Sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.

Fimmtudaginn 17. maí 2001, kl. 23:51:06 (8065)

2001-05-17 23:51:06# 126. lþ. 127.1 fundur 707. mál: #A sala ríkissjóðs á hlutafé í Landssíma Íslands hf.# frv. 75/2001, 708. mál: #A fjarskipti# (skilyrði rekstrarleyfis) frv. 72/2001, KLM
[prenta uppsett í dálka] 127. fundur, 126. lþ.

[23:51]

Kristján L. Möller:

Herra forseti. Í þeirri umræðu sem staðið hefur í dag út af sölu á hlutafé í Landssímanum hefur margt komið fram. Þar á meðal hefur verið rifjað upp það sem sagt hefur verið á árum áður um ýmislegt á landsbyggðinni. Ég ætla að nota tækifærið og minna á nokkur atriði sem snúa að fjarvinnsluverkefnum sem að mati hæstv. forsrh. og annarra áttu öllu að bjarga á landsbyggðinni. Við höfum farið yfir þær tilraunir á Ólafsfirði og í Hrísey. Mig langaði að nefna það sem hv. þm. Halldór Blöndal lét hafa eftir sér þegar fiskvinnslufyrirtæki á Ólafsfirði var lokað og þegar kaupfélagið hætti að vinna fisk í Hrísey. Þá ætluðu menn að búa til fjarvinnslufyrirtæki og höfðu háleitar hugmyndir. Heimamenn og aðrir lögðu mikla fjármuni í þessi fyrirtæki en það fé hefur allt glatast, því miður. Það kann m.a. að vera út af háum kostnaði við leigulínur, gagnaflutninga og annað slíkt en þó kannski aðallega vegna þess að fyrirheit um flutning starfa út á land í þessa nýju landsbyggðarbúgrein hafa öll verið svikin af hendi hins opinbera.

Ég vil taka fram, herra forseti, að einkaaðilar og einkafyrirtæki, þ.e. ýmis fyrirtæki sem ekki eru opinber, hafa gert þetta. Sennilega er þar besta dæmið hið ágæta fyrirtæki Kaupþing sem hefur flutt störf til Siglufjarðar í samstarfsverkefni við Sparisjóð Siglufjarðar. Það hefur gengið mjög vel og þar vinna tíu manns, þrátt fyrir verð á línum. Ég vil þó taka skýrt fram að verðið á línum lækkaði þegar þar var tekin upp ATM-tenging. Rekstraraðilarnir fundu fyrir þeirri lækkun en betur má ef duga skal.

Ég ætlaði, vegna þess að hv. þm. Halldór Blöndal, forseti Alþingis, talaði hér áðan, að rifja upp það sem nokkrir hæstv. ráðherrar hafa sagt vegna fjarvinnsluverkefna sem átti að starfrækja úti á landi og áttu að bjarga miklu.

Í sambandi við málefni Ólafsfjarðar þá sagði hæstv. forsrh. á Alþingi 23. febr. árið 2000, þegar rætt var um flutning tiltekinna verkefna til Ólafsfjarðar, með leyfi forseta:

,,Ég tel að þessi vinna sem einkum hinir fjórir ráðuneytisstjórar hafa komið að sé í góðum farvegi. Þó að ég vilji ekki tímasetja á þessu augnabliki nákvæmlega hvenær starfsemin geti hafist, þá er vinnan komin vel af stað og ákvörðun af því tagi hefur því verið tekin.``

Eftir borgarafund sem haldinn var á Ólafsfirði við opnun þessara stöðva sagði hv. þm. Halldór Blöndal m.a. þetta, með leyfi forseta:

,,Það hefur verið tekin pólitísk ákvörðun um það að flytja fjarvinnsluverkefnin hingað til Ólafsfjarðar og það verður staðið þannig að þeim að það verði traustur grunnur og hann standi til frambúðar.``

