Stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 14:50:26 (8120)

2001-05-18 14:50:26# 126. lþ. 128.3 fundur 521. mál: #A stofnun hlutafélaga um Landsbanka Íslands og Búnaðarbanka Íslands# (sala hlutafjár ríkissjóðs) frv. 70/2001, Frsm. 2. minni hluta ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[14:50]

Frsm. 2. minni hluta efh.- og viðskn. (Ögmundur Jónasson) (andsvar):

Herra forseti. Telur hæstv. viðskrh. að það verði aðrir kaupendur að bönkunum en að Símanum? Gilda ekki nákvæmlega sömu reglur og sömu viðhorf varðandi þessar eignir?

Hæstv. samgrh. sagði einnig að eðlilegt væri að tryggja fjárfestum háa arðsemi þeirrar eignar sem þeir keyptu. En, herra forseti, á ég að trúa mínum eigin eyrum, þ.e. að ríkisstjórnin ætli virkilega að gera alvöru úr því að setja þessar þjóðareignir á silfurfat fyrir vildarvini sína?

Þegar talað er um að almenningur kaupi, gera menn sér þá ekki grein fyrir því að stórir fjárfestar munu að sjálfsögðu reyna að komast yfir þessar eignir? Ég hef ekki nokkrar einustu efasemdir um að hvort sem um er að ræða bankana eða Landssímann þá eru það góðir fjárfestingarkostir. En bestur er sá kosturinn fyrir núverandi eiganda, sem er ríkið. Það er ríkisstjórnin sem á að gæta hagsmuna þess eiganda, gæta hagsmuna þjóðarinnar.

Hér er það fullyrt á þinginu að það sé eðlilegt, gott og eftirsóknarvert að selja þessar eignir, þessar gullgerðarvélar, á gjafaprís. Hvers konar ábyrgðarleysi er þetta og hvílík örlög eru það fyrir íslenska þjóð að hafa svona lélega hagsmunagæslumenn við stýrið? Þetta fólk kann ekki að standa í fæturna.