einmitt Vinstri hreyfingarinnar -- græns framboðs og Sjálfstfl. í því hvernig flokkarnir reka sína pólitík. Vinstri hreyfingin -- grænt framboð vill standa á jörðinni og líta á hvert mál fyrir sig. Á einum stað getur markaðsaðferð átt við, á öðrum stöðum ríkisstuðningur. Þetta leysum við í hverju tilviki fyrir sig.

Ég held, herra forseti, að alveg eins og hv. þm. Halldór Blöndal lýsti því yfir að hann vildi aldrei selja meira en minni hlutann af Landssímanum, að ríkið ætti alltaf að eiga meiri hluta, þá væri best að við hv. þm. mundum aftur labba saman norður að Hólum og hv. þm. fengi jarðsambandið við íslenska þjóð.