Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 13:02:51 (8107)

2001-05-18 13:02:51# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[13:02]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Ég er ekki sérfræðingur í blöndu og hlutföllum í þessum tiltekna geira sem þarna var nefndur, a.m.k. ekki þessum tegundum. Ég ætla ekki að hætta mér út í umræður um það í sjálfu sér. En varðandi blandað hagkerfi þá leyfði ég mér að nota það gamla og ágæta hugtak vegna þess að það lýsir auðvitað best þeim veruleika sem við lifum í. Öll hagkerfi heimsins eru blönduð. Þau eru einhver blanda af umsvifum ríkis, sveitarfélaga, samvinnufyrirtækja og svo auðvitað hreins einkarekstrar. Þannig á það að vera. Það hefur aldrei hvarflað að mér annað en að annað væri óhugsandi. Síðan mannkynið fór af safnarastiginu og eignarréttur byrjaði að myndast, umframframleiðsla matvæla o.s.frv., þá hafa ríkt lögmál sem stýra þessum þáttum.

Spurningin er bara um hvort menn lenda í öfgunum á eina hliðina eða aðra. Ég er hjartanlega sammála því að í Sovétríkjunum lentu menn algjörlega úti í feni, í öfgunum í hina áttina. Að ætla að láta ríkið reka hinar smæstu einingar úti í afskekktum byggðum, verkstæði, smásöluverslun eða almenningsþjónustu, ísbúðir eða eitthvað því um líkt, það var auðvitað tóm þvæla. Það mun aldrei takast að miðstýra slíku. Menn eru að vísu í vissum mæli að reyna það núna í Brussel sem mistókst í Moskvu, en verði þeim að góðu sem vilja fara inn í það. En ég held að það sé líka mjög hættulegt að blindast svo af ofstæki og kreddum í hina áttina að reyna að einkavæða þar sem ekki á við að ganga út frá lögmálum einkahagnaðar og gróða, þ.e. velferðarþjónustuna og undirstöður samfélagsins, af þeim toga sem við höfum verið að takast á um, t.d. fjarskiptin og annað slíkt. Þar þurfa menn virkilega að fara varlega, ella sitja menn uppi með ófreskju, hrikalega misskiptingu og aðstöðumun, eins og Bandaríkin eru því miður að mörgu leyti sorglegt dæmi um.