Sala kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 15:55:46 (8135)

2001-05-18 15:55:46# 126. lþ. 128.10 fundur 626. mál: #A sala kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða# frv. 53/2001, Frsm. ArnbS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[15:55]

Frsm. félmn. (Arnbjörg Sveinsdóttir) (andsvar):

Hæstv. forseti. Við skulum minnast þess að þessar jarðir eru einmitt sjálfseignarstofnanir. Þær eru ekki ríkisjarðir. Þessar jarðir hafa verið í umsjón og umsýslu sveitarstjórna en ekki ríkisins. Þannig er það nú til komið. Tilurð þessara jarða er sú að þær voru gefnar í því skyni að fátæklingar, eins og segir í greinargerðinni, í viðkomandi hreppi mættu njóta afgjalds eftir þær um aldur og ævi. (Gripið fram í: Um aldur og ævi, já.)

En við skulum minnast þess að jörðin Arnheiðarstaðir er talin hafa verið kristfjárjörð svo langt aftur sem skriflegar heimildir ná og gjafabréf jarðarinnar er reyndar löngu týnt. Nú á tímum höfum við annars konar tryggingakerfi og við höfum félagsþjónustu sveitarfélaganna sem einmitt þetta sama sveitarfélag sem ætlar að fá heimild til að selja þessar tvær jarðir, hefur skyldur til þess að uppfylla, þær sömu og reiknað var með að afgjald þessara jarða gæti nýst til, þ.e. því fólki sem ætti um sárt að binda eða er eins og segir hér, fátæklingar.

Sveitarstjórnirnar bera því þessa ábyrgð núna. Ég held að þetta komi allt heim og saman og því eðlilegt að sveitarstjórnirnar fái að ráðstafa þessum jörðum eins og þær helst vilja.