Það verður staðið þannig að þeirri vinnu að það muni ganga vel, sögðu menn en ekkert starf var flutt né hefur verið flutt norður. Þessi fyrirtæki eiga við mikla rekstrarerfiðleika að etja. Þar stendur yfir fjárhagsleg endurskipulagning. Vegna þess að ég er að vitna í orð hæstvirtra ráðherra, þá sagði m.a. hæstv. ráðherra byggðamála í lok þessa sama fundar um flutning fjarvinnsluverkefna:

,,Í lok þessa mánaðar eða fyrir lok þessa mánaðar þá trúi ég því að þær verði komnar, að það verði eitthvað að frétta.``

Ég lagði fram fyrirspurn til hæstv. byggðamálaráðherra í ársbyrjun um hve mörg störf hefðu verið flutt í fjarvinnslugeiranum til landsbyggðarinnar og skiptingu milli ráðuneyta. Það er skemmst að segja frá því, herra forseti, að svarið var ein og hálf blaðsíða, eins og prentað er í þingtíðindum, en niðurstaðan úr þessu var ákaflega döpur: Ekkert starf hafði verið flutt út á land af hálfu ríkisins eða ríkisfyrirtækja á síðasta ári.

Herra forseti. Ég nefni þetta aðeins vegna þess að við höfum í dag deilt um þann mun sem við óttumst að verði milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis hvað varðar þátttöku í þeirri byltingu sem orðið hefur og þróun sem nú er á fleygiferð, það mikilli ferð að tæknimenn geta varla spáð nokkra mánuði fram í tímann, hvað verði nýjast og hvað breytist. Ný og fullkomin tækni, flott og fín sem eykur hraða og getu er orðin úrelt eftir nokkra mánuði. Við höfum talað um að þessi alþjónustukvöð, þ.e. 128 Kb/s, er alls ekki nóg. Hér hefur verið vitnað í samkomulag sem hæstv. samgrh. gerði við Landssímann um ADSL-tengingar til allra staða sem hafa 150 íbúa og fleiri innan fimm ára. Það er góðra gjalda vert. Ég hefði persónulega talið að það hefði átt að vera í fjarskiptalögunum sem alþjónustukvöð.

Þegar við settum lög um fjarskipti töldum við okkur vera að gera stórkostlega hluti með ISDN-tengingunni sem þá átti að ná til allra. (Samgrh.: Og vorum að því.) Við vorum að því, sannarlega. En það er dæmi um hvað þetta úreldist fljótt og hvað tæknin er á mikilli hraðferð í þessum efnum að þetta er orðinn hálfgerður ,,Trabant``, ef ég má nota þá líkingu, sem við ætlum að inna af hendi í alþjónustunni hvað þetta varðar meðan aðrir geta keyrt um á Mercedes Benz af dýrustu og bestu gerð. Þá er ég auðvitað að tala um höfuðborgarsvæðið og það sem ég fór í gegnum í ræðu minni um þær stórkostlegu áætlanir og framkvæmdir sem Lína.Net áformar á höfuðborgarsvæðinu. Ég hef fagnað því og er mjög hlynntur þeim áformum. Mér finnst það mjög framsækin stefna hjá borgaryfirvöldum og vert að óska bæði Reykvíkingum, íbúum Reykjavíkur og borgarstjórn, til hamingju með það.

Þetta, herra forseti, hef ég gert að umtalsefni. Ég óttast að með sölu á grunnnetinu með samkeppnishluta Landssímans verði landsbyggðin skilin eftir í þessum efnum. Með öðrum orðum: Ég óttast að ljósleiðarar verði ekki lagðir á ýmsa smærri staði úti á landi sem eru alllangt frá Reykjavík og þeir muni ekki taka þátt í þeirri fjarskiptabyltingu sem nú á sér stað. Eins og ég fór yfir fyrr í dag getur tekið átta tíma að ná sér í kvikmynd í fullkominni lengd í gegnum ADSL en það getur tekið fjórar sekúndur í gegnum ljósleiðaratengingu. Þar er mikill munur á, herra forseti.

