Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 14:40:49 (8118)

2001-05-18 14:40:49# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[14:40]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson):

Herra forseti. Þriðju umræðu um sölu á hlut ríkisins í Landsbanka og Búnaðarbanka er nú senn lokið. Sem kunnugt er þá er eignarhlutur ríkisins í Landsbankanum 68,29% en í Búnaðarbanka Íslands er eignarhluturinn 72,56%. Þennan hlut ríkisins stendur til að selja og ég vil núna í þessum lokaorðum mínum óska eftir því að hæstv. viðskrh. geri grein fyrir afstöðu ríkisstjórnarinnar og skýri þingheimi frá því hvernig staðið verði að sölu bankanna.

Fram hefur komið í máli hæstv. viðskrh. að til standi að selja bankana á kjörtímabilinu, á komandi tveimur árum. Við höfum vakið athygli á því af hálfu stjórnarandstöðunnar hvort ekki væri óráðlegt að gefa slíkar skuldbindandi yfirlýsingar óháð markaðsstöðu. Það hefur komið fram í umræðunni að verðgildi bankanna hefur hrapað, hefur minnkað verulega á síðustu mánuðum eða á hálfu ári um 11%. Um áramót voru bankarnir metnir á 43,3 milljarða kr. En samkvæmt nýjustu upplýsingum eru þeir metnir á 38,3 milljarða og munar þarna 5.000 milljónum.

Hér komu fram við umræðuna af minni hálfu áhyggjur og undrun yfir þeim yfirlýsingum sem hæstv. samgrh. gaf í tengslum við einkavæðingu Landssímans. Hann sagði hér í ræðu --- ég vitnaði í orð hans og áður gerði það hv. þm. Sverrir Hermannsson --- að ríkið ætti ekki að stunda spákaupmennsku, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, og því færi fjarri að leita ætti eftir sem hæstu verði fyrir þessar ríkiseignir á markaði. Þessi undarlegu ummæli stangast á við yfirlýsingar sem ríkisstjórnin hefur áður gefið varðandi bankana, en í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá maílokum árið 1999, frá 28. maí 1999, segir að við söluna verði þess gætt að ríkið fái hámarksverð fyrir eign sína í bönkunum.

Ég kem hingað fyrst og fremst upp núna til þess að krefja hæstv. viðskrh. svara á hvern hátt hæstv. ráðherra bregst við yfirlýsingu hæstv. samgrh. þess efnis að ekki verði leitað eftir hámarksverði fyrir þessar ríkiseignir, að ríkið eigi ekki að stunda spákaupmennsku, eins og hæstv. ráðherra orðaði það, sem er undarlegt orðalag þegar um er að ræða að gæta hagsmuna almennings. Í því felst engin spákaupmennska heldur einvörðungu búhyggindi og almennt siðgæði. Mér finnast þessar yfirlýsingar jaðra við að vera siðlausar, að menn ætli að fara þannig með eignir almennings að setja þær á silfurfatið og afsala okkur eignarhaldinu yfir þeim á eins óábyrgan hátt og þessi ummæli gefa tilefni til að ætla að verði gert.

Ég óska því eftir því að hæstv. viðskrh. geri grein fyrir afstöðu sinni til þessa máls og vil beina því til hæstv. forseta að hæstv. viðskrh. verði gert viðvart um að umræðunni sé að ljúka, 3. umr. um þetta mál. Lokaumræðu um málið er að ljúka og þess er farið á leit við hæstv. ráðherra að hún geri grein fyrir afstöðu sinni til þessa máls.

Ég las hér upp ummæli hæstv. samgrh. fyrr í dag og hæstv. viðskrh. hefur fengið útskrift af ræðu hans í hendur, og nú er þess farið á leit við hæstv. ráðherra að hún geri grein fyrir afstöðu sinni. Hvor afstaðan á að standa, fyrirheitin sem voru gefin í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar 28. maí árið 1999 um að leitað verði eftir hámarksverði eða þessi makalausa yfirlýsing sem hæstv. samgrh. gaf fyrir hönd ríkisstjórnarinnar fyrr við þessa umræðu?

Herra forseti. Ég mun ekki ljúka máli mínu hér fyrr en ég fæ svör við því hvort hæstv. viðskrh. ætli að bregðast við þessari ósk minni um viðbrögð við yfirlýsingum hæstv. samgrh.

(Forseti (GuðjG): Hæstv. viðskrh. er að ganga í salinn.)

Hæstv. viðskrh. er að ganga í salinn. Ég geng út frá því sem vísu að hæstv. ráðherra verði við þeirri ósk minni að svara þeirri fyrirspurn sem ég beindi til hennar hér fyrr við umræðuna um að bregðast við yfirlýsingum hæstv. samgrh. þar sem hann segir að ekki verði leitað eftir því að fá hæsta verð fyrir þessar ríkiseignir, slíkt sé spákaupmennska. Ég vil vita hver viðbrögð hæstv. bankamálaráðherra eru við þessari yfirlýsingu.