Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 14:38:02 (8117)

2001-05-18 14:38:02# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, JóhS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[14:38]

Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar):

Herra forseti. Hér er uppi mjög sérstök staða. Einkavæðingarnefndin hefur tjáð sig opinberlega um hvað henni finnst um hvernig eigi að ganga í söluna og hvað eigi að hafa forgang. Hún segir að það eigi að vera Landsbanki en bíða eigi með Búnaðarbanka þar til fyrir liggur niðurstaða í rannsókninni. En hæstv. ráðherra fær ekki svör frá einkavæðingarnefndinni þegar hún leitar eftir tillögu nefndarinnar um hvernig eigi að ganga í þessa sölu. Þetta er allsérstæð uppákoma. Fyrst þetta liggur nú fyrir hjá fulltrúum einkavæðingarnefndar finnst mér að ráðherrann hefði getað haft skoðun á því hvað henni finnst í því efni. En það er oft svo, herra forseti, þegar við göngum eftir því að ráðherra svari því sem við teljum nauðsynlegt við umræðuna að fátt er um svör.

Varðandi það svar sem ég fékk þá kom hæstv. ráðherra sér hjá því að svara þeirri meginspurningu sem ég lagði fyrir ráðherrann, þ.e. hvað henni fyndist um þær stærðir sem hæstv. ráðherra nefnir í svarinu til mín um þessi vanskil hjá níu innlánsstofnunum sem fara með 73% af heildarútlánum, þegar vanskilin hjá einstaklingum eru 7--8 milljarðar, sem er orðið 5,7% af heildinni og öll vanskil hjá fyrirtækjum og einstaklingum eru 17--18 milljarðar. Mér finnst þetta nokkuð há tala sem er ástæða til þess að hafa áhyggjur af. Ég lýsi vonbrigðum mínum með það, herra forseti, að hæstv. ráðherra komi sér hjá að hafa skoðun á því þegar eftir því er gengið hvað hún telur um þessi svör, vegna þess að þessi svör hljóta að vera upplýsandi fyrir hana alveg eins og fyrir okkur hér í þingsölum til þess að reyna að leggja mat á hver staða bankanna er vegna þess að við höfum haft áhyggjur af eiginfjárstöðu bankanna og hvort þeir séu að lenda í miklum útlánatöpum.