Ég tel ákaflega mikilvægt að íbúar landsbyggðarinnar fái að sitja við sama borð og íbúar höfuðborgarinnar í þessum efnum. Við eigum að geta gert það og sagt að í þessu litla landi búi ein þjóð sem hafi sömu möguleika til að draga fram lífið, njóta afþreyingar o.s.frv. Ég og við í Samfylkingunni teljum að það sé betra að gera með því að skilja grunnnetið, dreifikerfi Landssímans, frá fyrirtækinu áður en það er selt.

[24:00]

Töluvert hefur líka verið rætt um það og það hefur komið fram hjá bæði stjórnarandstöðu- og stjórnarþingmönnum að til okkar í samgn. komu margir fulltrúar sem lýstu ástandinu eins og það er og hefur verið undanfarin ár og kvörtuðu yfir ýmsu í sambandi við störf Landssímans. Ég segi það alveg hiklaust og tek það skýrt fram: Ég held þrátt fyrir þetta að Landssíminn hafi verið að skána mjög síðustu eitt, tvö, þrjú ár í þessum efnum. Ég hika ekki við að segja að með nýrri stjórn og með þeim stjórnarformanni sem starfar núna, Friðriki Pálssyni, og því ágæta fólki sem situr með honum í stjórn hafi verið farið inn á nýjar brautir og töluvert önnur stefna sé hjá fyrirtækinu en var fyrir kannski einu og hálfu, tveimur árum, eitthvað svoleiðis, og þetta sé mikið að batna. Ég hika ekki við það og ég vil segja það hér til að fyrirbyggja allan misskilning að þó að við höfum verið að gagnrýna ýmislegt í starfsemi Landssímans er það ekki í raun og veru gagnrýni á stjórn eða forstjóra eða aðra starfsmenn. Það er einfaldlega þannig að hið rosalega mikla og stóra markaðsráðandi fyrirtæki, Landssími Íslands, sem hafði fyrir nokkrum árum 100% markaðshlutdeild og er kominn niður í 85% núna, var svo stórt og mikið batterí að það átti erfitt með að bregðast við þeirri framþróun sem þurfti að vera. E.t.v. voru einhverjir vaxtarverkir við að fara út í og taka þátt í samkeppninni sem hefur verið að þróast undanfarin ár á fjarskiptamarkaði.

Þetta vildi ég, herra forseti, láta koma skýrt fram og segja að lokum að ég hef átt mörg samtöl við stjórnarformann Landssímans, Friðrik Pálsson. Ég get ekki sagt neitt annað en að það hafi allt saman verið mjög gott. Hann hefur mjög mikinn skilning á þörfum landsbyggðarinnar í þessu efni og ég hika ekki við að segja að það hefur verið henni til framdráttar sem hefur verið gert þar og það er landsbyggðinni mikið til góðs að hafa mann sem þekkir jafn vel til á landsbyggðinni og þarna hefur verið.

Herra forseti. Hér hefur aðeins verið rætt um hvað sagt hefur verið og ég rifjaði upp það sem hv. þm. Halldór Blöndal sagði um fjarvinnsluverkefnin í Ólafsfirði og þau fjarvinnslufyrirtæki sem menn bundu vonir við og hafa verið að byggjast upp þar og er nú verið að reyna að endurreisa. Ég vona að þau geti keppt á jafnréttisgrundvelli við að drífa upp starfsemi sína og ná í fjarvinnsluverkefni. Þetta hefur verið brösótt og ekki hefur verið staðið við að flytja eitt einasta starf frá ríkisstofnunum til þessara fyrirtækja og til þessara staða eins og lofað var og eins og ég gat áðan um með yfirlýsingum frá hæstv. forsrh., hæstv. forseta Alþingis og hæstv. byggðamálaráðherra.

