Skráning og mat fasteigna

Föstudaginn 18. maí 2001, kl. 16:35:05 (8142)

2001-05-18 16:35:05# 126. lþ. 128.17 fundur 688. mál: #A skráning og mat fasteigna# (útgáfa matsskrár o.fl.) frv. 61/2001, JóhS
[prenta uppsett í dálka] 128. fundur, 126. lþ.

[16:35]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin og er bærilega sátt við þau. Það er alveg ljóst að ráðherrann er sér fyllilega meðvitaður um það vandamál sem hér er á ferðinni og hvaða áhrif það getur haft, það endurmat og afskriftir sem á að fara í í tengslum við brunabótamat. Þess vegna fagna ég því að ný tillaga hefur verið gerð í þessu efni, ef ég skil rétt, frá Íbúðalánasjóði til ráðherra og frá ráðherra til Seðlabankans þar sem hún liggur nú fyrir til umsagnar. Ég held að hjá því verði ekki komist að breyta þessu viðmiði sem ráðherrann nefnir.

Vissulega hefur útlánaþenslan verið mikil og afföllin voru um tíma eins og hæstv. ráðherra nefndi í kantinum. Engu að síður eru lánin í húsbréfakerfinu orðin svo lág, m.a. vegna þess viðmiðs, að fólk hefur neyðst til þess að taka stærri hluta af íbúðarverði í gegnum bankakerfið sem er auðvitað afar slæmt og eykur hættu á greiðsluerfiðleikum. Þess vegna held ég að það væri ráð hjá Seðlabankanum ef hann er hræddur við áhrifin af því að fara að tillögu ráðherrans um að auka þetta viðmið, að fara þá frekar út í aðgerðir sem drægju úr útlánaþenslu í bankakerfinu til þess að svigrúm sé fyrir aukna útgáfu á húsbréfum sem er nauðsynleg vegna þessara aðstæðna sem við höfum farið í gegnum.

Nú hef ég kannski ekki áttað mig á því eða kafað það ofan í þetta mál, en ég spyr hæstv. ráðherra: Er reglugerðarbreyting ekki nægjanleg fallist ráðherrann á að ganga í þessa breytingu að fenginni umsögn Seðlabankans? Það þarf ekki að koma til nein lagabreyting? Ég geri ráð fyrir að reglugerðarbreyting sé nægjanleg. Getur hæstv. ráðherra upplýst eilítið nánar en hann hefur gert hér hvenær megi vænta þessara breytinga. Ég hygg að þó ekki sé farið út í það endurmat á brunabótamati sem stendur fyrir dyrum sé full þörf á að fara í þessa rýmkun. Ég skil orð ráðherrans svo að hann muni bíða eftir því að gengið verði í þetta endurmat á brunabótamati. Eða mun hæstv. ráðherra ganga í þetta fyrr? Spurning mín er þá: Treystir ráðherrann sér til að tímasetja það nánar en hann hefur gert hér hvenær verði farið í þessa breytingu og getur ráðherrann upplýst nánar, af því að hann hefur væntanlega skoðað það, hvaða áhrif það muni hafa á lánveitingarnar sem slíkar?

Að öðru leyti var ég sátt við þær upplýsingar sem ráðherrann gaf, en spyr hann hvort hann treysti sér til þess að gefa fyllri upplýsingar en hann gerði áðan.

Varðandi þetta frv. þá hefur komið fram hjá Fasteignamati ríkisins að þeir hafa ekki hugsað þá heimild sem þeir fá til þess að hækka álagningarstofn fasteignagjalda heldur til að ná fram samræmi í mati hliðstæðra eigna. Fasteignaeigendur óski í flestum tilvikum eftir endurmati til lækkunar á fasteignamati, en hitt þekkist líka að þeir óska eftir endurmati til hækkunar. Þetta segir Fasteignamat ríkisins í umsögn sinni. Þeir segja líka að við endurmat einnar íbúðar t.d. í þríbýlishúsi samkvæmt beiðni eiganda getur komið í ljós að sömu forsendur eru til að lækka fasteignamat hinna tveggja íbúðanna, t.d. vegna lélegs viðhalds. Einnig kemur fram að Fasteignamat ríkisins muni væntanlega byrja á því að nota þessa heimild til að lækka fasteignamat eigna sem urðu fyrir skemmdum á Suðurlandi í jarðskjálftunum á síðastliðnu ári og ekki hafi verið farið fram á endurmat þeirra af hálfu eiganda eða sveitarfélags, en óskað hafi verið eftir upplýsingum frá viðlagatryggingu um þau hús.

Herra forseti. Ég treysti því að Fasteignamatið beiti þessari heimild með þessum hætti en hér sé ekki verið að ganga í það að endurmeta svo fasteignamatið að það leiði til verulegrar hækkunar almennt á fasteignagjöldum. Ég ítreka hvort ráðherrann hafi einhverjar fyllri upplýsingar í þá veru sem ég var að spyrja um.