Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 13:07:02 (8109)

2001-05-18 13:07:02# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[13:07]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað þarf að líta til rekstrarsjónarmiða og reyna að reka stofnanir af eins mikilli hagkvæmni og aðstæður leyfa. En það eru fleiri hlutir sem skipta máli, t.d. að veita öllum viðskiptavinum fyrirtækisins góða þjónustu og láta þá ekki gjalda þess þó að þeir búi í fámennari byggðarlögum. Það getur líka verið metnaðarmál í rekstri öflugs fyrirtækis sem hefur allt landið að markaði, er það ekki?

Það var ekki bara þannig á sinni tíð að útibúin væru sett upp úti um landið til þess að lokka til sín sparifé landsmanna. Það var bara ekki þannig. Ég þekki þá sögu vel. Ég ræddi það við Lúðvík heitinn Jósepsson sem var lengi í bankaráði Landsbankans og formaður þess um langt árabil. Ég hitti hann þegar hann var á ferð um Austur- og Norðurland og það var verið að taka í notkun ein þrjú ný útibú Landsbankans, þ.e. nýbyggingar, eina á Austurlandi og tvær á norðausturhorninu. Lúðvík sagði við mig: Ja, þeir eru nú sumir að kvarta undan því að þetta séu dálítið flottar byggingar og mikið í lagt og eigi að hafa þarna mikla þjónustu. Mér er nú sama um það, sagði Lúðvík. Hann sagði að þetta fólk ætti skilið að hafa góða þjónustu á þessu sviði eins og aðrir. Hann taldi Landsbankann, þessa stóru og öflugu stofnun með sitt landshlutverk ekki of góða til að standa myndarlega að þjónustu sinni á Raufarhöfn eða Reyðarfirði eða hvar það nú væri.

Þetta er sjónarmið sem menn eiga ekki alveg að henda fyrir borð. Er það ekki, hv. þm.? Það er illa komið fyrir þjóðinni í þessu landi og sambúð hennar mun ekki verða farsæl ef menn eru orðnir svo illa haldnir af peningafrjálshyggjunni að þeir ýti öllu af þessu tagi til hliðar. Með því er ég ekki að tala fyrir glórulausri óhagkvæmni. Það er ekki og á ekki að þurfa að vera þannig. En er það gott að menn sitji við skrifborð suður í Reykjavík og segi: ja, viðskiptin hérna í þessu þorpi eru ekki meiri en svo að við höfum bara opið í tvo tíma á dag, af því samkvæmt einhverjum formúlum er veltan ekki meiri en svo að það á að geta gengið? En hvert er þá þjónustan komin?