Þegar menn eru að tala um samkeppnina og hvað hún er í raun og veru ung í þessum geira þá hefur einnig verið talað um það sem sagt var fyrir ekki nema svo sem eins og sjö, átta árum þar sem hæstv. fyrrv. samgrh. talaði um að það væri mjög skynsamlegt í fyrirsjáanlegri framtíð að íslenska ríkið ætti a.m.k. helming í slíku fyrirtæki. Hann talaði um að það gæti verið að erlendir aðilar mundu skjótast inn í Póst og síma og eignast þar hlut. Svo er þróunin mikil í þessu að menn hafa skipt allsvakalega um skoðun í þessum efnum og það er kannski hið besta mál.

Herra forseti. Það hefur líka verið rætt um þá áætlun sem hér hefur verið gerð og hefur verið talað um að ætti að verða til að jafna kostnað milli höfuðborgarsvæðis og landsbyggðar. Ég fagna því sem kemur þar fram og segi alveg hiklaust, eins og ég hef áður sagt, að við fulltrúar Samfylkingarinnar í samgn. munum ekki liggja á liði okkar við að starfa í samgn., þess vegna í sumar, í samvinnu við hæstv. samgrh. við að finna leiðir til að jafna leigulínuverð og það sem við höfum verið að tala um milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. Eftir stendur þá að við óttumst að ef grunnnetið er ekki skilið frá og selt með komi e.t.v. hærri kröfur um arðsemi hjá nýjum eigendum sem koma inn í Landssímann. Við heyrðum það hjá aðilum sem þekkja vel til í þessum geira hvaða kröfur erlendir samstarfsaðilar íslenskra fyrirtækja eða hálfíslenskra gera til arðsemi í þeim rekstri. Það gæti farið svo, ef þær hugmyndir koma fljótlega inn hjá nýjum eigendum að Landssímanum, að þá muni ýmislegt breytast. Þá óttumst við það, herra forseti, að landsbyggðin hvað varðar grunnnetið, hvað varðar gagnaflutninga og möguleika í hinni öru þróun muni sitja eftir.

Við vörum við því og viljum alls ekki að þau skilaboð komi með þessari sölu og með því að gera þetta svona sem framtíðin getur gert að fara þann veg sem ég var að tala um áðan. Vegna kröfu frá nýjum eigendum um meiri arðsemi en er í dag getur þetta farið á þann veg að ákveðnir landshlutar á Íslandi verði hreinlega skildir eftir í hálfgerðum öðrum flokki ef svo má að orði komast.

Herra forseti. Hér höfum við mikið rætt um það sem kannski mesti ágreiningurinn hefur staðið um sem er verðlagning á þeirri þjónustu sem boðin er fyrir utan að þessi alþjónusta, eitthvað um 128 Kb, sem eru afköst sem faxtæki býður upp á í dag, hálfgerður ,,Trabant`` þó að sá bíll sé vafalaust eitthvað að batna frá því sem var áður, er það sem flestallir aðilar kvörtuðu yfir. Það var athyglisvert en jafnframt mjög ánægjulegt þegar forstjóri Íslandssíma, sá ágæti maður Eyþór Arnalds, kom með ákveðnar tillögur og skýrði mjög vel afstöðu sína gagnvart fyrirtækjum á landsbyggðinni sem eru í þessum geira. Hér hefur það komið fram í umræðunni, ekki orðrétt eftir haft en eitthvað á þá leið, að það væri undravert að þessi fyrirtæki skyldu yfir höfuð vera enn þá á lífi.

