Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 14:31:20 (8114)

2001-05-18 14:31:20# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, viðskrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[14:31]

Viðskiptaráðherra (Valgerður Sverrisdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ástæða er til að bregðast við þó nokkrum atriðum sem hv. þm. kom inn á. Það er í fyrsta lagi í sambandi við starfsmennina. Ég svaraði því við 2. umr. Það er rétt að ég hef ekki kallað þá sérstaklega til fundar við mig í tengslum við það frv. sem hér liggur frammi, enda er þetta frv. um að selja hlut ríkisins. Segja má að það sé pólitísk ákvörðun og varði ekki starfsfólk vegna þess að réttarstaða starfsfólks breytist ekki. Hins vegar er ég alveg inni á því að áður en stórar ákvarðanir verða teknar af hálfu ríkisstjórnar um það hvernig farið verður í söluna mun ég tala við starfsmenn.

Um rannsókn þá sem nú fer fram um Búnaðarbanka Íslands vil ég ekki ræða hér opinberlega. Ég tel ekki að hægt sé að óska eftir því við mig að ég fari út í það mál. Það er mál sem er til rannsóknar hjá ákæruvaldinu og um það get ég ekki tjáð mig. Þess vegna get ég heldur ekki tjáð mig um það hvort rétt sé að selja eingöngu Landsbankann í fyrstu og bíða með Búnaðarbankann vegna þess að þessi mál eru ekki skýr vegna þeirrar rannsóknar sem fram fer.

Ég tel að það eigi að líta eins á takmörkun atkvæðisréttar í sambandi við eigur í bönkum og á takmörkun eignar þannig að það standist ekki EES-samninginn að takmarka atkvæðisrétt.

Um það hvernig verja eigi þeim fjármunum sem fást við sölu þá hef ég svarað því við 2. umr. Það er ekki búið að ákveða það nákvæmlega. En þar er fyrst og fremst verið að tala um ákveðna málaflokka, t.d. ákveðinn þátt samgöngumála og upplýsingasamfélagið, byggðamál. Þegar ég tala um byggðamál þá er ég ekki að tala um að stofna til nýs banka sem eigi sérstaklega að sinna landsbyggðinni. Það er alls ekki þannig heldur er ég frekar að tala um ákveðna þætti byggðamála og byggðamál eru náttúrlega mjög breiður málaflokkur og það er svo margt sem getur komið til.