Málefni smábáta og starfsáætlun þingsins

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 10:15:41 (8087)

2001-05-18 10:15:41# 126. lþ. 128.91 fundur 563#B málefni smábáta og starfsáætlun þingsins# (aths. um störf þingsins), SJS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[10:15]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég verð samt að segja að mér fundust orð forseta um umræður um Landssímann í gær með öllu óþörf. Það er ástæðulaust hjá virðulegum forseta að láta að því liggja að það sé eitthvað of í lagt að ræða slíkt stórmál og mikið pólitískt deilumál sem er þar á ofan illa undirbúið og kom allt of seint fram frá hæstv. ríkisstjórn, það sé rætt hér einn dag. Það er með öllu tilefnislaust að gera athugasemdir eða gera mál úr því, herra forseti. Mér finnst það heldur óviðeigandi vegna þess að ætla má að að baki liggi að forseta hafi þótt þetta um of.

Í öðru lagi, herra forseti, varðandi kvótasetningu smábáta, er sömuleiðis algerlega óþolandi að stjórnarflokkarnir séu að hnoðast á um slík mál og það setji þinghaldið í uppnám þannig að ekki sé hægt að hafa neitt skipulag á hlutunum. Það verkar þannig á menn eins og hæstv. forseti sé í lausu lofti með hlutina af því að hann getur ekkert sagt og veit ekki hver lendingin kann að verða í því máli. Nú liggur það algerlega fyrir að meiri hluti er fyrir því að fresta gildistöku þessara laga ef marka má þau tíðindi að drjúgur hluti, jafnvel allur þingflokkur framsóknarmanna, styðji það. Þá er það náttúrlega hrein og klár óhæfa að á það skuli ekki látið reyna hér.

Ég vil taka fram vegna orða forseta að mér er ekkert að vanbúnaði að vera áfram einhverja daga eða einhverjar vikur við þingstörfin. Ég er orðinn það gamalreyndur í þessu að ég set ekki aðra hluti á dagatalið hjá mér strax daginn eftir einhver löngu áætluð þinglok. Hitt er annað mál að það er öllum fyrir bestu að eitthvert skipulag sé á hlutunum. Það er það sem verið er að lýsa eftir, að hér sé unnið skipulega að málum og auðvitað er það álitshnekkir, herra forseti, og ekki síst fyrir virðulegan forseta og forsn. að starfsáætlun þingsins hrynji þannig til grunna. Sökudólgurinn er auðvitað fyrst og fremst ríkisstjórnin eins og hér hefur komið fram. Þá snýr það að forseta að reyna að verja leifarnar af sóma þingsins í þeim samþykktum.