Herra forseti. Allt saman snýst þetta um samkeppnishæfni svæða. Samkeppnishæfni svæða skiptir höfuðmáli milli svæða á landinu um hvernig málin munu þróast og hvort ein þjóð verði í þessu landi eða tvær þjóðir eins og er reyndar í dag í ýmsum atriðum, eins og í skattamálum á ýmsan hátt. Við getum nefnt þungaskattinn, við getum nefnt húshitunarkostnað o.fl. Öll þessi atriði eru mjög landsbyggðinni í óhag og miklar og góðar tillögur hafa verið uppi um að jafna þennan aðstöðumun milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis en það verður að segja alveg eins og er, herra forseti, að það hefur gengið ákaflega hægt. Loforð sem gefin eru úr þessum ágæta ræðustól á hinu háa Alþingi, jafnvel eins og af sjálfum hæstv. forsrh., eru ekkert alltaf uppfyllt. Þetta eru oft falleg orð og miklar og góðar hugmyndir en efndirnar láta á sér standa. Þetta nefni ég hér, herra forseti, af því að við höfum verið að gagnrýna og tala um, annars vegar flutningsgetuna og hvað hefur verið boðið upp á og hins vegar verðlagninguna og frómar óskir, sem eru mjög góðar og vonandi verður sem fyrst unnið að, en það er ótti um að þetta verði ekkert nema sögð orð, að það verði eitthvað, ekki endilega andstaða viðkomandi ráðherra eða þingmanna eða ríkisstjórnar, sem stoppi þetta heldur geti ýmislegt annað orðið á vegi okkar sem stoppar þetta hreinlega eða tefur.

Í þessu sambandi vil ég nefna og vitna aðeins í orð hæstv. forsrh. sem hann lét falla á Alþingi í umræðu þegar var verið að ræða um kjördæmabreytinguna eða stjórnarskipunarlögin eða hvað það aftur hét. Í því sambandi var skipuð af hæstv. ríkisstjórn svokölluð byggðanefnd sem var þverpólitísk nefnd og skilaði samdóma þverpólitísku áliti um aðgerðir í byggðamálum og kallaði þær jafnframt bráðaaðgerðir. Miklar og góðar tillögur komu frá þeirri nefnd sem hv. þm. Einar Kristinn Guðfinnsson, 1. þm. Vestf., stýrði og m.a. hv. þm. Tómas Ingi Olrich var í. Sá sem hér stendur var í þeirri nefnd, hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon var í þeirri nefnd og sveitarstjórinn í Reykhólahreppi var í þeirri nefnd. Ekki voru gerðar sérstaklega miklar kröfur en tillögur voru settar fram sem allir voru sammála um og fengu samþykki eða stimpil hæstv. ríkisstjórnar og það voru tillögur sem átti að fara eftir.

Mig langar í þessu sambandi að lesa úr ræðu hæstv. forsrh. þegar hann var spurður út í þetta atriði. Þá sagði hann m.a., með leyfi forseta, þegar búið var að ræða um þessar tillögur sem ég get farið yfir á eftir og rætt var um og, eins og ég segi, voru þverpólitískar, áttu að komast í framkvæmd á næstu þremur árum frá þeim tíma, við værum sem sagt á öðru ári núna hvað varðar fjárlagagerð. En hæstv. forsrh. sagði af þessu tilefni m.a., með leyfi forseta:

,,Að því leyti sem tillögur nefndarinnar munu gera kröfu til að afstaða sé tekin til veitinga fjármuna í tiltekna þætti, t.d. í vegaframkvæmdir, mundi ríkisstjórnin afla slíkra heimilda og ábyrgjast pólitískt`` --- ég endurtek, herra forseti --- ,,og ábyrgjast pólitískt að slíkar tillögur mættu ná fram að ganga. Þegar hafður er í huga þessi skilningur ríkisstjórnarinnar og jafnframt hinn víðtæki stuðningur sem við nefndarstarfið er í þinginu, þar sem allir þingflokkar tilnefndu í nefnd þessa og innan hennar er góð samstaða, tel ég tryggt að þær viljayfirlýsingar, hugmyndir og tillögur sem þar koma fram hljóti brautargengi innan þeirra tímamarka sem nefndin sjálf setur sér.``

