Sala kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 15:59:57 (8137)

2001-05-18 15:59:57# 126. lþ. 128.10 fundur 626. mál: #A sala kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða# frv. 53/2001, JB
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[15:59]

Jón Bjarnason:

Herra forseti. Þetta frv. til laga um sölu kristfjárjarðanna Arnheiðarstaða og Droplaugarstaða í Fljótsdalshreppi lætur svo sem ekki mikið yfir sér. Markmið frv. að færa þessar jarðir til ábúenda sinna þannig að þeir geti setið þær og nýtt með hliðstæðum rétti og um eignarhald sé að ræða, er ofur skiljanlegt. Jafnframt er mjög skiljanleg afstaða heimamanna sem vitnað er til í umsögn hreppsnefndar Fljótsdalshrepps. Þar er sagt er, með leyfi forseta:

,,Telur hreppsnefnd það þjóna best hagsmunum íbúa hreppsins að búskap verði haldið áfram á jörðunum og að það verði best tryggt með því að selja ábúendum jarðirnar.``

Þetta er ósköp eðlileg afstaða þegar rætt er um eignarhald, eignaskipti og eignabreytingar á jörðum sem þessum.

[16:00]

Eins og hv. þm. Þuríður Backman og Steingrímur J. Sigfússon hafa rakið mjög ítarlega er afar mikilvægt að finna leið til þess að tryggja stöðu ábúenda á þessum jörðum og hliðstæðum jörðum sem eru víða um land og jafnframt notkun og ráðstöfun annarra jarða sem líkt er ástatt um, að því sé fundinn fastari farvegur ekki síst nú á tímum þegar við, eins og við hér í þinginu, upplifum að allt á að selja, menn fara bara nánast í símaskrána og fletta upp hvað eigi að selja næst. Þannig eru vinnubrögðin þó að ég sé ekki að segja að þau gildi endilega í þessu tilviki, en í ýmsum öðrum virðist það vera eða a.m.k. ekki sjáanlegt annað markmið í ýmsum öðrum tilvikum sem hér ganga nú yfir í áhuga á að selja. En sleppum því í þessu sambandi.

En einu, herra forseti, er mikilvægt að gera sér grein fyrir að þegar kvöðum hefur verið létt á þessum jörðum og þeim skyldum sem á þær hafa verið lagðar með að þær séu kristfjárjarðir og séu gefnar til ákveðinna verkefna og ákveðinnar þjónustu í forsjá himnaföðurins, þ.e. honum gefnar þær um aldur og ævi, að þó að aðstæður breytist í einhverju, þó að félagsaðstæður breytist og við tökum upp ýmsa félagslega þjónustu, eina í dag og aðra á morgun eftir aðstæðum, þá breytum við ekki því að við ætlum áfram að búa við sama himnaföðurinn. Og ekki stendur til að breyta um hann. Ég vil leggja áherslu á að skyldur gagnvart honum, ef taka má þau orð sér í munn hér um það, eru óbreyttar þannig að það eru í sjálfu sér ekki rök í málinu.

Og þó að nú sé fullur vilji til þess að selja jarðirnar ábúendum og verði kveðið svo á um í afsalssamningnum að þeir ábúendur sem munu eignast þær skuli selja þær áfram til ábúenda í viðkomandi sveitarfélagi til ábúðar, þá vitum við að það er í sjálfu sér engin leið til að tryggja það lagalega séð í framkvæmd. Það vitum við. Þrátt fyrir góðan tilgang og góðan ásetning mun það reynast örðugt og ekki hægt.

Það hefði verið fróðlegt að vita --- ég sé að hæstv. félmrh. er kominn hér, hugsanlega til að taka þátt í umræðum --- hversu margar jarðeignir, aðrar eignir og hlunnindi og ígildi þess eru á landinu sem bundnar eru með þessum hætti, þessum heilaga hætti sem var virkilegur vilji þeirra sem þá stóðu að því að skyldi þjóna þessu göfuga hlutverki.

Fróðlegt væri að sjá það því að hver ein aðgerð á eftir annarri hlýtur á vissan hátt að vera fordæmisgefandi, gefa ákveðinn tón fyrir framhaldið sem þar gæti orðið þrátt fyrir góðan og sterkan málstað í hverju tilviki og þrátt fyrir að lög kveði á um að hvert einstakt tilvik skuli meðhöndlast sérstaklega á Alþingi, þá væri fróðlegt í þessu sambandi að fá hér fram hver er almenn heildarstaða þessara mála. Það er full ástæða til þess að umgangast og fara með þessa ráðstöfun fólks á sínum tíma af fullri virðingu fyrir þeim málstað sem þar var verið að leggja til og þeirri ætlan og þeim vilja.

Herra forseti. Ég ítreka það einmitt, eins og hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom hér inn á, að það hlýtur að vera hægt að finna eitthvert form sem gæti að einhverju leyti og sterkara en nú er komið til móts við ábúendur slíkra jarða til að gefa þeim þar aukinn rétt, þó að þeir mundu að sjálfsögðu verða að búa við það að þetta yrði aldrei sem slíkt söluhæf eign, eða erfitt að finna form á því að þetta yrði eign sem gæti gengið kaupum og sölum á frjálsum markaði og jafnframt þjónað því hlutverki sem að er stefnt og jafnframt tryggja ábúð og búsetu heima í héraði.

Ég vildi taka þetta fram, herra forseti. Ég vil jafnframt aðeins víkja að því, þó að það sé alls ekki tengt þessu máli þá kemur manni það óneitanlega í hug, að fyllileg ástæða er til þess að ríkið setji sér stefnu varðandi jarðeignir, eign á löndum, eign á náttúruperlum og eign á jarðeignarlöndum.

Við upplifum það við fjárlagagerð á hverju ári að leitað er heimilda til að selja ríkisjarðir og ríkiseignir að því er virðist afar tilviljanakennt og án þess að nein stefna sé fyrir hendi hvernig hald ríkisins á slíkum jarðeignum skuli vera og hvaða sýn það hefur.

Einnig kemur það líka spánskt fyrir sjónir að jafnframt því að ríkið er að selja jarðeignir og náttúruperlur, jarðir upplagðar til útivistar eða þess vegna sem almenningar eða til almannaheilla en sem gæti verið gott að eiga til frambúðar, þá getur þetta verið selt án nokkurrar skoðunar á því hvaða verðmæti þar geta verið í húfi. Og jafnframt er ríkið um leið að reka málaferli gagnvart landeigendum sem eiga lönd, annaðhvort á hálendinu eða allt til sjávar, og reyna að slá eign sinni á það undir því yfirskyni að verið sé að flokka og sækja land til þess að vera almenningar á hálendi Íslands sem er gott mál í sjálfu sér en má ekki teygja út fyrir það að vera í formi landakrafna.

Ég ætla ekki að gera þetta að öðru leyti að umtalsefni hér, herra forseti, í tengslum við þetta mál, bara vekja athygli á því að stefna ríkisins í jarðeignamálum annars er afar þversagnakennd.

Herra forseti. Ég tek undir þær óskir eða þau tilmæli sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon kom með að ástæða væri til að skoða mál slíkra jarða og jarða sem líkt er ástatt með áður en farið er að ráðstafa þeim jafnvel með fordæmisgefandi hætti eins og hér er verið að leggja til, en ber fulla virðingu fyrir og sýni fullan skilning á þeim óskum sem bæði ábúendur á þessum jörðum og heimaaðilar sýna og leggja til í þessu máli.