Skráning og mat fasteigna

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 16:30:16 (8141)

2001-05-18 16:30:16# 126. lþ. 128.17 fundur 688. mál: #A skráning og mat fasteigna# (útgáfa matsskrár o.fl.) frv. 61/2001, félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[16:30]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Um þá spurningu sem hv. þm. varpaði fram um brunabótamatið vil ég segja að ég fékk tillögu frá Íbúðarlánasjóði í fyrra um að breyta viðmiðuninni við brunabótamat yfir í kaupverð eða matsverð. Ég sendi þá tillögu eins og mér var skylt til Seðlabankans til umsagnar. Seðlabankinn taldi að ef þetta væri gert mundi það hvetja til aukinnar þenslu sem reyndar var yfirdrifin hér á fasteignamarkaði og mundi hækka verð í fasteignaviðskiptum. Ég féllst á þessa röksemd og lét þar við sitja að miða áfram við óbreyttar kringumstæður enda var ekki farið að afskrifa brunabótamatið eins og liggur í loftinu að gert verði.

Ég fékk fyrir nokkru síðan, fyrir fáeinum dögum síðan, nýjar tillögur frá Íbúðarlánasjóði sem m.a. fer fram á að hverfa frá þessari iðmiðun við brunabótamatið, miða við kaupverð og lána út á það en þó ekki hærra en brunabótamatið segir til um. Sú tillaga er sem stendur til umsagnar hjá Seðlabankanum. Ég veit út af fyrir sig ekki hver niðurstaða Seðlabankans verður eða hvaða umsögn Seðlabankinn gefur um tillöguna. Það er mitt í samráði við ríkisstjórnina að ákveða þetta. Seðlabankinn er hins vegar lögum samkvæmt umsagnaraðili um svona hluti.

Viðhorfið er breytt. Þenslan hefur minnkað á fasteignamarkaði. Þar af leiðir er það ekki alveg borðleggjandi að umsögn Seðlabankans verði nákvæmlega sú sama og hún var þegar ég spurði fyrr. Alþingi ákvað í fyrra að brunabótamatið reiknaðist með afskriftum eins og hv. þm. tók fram. En það er reyndar ekki farið að virka og gerir væntanlega ekki fyrr en á miðju sumri. Mig minnir að sú regla taki gildi 1. júlí. Okkur er að sjálfsögðu mikið í mun að æsa ekki til þenslu á fasteignamarkaði. Fasteignasalarnir vilja auðvitað hafa lánakjör sem rýmst. En afföll á húsbréfum sem urðu talsverð í fyrra hafa minnkað og eru nú nálega horfin. Fram í mars í fyrra voru húsbréf seld á yfirverði. Síðan komu afföll og við þurftum að reyna að bregðast við þeim og það hefur tekist að ná þeim niður þannig að nú eru afföllin sáralítil, 5% eða tæplega 5% þegar ég spurði síðast eftir því.

Ég tel óhjákvæmilegt að breyta þessari viðmiðun við brunabótamatið þegar hið nýja fasteignamat fer að virka og brunabótamatið á eldri eignum lækkar óeðlilega. Að vísu er verið að kaupa meira en brunabótamatið segir til um þegar menn kaupa fasteignir. Þegar menn kaupa hús eru þeir líka að borga kostnað af gatnagerðargjaldi sem brunabótamatið tekur ekkert á. Brunabótamatið á að borga eignina en borgar ekki lagnir, gatnagerðargjöld eða lóðarverð sem menn eru reyndar að borga þegar þeir eru að kaupa hús þannig að brunabótamat er ekki hin besta viðmiðun í þessu sambandi.