Herra forseti. Þetta voru orð hæstv. forsrh. Davíðs Oddssonar. Í tillögum þessarar nefndar var m.a. fjallað um stóraukna niðurgreiðslu til jöfnunar húshitunar. Það var staðið við það, en ekki alveg, svona 80--90% á síðasta fjárlagaári. Fyrir þetta ár var ekki staðið við þær tillögur. Þetta átti að gerast og það var skýrt tekið fram af formanni nefndarinnar, hv. þm. Einari K. Guðfinnssyni, að þetta átti að gerast í þremur jöfnum áföngum á þremur næstu árum, 2000, 2001 og 2002. Ekki hefur verið staðið við húshitunarkostnaðinn ... (Gripið fram í.) Í fjárlögum þessa árs er sáralítil sem engin upphæð í þetta en þar átti að vera einn þriðji af þessari upphæð, að mig minnir einhverjar 120--130 milljónir. Ekki staðið við það.

Jöfnun námskostnaðar. Segja má hæstv. menntmrh. það til hróss að á fyrsta árinu var staðið fullkomlega við þá tölu sem átti að koma, einn þriðji af 210 millj., 70 millj. Á þessu ári kom, held ég, mjög svipuð tala. Ég hef að vísu ákveðnar efasemdir um þá reglugerðarbreytingu sem gerð var sem fjölgar mjög þeim sem fá jöfnun námskostnaðar sem getur gert það að verkum að vegna reglugerðarbreytingarinnar hefði upphæðin átt að hækka. Eftir verður eitt ár. Mikið réttlætismál er að allir íbúar þessa lands sitji við sama borð við að senda unglinginn sinn í framhaldsskóla sem ríkið byggir og rekur. Þá skiptir engu máli hvort fólk gengur yfir götuna í Hafnarfirði eða Reykjavík í framhaldsskólann eða hvort það þarf að fara langan veg frá litlum stöðum á landsbyggðinni til stærri staða. Þennan aðstöðumun á að jafna fullkomlega með jöfnun námskostnaðar. Af þessu hefur kannski einna mest verið staðið við þau loforð sem þarna voru gefin.

[24:15]

Síðan eru aðrar tillögur --- ég ætla ekki að lengja þennan fund með því að telja þær upp vegna þess að mér heyrist að komin sé hugmynd um að fara að hætta --- sem ekkert hefur miðað áfram með, eins og t.d. eftirgjöf hjá langskólagengnu fólki, svo og svo mikla eftirgjöf á endurgreiðslu námslána upp á ein 15% að mig minnir, sem átti að verða til þess að hvetja námsmenn, nýkomna úr námi til að fara út á land og fá smábónus, ef svo má að orði komast, við endurgreiðslu námslána vegna þess, kerfi sem er vel þekkt t.d. í Noregi.

Ýmis önnur atriði voru í þessum tillögum, herra forseti, eins og t.d. um þátttöku ríkisins ef íbúar landsbyggðarinnar þurfa að fara til Reykjavíkur til að leita sér lækninga sem ekki eru veittar úti á landsbyggðinni, þá átti þetta að koma inn í. Þetta á sér náttúrlega stað í mörgum þáttum í heilbrigðisgeiranum, en nokkrir þættir voru tilgreindir þar sem enginn ferðakostnaður var greiddur í né nein jöfnun og það átti að taka fyrir. Það hefur ekki verið gert.

