Eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 15:04:06 (8124)

2001-05-18 15:04:06# 126. lþ. 128.4 fundur 522. mál: #A eigendur virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum# (breyting ýmissa laga) frv. 69/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[15:04]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Það frv. sem nú er tekið á dagskrá tengist því frv. sem við vorum að ljúka við að ræða, þ.e. um sölu á Búnaðarbankanum og Landsbankanum, og snertir viðleitni ríkisstjórnarinnar til þess að setja lagaákvæði sem komi frekar í veg fyrir að við sölu á viðskiptabönkunum sé einn aðili sem eignist virkan eignarhluta, annaðhvort með beinni eða óbeinni hlutdeild hans í eigin fé eða í atkvæðisrétti.

Þetta er vissulega, herra forseti, viðleitni til þess að setja slíkar girðingar en ég vil minna á að við 2. umr. vildum við fulltrúar Samfylkingarinnar í efh.- og viðskn. ganga lengra í að reisa slíkar girðingar og vildum setja skorður við atkvæðisréttinum um að eigendur virkra eignarhluta geti að hámarki farið með 15% atkvæðisréttar í viðskiptabanka.

Herra forseti. Þessi tillaga var felld við 2. umr. málsins og nú er þetta mál, eins og það kemur frá ríkisstjórninni, afgreitt hér til 3. umr. Við vorum á þessum síðustu mínútum að heyra af þeirri skýrslu sem liggur nú fyrir frá hæstv. viðskrh. sem Samkeppnisstofnun vann að ósk þingmanna Samfylkingarinnar og hefði vissulega, herra forseti, verið ærin ástæða til að við hefðum fengið svigrúm til þess að fara yfir þá skýrslu áður en þetta mál er endanlega afgreitt frá þinginu. Hæstv. viðskrh. hefur haldið blaðamannafund um skýrsluna og við höfum heyrt aðeins glefsur úr fréttum í hádeginu hvað hún inniheldur fyrir utan það að fyrir örfáum mínútum fékk ég skýrsluna í hendur frá hæstv. viðskrh. en henni hefur ekki verið dreift hér í þingsölum. Er það miður þegar þingmál sem beinlínis snertir það mál sem hæstv. ráðherra var að kynna á blaðamannafundinum um stjórnunar- og eignartengsl liggur nú fyrir. Þess vegna hefðu það verið betri og skynsamlegri vinnubrögð, herra forseti, að fresta þessu máli lítið eitt þar til þingmenn hefðu haft færi á að kynna sér efni skýrslunnar.

Við höfum dregið það fram í umræðunni, af því að við erum að ræða um bankana og það kemur reyndar fram í frv. ráðherrans um sölu á Landsbanka og Búnaðarbanka, þegar skoðaðir eru fimm stærstu bankarnir og tveir stærstu bankarnir hins vegar þá er samþjöppunarhlutfallið hér, eins og það var 1998, mjög hátt á Íslandi samanborið við önnur lönd. Þar var getið einna tíu, tólf landa í Evrópu þar sem fram kemur að þegar skoðaðir eru tveir stærstu bankarnir og samþjöppunarhlutfallið metið hér á landi samanborið við tólf önnur lönd þá erum við númer tvö í röðinni þegar tveir stærstu bankarnir eru skoðaðir með tilliti til samþjöppunar á þessum markaði. Og þegar fimm stærstu bankarnir eru undir þá erum við númer þrjú í röðinni af þessum tólf þjóðum. Það segir okkur að samþjöppunin hér á bankamarkaðnum er gífurlega mikil samanborið við önnur lönd.

Nú hef ég ekki haft tækifæri til að kynna mér skýrsluna en það sem ég hef þó gert í fljótu bragði, þá kemur fram að mikil fákeppni ríkir og það er mikil fákeppni sem einkennir atvinnulífið hér og stórar valdablokkir sem ráða ferðinni og hafa stækkað frá því að síðasta skýrsla var gerð 1994. Eru þar nefndir til tryggingamarkaðurinn, olíumarkaðurinn, flutningastarfsemi, ferðaiðnaðurinn og matvörumarkaðurinn og þarna er um að ræða fyrirtæki sem tengjast gagnkvæmu eignarhaldi. Hér er því fákeppni vissulega ríkjandi og þetta segir okkur það, herra forseti, að við hljótum að eiga að vera á verði gagnvart fákeppni og markaðsráðandi stöðu hér eins og margoft hefur komið fram í þingsölum, og ekki síst núna þegar við erum að selja banka úr ríkiseign, alfarið úr ríkiseign, þá er vissulega hætta fyrir hendi að stórir aðilar sem tengjast eignar- og stjórnunarlega og stórar valdablokkir sem eru með markaðsráðandi stöðu í stórum atvinnugreinum, nái líka markaðsráðandi stöðu og yfirráðum í bankakerfinu. Og það er nokkuð sem ég held að fáir sem vilja viðhafa og stuðla að raunverulegri samkeppni, ekki bara í orði kveðnu heldur líka í framkvæmd, hljóti að óttast mjög ef slíkt mundi ganga eftir.

Þess vegna, herra forseti, er það auðvitað mjög miður og ég vil halda því til haga að svo sé frá málinu gengið að sú tillaga sem við fluttum við 2. umr. málsins hafi verið felld.

Herra forseti. Ég vildi aðeins vekja athygli á því sérstaklega að mér finnst nokkuð óeðlilegt að afgreiða málið hér til lokaatkvæðagreiðslu í þinginu áður en þingmenn hafa fengið tækifæri til að kynna sér þá skýrslu um stjórnunar- og eignatengsl sem nú liggur fyrir, herra forseti, þegar við erum að afgreiða frá okkur svo stór mál.

Ég býst við því, herra forseti, ef við hefðum haft tækifæri til að skoða hana, að hún gæti hafa haft ákveðna þýðingu við afgreiðslu á þessu máli og inn í afgreiðslu efh.- og viðskn. og umræður sem þar fóru fram um þetta mál. Hér er um að ræða þykka skýrslu, hún er ekki minni umleikis en heil símaskrá og þar er sérkafli um bankakerfið sem ég gat ekki einu sinni haft tíma eða tækifæri til að skoða áður en ég fór í ræðustól. Ég gagnrýni því þessi vinnubrögð, herra forseti, ef ljúka á umræðu áður en þingmenn hafa haft tækifæri til að kynna sér skýrsluna. Það litla sem ég hef getað skoðað af skýrslunni segir mér að hún átti virkilegt erindi inn í umræðuna og það eru vinnubrögð sem ekki eru til fyrirmyndar að afgreiða svona stórt mál frá sér og ekki síst það frv. sem hér er tekið á dagskrá, um breytingu á lagaákvæðum um eftirlit með eigendum virkra eignarhluta í fjármálafyrirtækjum, án þess að þingheimur og þingmenn hafi tækifæri til þess að kynna sér hana.