Það gefst kannski tími til þess síðar að fara yfir, herra forseti, þau atriði sem ég er að gera að umtalsefni vegna þess sem ég sagði áðan og vil ítreka, en ég er að rifja þetta upp vegna þess að það hafa oft verið fögur orð, fallegar skýrslur, miklir og góðir pappírar, góðar tillögur sem hafa átt að verða til að jafna lífskjör almennings í landinu, jafna lífskjör milli landsbyggðar og höfuðborgar, en það hefur einfaldlega ekki verið staðið við það. Hér eru uppi ágætistillögur um að jafna lífskjör fólks, um að jafna aðstöðu fyrirtækja hvað þetta varðar, þ.e. að kaupa þjónustu í gegnum grunnnetið, og við skulum vona að það gangi eftir. Ég bíð spenntur eftir að fara að vinna þá vinnu og, eins og hér kemur fram, að hluti af sölu Landssímans verði notaður í þetta, e.t.v. til að greiða hraðar niður ljósleiðaralínur þannig að þær séu fullgreiddar og fullafskrifaðar sem gerir það að verkum að kostnaðurinn verður ekki eins mikill og þar með þurfum við ekkert að efast um að ekki sé hægt að jafna þennan kostnað fullkomlega.

Herra forseti. Það eru til alls konar hugmyndir um leiðir til að gera þetta ef menn eru hræddir við eftirlitsstofnanir í Evrópu hvað þetta varðar sem ég reyndar hef mjög miklar efasemdir um að muni gera miklar athugasemdir við þetta vegna þess hvernig þetta er gert í Danmörku og Noregi og annars staðar.

Herra forseti. En það skal sannarlega verða gengið eftir þeim tillögum sem hér eru lagðar fram um þessi atriði og vonandi gerum við það sem fyrst. Ég man ekki hvað stendur hérna, hvort þetta verði gert á næstu mánuðum og hvort þessari athugun átti að vera lokið fyrir --- jú, það stendur hérna að þessu skuli vera lokið fyrir árslok 2001. Ef þessi athugun leiðir af sér að við munum finna leið til að jafna þennan kostnað fullkomlega þá vona ég að það verði gert strax. Ég legg þann skilning í þetta að ekki eigi aðeins að ljúka gagnavinnunni og tillögunum fyrir árslok 2001 heldur komi jöfnunin á verðinu í beinu framhaldi.

Ég man nefnilega eftir því að það tók ákaflega langan tíma að byggja frystihús norður á Siglufirði. Forstjóri þess sagði að frystihúsið yrði opnað í september, en nefndi aldrei árið. Það var alveg rétt að frystihúsið var opnað í september. Það gekk eftir vegna þess að hann nefndi aldrei árið. Þetta segi ég hér, herra forseti, rétt til að ítreka þessi atriði.

Hér hefur verið töluvert hörð umræða en ég segi líka mjög gagnleg umræða í dag um sölu Landssímans. Ég hef sagt og skal segja það í lokin: Ég er hlynntur sölu Landssímans á samkeppnisþættinum. Tillaga mín ásamt tillögu frá hv. þm. Lúðvíki Bergvinssyni er um að aðskilja grunnnetið frá. Það er mín bjargfasta trú og skoðun að það yrði til heilla fyrir land og þjóð. Ég segi hins vegar að samkeppnishlutann á að selja. Ég óttast að samkeppnishlutinn, ef hann verður ekki seldur, muni rýrna mjög, sú eign ríkisins muni rýrna mjög eingöngu vegna samkeppni og mikilla breytinga og annars slíks. Þess vegna er betra að selja samkeppnishlutann núna og nota þá peninga sem fást til ýmissa annarra góðra verka sem hægt er að gera og áform eru uppi um. Með öðrum orðum, nauðsynlegt er að sjá þessa peninga koma inn, ekki eingöngu vegna bágs efnahagsástands um þessar mundir og til að rétta af efnahag þjóðarinnar heldur er líka nauðsynlegt að þeir peningar fari í þannig framkvæmdir að þeir fari ekki endilega inn í rekstur nýrra ríkisstofnana eða eitthvað því um líkt þó að það megi sannarlega fara að hluta í það. Vafalaust væri hægt að eyða þessum peningum margsinnis í ýmis þörf mál sem við höfum verið að fást við og bíða úrlausnar.

Þetta vildi ég segja, herra forseti, þegar kominn er nýr dagur og hef hugsað mér að ljúka máli mínu á þessari stundu.